Beint á efnisyfirlit síðunnar

 

Kröflulína 3

Til að styrkja raforkuflutningskerfið í heild og auka stöðugleika og gæði raforkuafhendingar á Norður- og Austurlandi með betri samtengingu framleiðslueininga í þessum landshlutum áformar Landsnet að byggja 220 kV háspennulínu, Kröflulínu 3, frá nýju tengivirki við Kröflustöð að tengivirki við Fljótsdalsstöð. 

Línan verður um 122 km löng og möstrin um 330. Á línuleiðinni er fyrir 132 kV lína í byggðalínuhringnum og mun nýja línan að mestu liggja samsíða henni, enda framkvæmdin mikilvægur hlekkur í styrkingu byggðalínunnar sem er hryggjarstykkið í hinu miðlæga flutningskerfi á landinu.

Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt 22. tl. í 1. viðauka laga nr. 106/2000 m.s.br. um mat á umhverfisáhrifum.

Matsáætlun

Í tillögu að matsáætlun, sem send var Skipulagsstofnun 25. febrúar 2013 og lá frammi frammi til kynningar fyrir almenning til 15. mars 2013 og allir gátu gert athugasemdir við, er fyrirhugaðri framkvæmd, valkostum og framkvæmdasvæði lýst og fjallað um umfang og áherslur mats á umhverfisáhrifum. Jafnframt er tilgreint hvaða gögn eru fyrir hendi sem nýtt verða við matsvinnuna og hvaða gagnaöflun er yfirstandandi eða fyrirhuguð.  Skipulagsstofnun kynnti ákvörðun sína um tillögu Landsnets að matsáætlun þann 9. ágúst 2013 þar sem Skipulagsstofnun féllst á tillöguna með athugasemdum. Á vef Skipulagsstofnunar  má kynna sér tillögu að matsáætlun ásamt ákvörðun Skipulagsstofnunar.

Frummatsskýrsla

Í frummatsskýrslu eru metin áhrif framkvæmdar á eftirfarandi þætti: Gróður, fuglalíf, jarðmyndanir, fornleifar, svæði á náttúruminjaskrá og náttúruverndaráætlun, neysluvatn og vatnsvernd. Þá verða einnig metin áhrif framkvæmdarinnar á landslag og ásýnd, hagræna og félagslega þætti og áhættu og öryggismál.

Umfjöllun um fyrirsjáanleg umhverfisáhrif Kröflulínu 3, byggð á þeim gögnum sem liggja fyrir í mati á umhverfisáhrifum, er að finna á bls. 20 í Umhverfisskýrslu kerfisáætlunar 2015-2024.