Kröflulína 4, mastur tilbúið til reisingar
image
07.04.2017

Kostnaður við tafir verulegur

Héraðsdómur Norðurlands eystra hafnaði í gær kröfu Landsnets um innsetningu í tiltekin landsréttindi tveggja landeigenda á grundvelli eignarnáms vegna Kröflulínu 4.  

Í úrskurði héraðsdóms er ekki tekin efnisleg afstaða til þeirra atvika sem liggja fyrir í málinu heldur er í úrskurðinum vísað í fordæmi annars dómsmáls með öðrum atvikum og á því byggt að heimild Landsnets til eignarnáms sé ekki vafalaus án þess að færð séu nánari rök fyrir þeirri niðurstöðu.

Stangast niðurstaðan á við þá niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur að sýkna Landsnet og íslenska ríkið af kröfu sömu landeigenda um ógildingu umrædds eignarnáms. Landeigendur hafa áfrýjaði þeim dómi til Hæstaréttar en ekki liggur fyrir hvenær endanleg dómsniðurstaða mun liggja fyrir.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets:

„Standi niðurstaða Héraðsdóms Norðurlands eystra óhögguð og fáist ekki endanleg niðurstaða í dómsmál varðandi gildi eignarnáms vegna Kröflulínu 4 innan tveggja mánaða er ljóst að áætlanir um að ljúka framkvæmdum við Kröflulínu 4 á þessu ári standast ekki og að minnsta kosti árstöf verður á verkinu. Á þessari stundu liggur ekki fyrir hver kostnaður af slíkri töf getur orðið en ljóst er að allar tafir á verkinu munu leiða til tjóns og mikils kostnaðar. Af þessum ástæðum höfum við ákveðið að skjóta málinu til Hæstaréttar.“

Dómsmálin varða afmörkuð landsréttindi vegna Kröflulínu 4 í óskiptu landi Reykjahlíðar en samningar hafa náðst við 17 af 19 sameigendum Reykjahlíðar sem samtals eiga um 92% eignarhluta jarðarinnar, auk þess sem samningar hafa náðst við alla aðra landeigendur á línuleiðinni frá Kröflu til Bakka sem samtals eiga um 99% nauðsynlegra landsréttinda. Matsnefnd eignarnámsbóta hefur lokið umfjöllun um bætur vegna eignarnámsins og ákvarðaði þeim tveimur landeigendum sem samningar hafa ekki náðst við samtals rúmlega 2,5 milljónum króna í bætur. Boði Landsnets um greiðslu eignarnámsbóta í kjölfar úrskurðar matsnefndarinnar var hafnað.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?