Stjórnin, stefnan og skipulag

Ársskýrsla

Í áskorunum ársins fólust tækifæri

Af mörgu er að taka þegar horft er til baka til ársins 2020, árs sem í umræðunni hefur oft verið vísað til sem fordæmalauss ári. Það má með sanni segja að þetta hafi verið óvenjulegt ár í sögu okkar hjá Landsneti, þar sem starfsemin var meira og minna á hættu- eða neyðarstigi.


Árið hófst með óveðrum sem höfðu gríðarleg áhrif á flutningskerfið og reyndi mikið á starfsemina, sem enn var á neyðarstigi eftir óveðrið í desember árið áður. Flutningskerfið var laskað og við tók uppbygging á innviðum og verkefnum sem voru sett í forgang af stjórnvöldum í kjölfar óveðranna.

Þetta var framkvæmdaár, það mesta í sögu fyrirtækisins og unnið var í öllum landshlutum að styrkingu og uppbyggingu á fjölbreyttum verkefnum. Ný kynslóð byggðalínu var reist á Norðausturlandi, jarðstrengir lagðir víðs vegar um landið og loftlínur teknar niður á höfuðborgarsvæðinu. Unnið var að spennuhækkun á Austurlandi og vinna og undirbúningur vegna yfirbyggðra tengivirkja fór af stað. Fyrstu stafrænu tengivirkin voru tekin í rekstur á árinu og var mikil vinna lögð í að innleiða nýja tækni þar sem reynt hefur á hugvit og útsjónarsemi starfsmanna. Sú vinna mun skila sér í hagkvæmari rekstri, auknu öryggi og að lokum í samkeppnishæfari gjaldskrá. Öll þessi verkefni gengu vonum framar í umhverfi sem markað var af heimsfaraldrinum.

Örugg afhending raforku er mikilvægasta viðfangsefnið okkar og því fylgir mikil ábyrgð. Í ljósi þess var strax gripið til viðeigandi aðgerða þegar kom að því að hefta útbreiðslu COVID-19 veirunnar, bæði til að koma í veg fyrir smit innan okkar hóps og til að koma í veg fyrir að þjónusta okkar raskaðist. Stór hluti af okkar starfsfólki vann meira og minna í heimavinnu á árinu en netreksturinn og stjórnstöð unnu undir ströngum sóttvörnum. Umhverfi eins og þessu fylgdu áskoranir og starfsmannahópurinn tókst á við kringumstæðurnar af fumleysi og sveigjanleika. Í slíkri stöðu ríður á að ferlar séu skilvirkir, skýrir og öruggir.

 Fjárhagsleg staða fyrirtækisins var góð en óhjákvæmilega hefur ástand á heimsvísu tímabundin áhrif á framleiðslu stórnotenda hér á landi. Áfram var unnið að að því að þróa viðskiptaumhverfið okkar með breytingu á netmála, gjaldskrá og þróun á heildsölumarkaði raforku. Orkustefna fyrir Ísland var kynnt á árinu. Áherslur hennar eru í takti við þá stefnu sem Landsnet hefur sett sér, t.a.m. hvað varðar áfallaþolna innviði, jafnt aðgengi að orku um allt land, bætta orkunýtingu og snjalltækni. Eins er kveðið á um samkeppnishæfan og virkan orkumarkað og undirbúningur að því verkefni hélt áfram á árinu.

Hjá Landsneti starfar öflugur samhentur hópur karla og kvenna sem leggja sitt af mörkum til að halda ljósunum á landinu logandi, tækjunum gangandi og orkunni flæðandi um land allt. Fyrir það erum við þakklát – við eigum samband sem ekki rofnar.

 Að baki er eftirminnilegt ár – ár sem hefur skilað okkur dýrmætri reynslu sem mun nýtast í rafmögnuðum verkefnum og tækifærum framtíðarinnar.


Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri og Sigrún Björk Jakobsdóttir stjórnarformaður

 

Stjórnin

Sigrún Björk Jakobsdóttir, formaður stjórnar

Katrín Olga Jóhannesdóttir, stjórnarmaður

Magnús Þór Ásmundsson, stjórnarmaður

Ólafur Rúnar Ólafsson, stjórnarmaður

Svava Bjarnadóttir, stjórnarmaður

 

 

Skipurit

Skipurit

Hlutverkið

„Rafvædd framtíð er kjarninn í framtíðarsýn Landsnets. Nútímasamfélög treysta á áreiðanlega raforku. Flutningskerfi Landsnets er þannig lykilinnviður íslensks samfélags og þarf að vera bæði áreiðanlegt og traust. Á sama tíma þarf flutningskerfið að vera byggt upp með nútímalegum hætti og um það þarf að ríkja eins breið sátt og mögulegt er. Þær leiðir sem farnar verða þurfa í senn að taka tillit til þarfa samfélagsins á hverjum tíma ásamt því að sýna ábyrgð í umgengni við náttúruna.“

Hér kemur svo myndbandið 

Stefnan 

Snjöll
Skilvirk
Ábyrg
Metnaðarfull

Snjöll

Við störfum í umhverfi þar sem kröfur eru sífellt að aukast og tæknin með. Við þurfum að verða tilbúin til að mæta tæknibreytingum sem eru framundan. Það gerum við m.a. með aukinni sjálfvirknivæðingu og stafrænum lausnum. Við treystum grundvöll ákvarðana með sífellt betri innsýn og greiningargetu. Sveigjanleiki notkunar og nýsköpun á raforkumarkaði verða í lykilhlutverki til að gera okkur kleift að mæta áskorunum framtíðarinnar.

Skilvirk

Í okkar umsjón eru mikil verðmæti. Samfélagið og viðskiptavinir gera til okkar miklar kröfur um góða þjónustu, skilvirkan rekstur og stöðuga gjaldskrá.

Við sjáum alltaf tækifæri í að gera betur og við gerum okkur grein fyrir því að það er lykilatriði til að ná fram skilvirkni í ferlum og hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri raforkukerfisins. Við viljum einfalda og skerpa hluti í þágu viðskiptavina og nýta fjármagn þeirra og okkar betur. Hluti af því er að velja umhverfisvænar lausnir því að þannig nýtum við betur auðlindir okkar og heimsins.

Ábyrg

Við erum lykilinnviður þjóðarinnar og því fylgir mikil ábyrgð. Örugg afhending orku er mikilvægasta viðfangsefnið okkar en samhliða því þarf ákvarðanataka að vera gagnsæ og byggja á öflugri upplýsingagjöf, samtali og samvinnu.

Við tryggjum samfelldan rekstur og stjórnum okkar verkum út frá áhættu. Umhverfismál eru í forgangi og við tökum aldrei áhættu varðandi persónuöryggi. 

Við beitum skipulögðum starfsháttum. Við vinnum að stöðugum umbótum þar sem stuðst er við alþjóðlega stjórnunarstaðla og uppfylltar eru viðeigandi kröfur, bæði lagalegar og aðrar sem tengjast starfseminni.

Metnaðarfull

Við viljum skapa eftirsóknarverðan vinnustað þar sem umhyggja, jafnrétti og öryggi starfsfólks er í fyrirrúmi. Áhersla er á að skapa jákvæða vinnustaðarmenningu með sterkri liðsheild. Menningin okkar er metnaðarfull og hvatar eru til að ná árangri og framgangi í starfi. Við erum framfaramiðað þekkingarfyrirtæki og leggjum áherslu á að þróa hæfileika og hæfni starfsfólks. Við stuðlum að því að allt starfsfólk eigi möguleika á að þróast í starfi, geti sótt fræðslu og sí- og endurmenntun í takt.

Gildi

Gildin okkar eru ábyrgð, samvinna og virðing og er þeim ætlað að vera leiðarljós okkar, bæði í samskiptum við viðskiptavini félagsins og okkar á milli. Þau móta fyrirtækjamenningu okkar, viðhorf og hegðun starfsfólks og styðja við fagmennsku og skilvirka ákvarðanatöku

