Desemberóveðrið

Aftakaveður desembermánaðar

Þann 10. og 11. desember 2019 gekk aftakaveður af norðri yfir norðan- og vestanvert landið. Í áliti veðurfræðings1 kemur fram að leita þurfi aftur til ársins 1950 eða 1965 til að finna álíka þrýstimun og veðurhæð yfir Norðurlandi. Það sem einkenndi þetta veður var hversu lengi það stóð auk þess að samverkandi þættir veðurhæðar, ísingar og seltu gerðu það að verkum að úrkoma klesstist á leiðara og tengivirki. Í aðdraganda óveðurs fékk Landsnet veðurviðvörun og greinargóðar lýsingar frá veðurfræðingi um hvað væri í vændum. Búist var við óveðri á öllu landinu og mátti gera ráð fyrir truflunum í flutningskerfinu í öllum landshlutum. Veðurvaktin ehf. annast vöktun fyrir Landsnet á veðri m.t.t. þátta sem áhrif geta haft á rekstur flutningskerfisins. Þessi vöktun gerir Landsneti kleift að undirbúa vel og tímanlega aðgerðir vegna óveðurs og reyndist vel.

1 Einar Sveinbjörnsson, Veðurvaktin ehf

Mynd 3: Veðurkort frá Veðurstofu Íslands, yfirlitsmynd yfir vind í 10 m og hviður yfir 25 m/s þann 10. desember klukkan 12 og 17

Atburðarás

Í óveðrinu urðu á áttunda tug útleysinga í flutningskerfinu, flestar á Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra og Vestfjörðum. Í kjölfar óveðursins komu fram þó nokkuð margar „afleiddar“ truflanir þar sem flutningskerfið var enn laskað eftir áraunina. Mynd 4 sýnir truflanatímalínu frá 10. desember til 23. desember.

Mynd 4: Truflanatímalína yfir atburðarás óveðursins og afleiðingar þess

Tjón

 

Mynd 5: Dalvíkurlína 1 eftir óveðrið

Meginflutningskerfið stóð að mestu leyti af sér óveðrið en helstu bilanir og truflanir urðu í landshlutakerfunum. Heildarstraumleysismínútur í óveðrinu voru 81,7 með tilliti til forgangsorkuskerðingar en til samanburðar voru þær 0,02 í desember 2018 og 1,99 allt árið 2018. Viðmið Landsnets eru að halda skerðingu forgangsnotenda  undir 50 straumleysismínútum á ári.

Samtals skemmdust 103 staurar í kerfi Landsnets auk skemmda á tengivirkjum í Hrútatungu og á Fitjum.  Stærstu skemmdirnar í kerfi Landsnets urðu á eftirfarandi mannvirkjum:

  • Dalvíkurlína 1:  Skemmdir á yfir 30 möstrum og á leiðara. 54 staurar brotnuðu og 31 þverslá vegna ísingar.
  • Kópaskerslína 1: Skemmdir á 15 möstrum ásamt leiðara. 30 staurar brotnuðu og 15 þverslár vegna ísingar.
  • Laxárlína 1: Skemmdir á 10 möstrum ásamt leiðara. 16 staurar brotnuðu.
  • Tengivirkið í Hrútatungu: Mjög tíðar útleysingar vegna ísingar og seltu.
  • Húsavíkurlína 1: 3 staurar brotnuðu ásamt þverslám.

Nefna má að Kröflulína 1 var nálægt því að fara út vegna ísingar og í raun var ísingarálag langt yfir hönnunarforsendum línunnar. Hefði hún farið út hefði þriðja tengingin til Eyjafjarðar rofnað og Akureyri orðið rafmagnslaus þar sem Blöndulína 2 var úr rekstri um tíma vegna bilunar á Vatnsskarði.

 

Mynd 6: Seltublandaður ís á einangrara. Einangrarinn skemmdist þegar bálaði yfir hann


Mynd 7:  Ísing á Fljótsdalslínu 2

Samantekt eftir landshlutum

Mynd 8 sýnir áhrif veðursins eftir landshlutum, nánar tiltekið fjölda fyrirvaralausra truflana á hverju svæði og útreiknaðar straumleysismínútur dreifiveitna í desember. Straumleysismínútur hafa verið reiknaðar út frá svipuðum forsendum og mynd 2 í kaflanum „Yfirlit“, þ.e. miðað er við heildarforgangsorkuskerðingu almennra notenda í desember og heildarforgangsorkuúttekt almennra notenda á árinu í hverjum landshluta fyrir sig. Þannig kemur betur fram hvaða straumleysi notendur á hverju landsvæði fyrir sig upplifðu.

Mynd 8: Samantekt fyrirvaralausra truflana og straumleysismínútna í hverjum landshluta í desember 2019, við útreikinga á straumleysismínútum var miðað við forgangsálag almennra notenda árið 2019