Beint á efnisyfirlit síðunnar

 

Landsnet hefur lagt fram til Skipulagsstofnunar tillögu að matsáætlun vegna Kröflulínu 3. Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt 22. tl. í 1. viðauka laga nr. 106/2000 m.s.br. um mat á umhverfisáhrifum. 

Tillaga að matsáætlun liggur frammi til kynningar til 15. mars 2013 hjá Skipulagsstofnun og á netinu á www.skipulagsstofnun.is, www.efla.is og www.landsnet.is

Allir hafa rétt til að kynna sér tillöguna og leggja fram athugasemdir. Athugasemdir skulu berast skriflega eða í tölvupósti eigi síðar en 15. mars 2013 til Skipulagsstofnunar, Laugavegi 166, 150 Reykjavík.

Matsáætlun

Í matsáætlun er fyrirhugaðri framkvæmd, valkostum og framkvæmdasvæði lýst og fjallað um umfang og áherslur mats á umhverfisáhrifum. Jafnframt er tilgreint hvaða gögn eru fyrir hendi sem nýtt verða við matsvinnuna og hvaða gagnaöflun er yfirstandandi eða fyrirhuguð.

Frummatsskýrsla

Í frummatsskýrslu verða áhrif framkvæmdar á eftirfarandi þætti metin: Gróður, fuglalíf, jarðmyndanir, fornleifar, svæði á náttúruminjaskrá og náttúruverndaráætlun, neysluvatn og vatnsvernd. Þá verða einnig metin áhrif framkvæmdarinnar á landslag og ásýnd, hagræna og félagslega þætti og áhættu og öryggismál.

Um verkefnið

Um er að ræða nýja 220 kV háspennulínu frá tengivirki við Kröflustöð að tengivirki við Fljótsdalsstöð. Tilgangur framkvæmdarinnar er að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi með betri samtengingu þessara landshluta og auka þannig öryggi raforkuafhendingar og gæði raforku. Framkvæmdin er einnig mikilvægur hlekkur í styrkingu byggðalínunnar sem er hryggjarstykkið í flutningskerfinu á landinu í heild.