Eigendur

Árið í hnotskurn

Einar S. Einarsson, framkvæmdastjóri Stjórnunarsviðs

Stjórnunarsvið kemur að mörgum þáttum starfseminnar, bæði hvað varðar innri þjónustuþætti eins og móttöku og skrifstofuþjónustu til gæða-, lögfræði- og öryggismála og ytri þjónustu, þ.e. samskipti við viðskiptavini, fjölmiðla og hagsmunaaðila.  Mikið mæddi á ferlum fyrirtækisins á síðasta ári. Neyðarstjórn var virk nánast allt árið, fyrst vegna óveðra og síðar vegna COVID-19 viðbragða. Vinna starfsfólks færðist að töluverðu leyti í heimavinnu og hefðbundnir fundir urðu að fjarfundum. Í slíkri stöðu ríður á að ferlar séu skýrir og virkir en nokkurra ára vinna við að einfalda gæðakerfið skilaði sér í upptöku á nýju gæðakerfi á árinu.  Við héldum áfram að leita að bestu hönnun á heildsölumarkaði raforku á árinu og fólst sú vinna að mestu í samtali og samráði við viðskiptavini, en fjöldamörg svör fengust við tillögum um hönnun á markaði. Á sama tíma var haldið áfram með gjaldskrárþróun og innleiðingaráætlun á forgangsatriðum hennar. Tilkynnt var á árinu um hækkun innmötunargjalds, en sú niðurstaða fékkst eftir viðamiklar greiningar og samtal við viðskiptavini.


Sverrir Jan Norðfjörð framkvæmdastjóri Þróunar- og tæknisviðs

Árið var mjög óhefðbundið og hafði mikil áhrif á flesta þætti í starfsemi sviðsins. Náttúruöflin voru áberandi á árinu sem höfðu bein og óbein áhrif á verkefni sviðsins, t.a.m. var harður vetur í byrjun ársins sem olli straumleysi víða á landinu, mikil jarðskjálftavirkni bæði á Reykjanesi og Norðurlandi, snjóflóð á Vestfjörðum, aurskriður á Austurlandi, eldingaveður á Suðurlandi og seltuáraun víða um land. Þessir atburðir höfðu áhrif á áætlanagerð fyrir raforkuflutningskerfið, á undirbúning framkvæmdaverka, á rannsóknir sviðsins, og skoðun á vettvangi, skráningu og úrvinnslu gagna. Nokkur af fyrstu stafrænu tengivirkjum Landsnets voru í framkvæmd á árinu og voru komin til viðtökuprófana í lok ársins. Mikið kapp hefur verið lagt á að innleiða þessa nýju tækni sem reynt hefur á hugvit og útsjónarsemi starfsmanna sviðsins. COVID-19 hafði mikil áhrif á vinnulag og tafði í einhverjum tilvikum framgang verkefna. Heimsfaraldurinn hafði einnig áhrif í allri samráðsvinnu við samfélagið, hvort sem það er kynning á kerfisáætlun, verkefnaráð einstakra framkvæmda eða hagsmunaráð Landsnets. Leitað var ólíkra leiða til samráðs, sem í mörgum tilvikum nýttu sér nútímafjarskiptatækni til fjarfunda, og heilt yfir var góður árangur af slíku fyrirkomulagi í bland við hefðbundin fundarhöld.


Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs

Þetta var ár áskorana, framkvæmda og fjármálalegs stöðugleika. Efnahagsleg áhrif af Covid-19 höfðu óveruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins sem var í takt við áætlanir.
Árið var stærsta fjárfestingaár félagsins frá stofnun og var mikill þungi í innkaupum og aðfangaöflun. Vegna COVID-19 var enn meiri áhersla á samstarf við birgja og náðist góður árangur gagnvart réttri afhendingu á vörum og þjónustu. Gengið var frá fjármögnun í byrjun árs vegna framkvæmda ársins, auk þess sem síðasti hluti stofnláns frá móðurfélaginu var greiddur upp. Settar voru skýrar línur varðandi fjárstýringu með samþykkt stjórnar á uppfærðri fjárstýringarstefnu. Á árinu var lögð áhersla á frekari innleiðingu rafrænna lausna í reikningshaldi, bæði hvað varðar útsenda reikninga og reikninga frá smærri birgjum. Unnið var að uppsetningu á mælaborði fyrir heildaráhættumat Landsnets sem orðið er órjúfanlegur hluti af stjórnkerfum okkar. Í rekstri skrifstofuhúsnæðis reyndi mikið á vegna samkomubanns þar sem skipta þurfti húsnæði upp í sóttvarnahólf og skipuleggja starfsemi, s.s. mötuneyti, út frá þeim takmörkunum ásamt því að tryggja sótthreinsun fyrir starfsfólk og húsnæði.  
Umræða um tekjumörk og fjárhagsskipan Landsnets var nokkur á árinu. Landsnet hefur frá stofnun lagt mikla áherslu á hagkvæman rekstur, hagstæða endurfjármögnun og lögbundna arðsemi til eigenda eins og hún er skilgreind í lögum. Umhverfi tekjumarka og grunnforsendur gagnvart fjármagnskostnaði og arðsemi er byggð á sömu reglum og viðmiðunum og í löndunum í kringum okkur. Áhersla félagsins er á mikilvægi þess að halda þeim stöðugleika sem náðist með setningu reglugerðar um leyfða arðsemi á árinu 2016.  Þannig sé tryggður stöðugur rekstur félagsins, stöðugleiki í gjaldskrá og fjárhagsleg staða til að takast á við styrkingu kerfisins. Umhverfi tekjumarka er flókið og samfélagslega ábyrgð mikil hvað varðar áform um uppbyggingu kerfisins. Á síðustu árum hefur verið aukið í faglegri þekking á þessum málaflokki svo og á þjóðhagslegum greiningum til að mæta auknum kröfum um gagnsæi og upplýsingagjöf.


