image
16.03.2017

Aukið afhendingaröryggi forsenda Kröflulínu 3

Til að bæta raforkuflutningskerfið, auka stöðugleika og gæði orkuafhendingar á Norður- og Austurlandi áformar Landsnet að byggja 220 kV raflínu, Kröflulínu 3, frá nýju tengivirki við Kröflustöð að tengivirkinu við Fljótsdalsstöð.

Frummatsskýrsla fyrir Kröflulínu 3 hefur nú verið lögð fram til athugunar hjá Skipulagsstofnun og framundan er fundaröð þar sem mat á umhverfisáhrifum er kynnt og óskað eftir athugasemdum.

Fundað verður í Skútustaðahreppi 27. mars, á Egilsstöðum 28. mars og í Reykjavík 5. apríl. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 5.maí 2017.

Kröflulína 3 fer um þrjú sveitarfélög: Skútustaðarhrepp, Fljótsdalshérað og Fljótsdalshrepp. Áætluð lengd línunnar er 122 km og mun hún liggja að mestu samsíða Kröflulínu 2.

Undirbúningur verkefnisins hefur staðið yfir um alllangt skeið. Tillaga að matsáætlun var kynnt í ársbyrjun 2013 og samþykkt síðar sama ár af Skipulagsstofnun með athugasemdum. Síðan þá hefur staðið yfir vinna við áframhaldandi skoðun valkosta, í samráði við Skipulagsstofnun, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila og gerð frummatsskýrslu þar sem áhrifum framkvæmdarinnar er lýst.

Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar er loftlína aðalvalkostur. Jafnframt er lagt fram mat á nokkrum jarðstrengskostum á línuleiðinni, m.a. á um 1.300 m löngum kafla þar sem línan þverar Jökulsá á Fjöllum innan Vatnajökulsþjóðgarðs í samræmi við stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og að auki á nokkrum lengri köflum á svæðum sem falla utan viðmiða í stefnunni .

Í frummatsskýrslunni er lagt mat á þætti eins og gróður, fuglalíf, jarðmyndanir, fornleifar, náttúruvernd, neysluvatn og vatnsvernd, útivist og ferðamennsku, landnotkun á afrétti, áhættu og öryggismál.

Hér er hægt að nálgast skýrsluna og önnur gögn sem fylgja verkefninu.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?