Beint á efnisyfirlit síðunnar

Raforkukerfið

Flutningslínur Landsnets Smelltu á mynd til að stækka

Allar helstu flutningslínur rafmagns á Íslandi eru í dag í eign og rekstri Landsnets.

Landsnet á og rekur allar megin flutningslínur rafmagns á Íslandi. Til stofnlínukerfisins teljast línur sem eru með 66 kV spennu og hærri auk nokkurra 33 kV lína. Til flutningskerfisins teljast einnig öll megin tengivirki á Íslandi.

Hæsta spenna í rekstri flutningskerfisins hér á landi er 220 kV. Stór hluti kerfisins er á 132 kV spennu en hluti er 66 kV og 33 kV. Þá hafa síðustu línur á SV-landi verið byggðar sem 420 kV línur þó svo að rekstrarspenna þeirra sé 220 kV.

Verðmæti

Í ársbyrjun 2008 voru áætluð verðmæti í flutningskerfi Landsnets um 80 milljarðar króna að stofnvirði en bókfært virði þeirra var þá 46,6 milljarður króna. Meginverðmætin eru í háspennulínum og tengivirkjum.

Allar virkjanir, sem eru 7,0 MW og stærri, eiga að tengjast flutningskerfinu og eru innmötunarstaðir í dag 19 að tölu. Orka af flutningskerfinu er afhent til dreifiveitna á 57 stöðum og til stórnotenda á fimm stöðum víðs vegar um landið. Dreifiveitur flytja rafmagnið síðan áfram um eigið dreifikerfi til endanlegra notenda.

Vöxtur og viðhald

Flutningskerfið hefur stækkað verulega frá stofnun Landsnets. Fjárfest hefur verið í aukinni flutningsgetu til að mæta kröfum um meiri raforkusölu til stórnotenda.

Landsneti ber að sjá til þess að gerð sé spá um raforkuþörf og áætlun um uppbyggingu flutningskerfisins til lengri tíma. Slík spá er gefin út árlega til 5 ára í senn. Jafnframt eru skilgreindar kröfur um rekstraröryggi og mat á flutningsmörkum og samhæfðum stillingum á varnarbúnaði.

Starfsmenn Landsnet hafa mikla reynslu í uppbyggingu og viðhaldi flutningsvirkja. Landsnet skiptir viðhaldsvinnu í þrennt, þ.e. reglubundið viðhald, ástandsstýrt viðhald og almennt viðhald. Ef ástæða þykir til, eins og til dæmis eftir mjög slæm veður, er bætt við aukaskoðunum og viðhaldi ef þörf krefur.