image
04.04.2017

Loftslagsmál, orkuskipti og orkustefna í brennidepli

Kviknar á perunni – í átt að grænni framtíð var yfirskrift vel sótts vorfundar Landsnets í dag en hátt í 200 manns sátu fundinn auk þess sem fjölmargir fylgdust með honum í beinni útsendingu á heimasíðu fyrirtækisins og á visir.is.

Að mati stjórnarformanns Landsnets, Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, er stærsta áskorunin sem fyrirtækið stendur frammi fyrir að ná sátt í samfélaginu um það hvernig það geti uppfyllt skyldur sínar um öruggan flutning raforku og jafnt aðgengi að rafmagni. Eins og staðan væri nú væri fyrirtækinu ekki gert kleift að uppfylla þessar skyldur og sem gömlum sveitarstjórnarmanni þætti henni það vera grafalvarlegt mál því orkumál væru eitt af mikilvægustu byggðamálunum. Þá nefni hún að sér þætti vanta frekari stoðir undir kerfisáætlun fyrirtækisins, þannig að hún væri þá Landsáætlun eða orkustefna Íslands og kallaði eftir mótun heildstæðrar orku- og uppbyggingarstefnu sem væri líklegri til að stuðla að meiri sátt enda væri samtal og skilningur sett þar á oddinn.

Unnið að stefnumótun um uppbyggingu flutningskerfisins

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fagnaði áskorun stjórnarformanns Landsnets og sagði m.a. að í raun væri ekki til formleg orkustefna fyrir Ísland. Það væri mikilvægt að stjórnvöld tækju af skarið og mörkuðu slíka stefnu og væri sú vinna þegar hafin í ráðuneyti hennar.

Ráðherra kom einnig inn á þær áskoranir sem blasa við varðandi uppbyggingu á flutningskerfinu og þá umræðu sem verið hefur um þau mál. Hún sagði að byrja þyrfti á að ná fram sameiginlegum skilningi á hlutverki og tilgangi þessara sameignlegu innviða samfélagsins. Ein leið til þess væri að leggja fram skýra langtímasýn um uppbyggingu flutningskerfisins og væri vinna við slíka stefnumótun þegar hafin og yrðu drög að þingsályktun lögð fram til kynningar og umsagnar á heimasíðu ráðuneytisins á næstu vikum.

Rafmagn eða olía?

Forstjóri Landsnets, Guðmundur Ingi Ásmundsson, vék m.a. í erindi sínu að niðurstöðum erlendra sérfræðinga á raforkuöryggi Íslands. Telja þeir að strax verði að ráðast í styrkingu byggðalínunnar eða að öðrum kosti að ráðast í frekari uppbyggingu olíuknúinna varaaflsstöðva til að styðja við kerfið á meðan styrking þess á sér ekki stað. Þá benti Guðmundur á að orkuöryggi væri grundvöllur þess að ráðast í orkuskipti og fór yfir þær sviðsmyndir um mögulega framtíðarþróun orkumála á landinu sem fyrirtækið leggur til grundvallar í orkuskiptum og uppbyggingu flutningskerfisins. Þar er enn horft til tveggja meginleiða til að tengja saman suðvestur- og norðausturhluta landsins, þ.e. hálendisleiðar og uppbyggingar byggðalínuhringsins. Sagði hann að uppbyggingaráform miðuðu nú við línuleiðir sem væru sameiginlegar í þessum tveimur meginvalkostum, sem eru Kröflulína 3, Hólasandslína 3 og Blöndulína 3, sem þyrfti að fara í nýtt umhverfismat vegna ýmissa breytinga sem átt hafa sér stað, m.a. í skipulagsmálum. Kom fram hjá Guðmundi að þörf væri á enn frekari rannsóknum áður en hægt væri að koma með tillögu um val á milli þessara tveggja kosta, hálendisleiðar eða styrkingar byggðalínuhringsins. Fyrirtækið ætlaði sér 1-2 ár í þær rannsóknir og það gæti komið til kasta stjórnvalda að velja þar á milli, eins og fordæmi væru fyrir í nágrannalöndum okkar.

Danmörk án jarðefnaeldsneytis 2050

Sérstakir gestir ársfundarins að þessu sinni voru Troels Ranis frá Dansk Industri og Eyþór Eðvarðsson frá samtökunum París 1,5 og voru þeim einnig ofarlega í huga umhverfis- og loftslagsmál, orkustefna og orkuskipti. Fram kom hjá Troels að Danir hafa sett sér þá stefnu í orkumálum að árið 2030 skuli helmingur þeirrar orku sem Danir nota, vera endurnýjanleg. Þá ætla þeir árið 2050 að vera orðnir óháðir notkun jarðefnaeldsneytis. Aukin notkun endurnýjanlegra orkugjafa kallar á sterkt flutningsnet, bæði innan Danmerkur og milli landa í Evrópu og lýsti Troels nokkrum áhugaverðum verkefnum sem er í framkvæmd eða bígerð. Þar á meðal er vindmyllulundurinn Kriegers Flak á Eystrasalti sem mun framleiða 600 MW af orku. Fram kom hjá Troels að þrátt fyrir mikla uppbyggingu væri Danmörk vel samkeppnisfær varðandi raforkuverð samanborið við önnur Evrópulönd og þakkaði það m.a. lækkandi verði á tæknibúnaði og auknum útboðum sem væru að skila betra verði. Hann sagði að hjá Dansk Industri væri horft til enn frekari kostnaðarhagræðingar, stöðugs langtímafyrirkomulags varðandi regluverk fyrir orkuiðnaðinn, aukinnar markaðsvæðingar og enn betri samþættingar á stefnu Danmerkur og ESB í orkumálum.

Ákall frá París 1,5 hópnum

„Brettum upp ermar og gyrðum í brók“, var yfirskrift hugvekju Eyþórs Eðvarðssonar frá hópnum París 1,5, sem um nokkurt skeið hefur reynt að ná eyrum áhrifamanna, fjölmiðla og almennings hér á landi vegna loftslagsmála. Við þurfum að stöðva losun á 16 milljón tonnum af gróðurhúsalofttegundum sagði Eyþór og fór m.a. yfir fjölda atriða sem mætti hrinda í framkvæmd til að draga úr losun. Auk orkuskipta í samgöngum nefndi hann m.a. endurheimt votlendis, bindingu koltvíoxiðs í bergi sem lofaði góðu, aukinn veganisma sem drægi úr kjötframleiðslu, minni matarsóun, hjólreiðar og þörf á meiri samdrætti í notkun á jarðefnaeldsneyti, ekki síst í flugi þar sem notkunin væri í stjórnlausum vexti. Eyþór hvatti fundarmenn til dáða í þessum efnum og áréttaði að þeir tilheyrðu síðustu kynslóðinni á jörðinni sem gæti snúið þessari þróun við – og til þess hefðu menn ekki meira en 10-15 ár!

Upptökur með erindum ræðumanna eru aðgengilegar á www.landsnet.is

 

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?