Nils Gústavsson, framkvæmdastjóri framkvæmda- og rekstrarsviðs

Þrátt fyrir erfitt kórónuveiruár með öllum þeim takmörkunum sem því fylgdu gengu framkvæmdaverkefni okkar vel og var árið 2020 það umfangsmesta í framkvæmdasögu fyrirtækisins. Fjárfest var í flutningskerfinu fyrir rúma 11 milljarða króna og var hlutur nýrrar kynslóðar byggðalínu stærstur. Þá var unnið að byggingu nokkurra stafrænna tengivirkja sem veita meiri möguleika við ástandsvöktun og stýringar. Eftir mikið óveður í desember 2019 með tilheyrandi bilunum og tjóni á flutningsmannvirkjum voru fyrstu mánuðir ársins einnig erfiðir veðurfarslega. Mikil áraun varð á flutningsvirki vegna samspils seltu, ísingar og vinds á sunnan- og vestanverðu landinu og vegna fannfergis á Vestfjörðum. Viðgerðir stóðu yfir lengi framan af ári en með samstilltu átaki starfsmanna okkar og verktaka gekk sú vinna vel. Við lentum í tveimur alvarlegum atvikum, rafmagnsslysi í Breiðadal og hættutilviki sem varð á Rangárvöllum. Bæði þessi atvik eru okkur áminning um að ekkert skiptir meira máli en persónuöryggi og að við komum öll heil heim að loknum vinnudegi. Af þessum atvikum drögum við lærdóm og höfum gert breytingar sem eiga að koma í veg fyrir að sambærileg atvik endurtaki sig í framtíðinni.


Þorvaldur Jacobesn framkvæmdastjóri kerfisþjónustu

Árið 2020 hófst eins og árið 2019 endaði, með miklum truflunum í janúar og febrúar vegna veðurs, en var stöðugra eftir því sem leið á árið. Heildarstraumleysismínútur voru 12,45 en markmið fyrirtækisins er að vera innan við 50. Stuðull um rofið álag var 0,21 en markmið fyrirtækisins er að vera innan við 0,85. Rekstur kerfisins var því innan þeirra markmiða sem fyrirtækið setur sér í byrjun hvers ár og töluvert betri en á árinu 2020. Vinnukerfi okkar í truflunum byggir á SÁBF-aðferðafræðinni sem Almannavarnir nota og var reynsla fyrirtækisins frá truflunum vetrarins nýtt til að þróa vinnukerfið áfram. Unnið var að ýmsum umbótaverkefnum til að bæta þjónustu og einfalda verklag og auka samtal við viðskiptavini, m.a. með snörpum fjarfundum. Áhrif heimsfaraldursins á starfsemi sviðsins voru lítil þar sem strax var gripið til mjög ákveðinna sóttvarnaaðgerða og starfsemi sviðsins algjörlega einangruð frá annarri starfsemi fyrirtækisins. Á árinu var unnið að umfangsmiklu verkefni sem skilgreinir framtíðarsýn og stefnu fyrirtækisins varðandi hagnýtingu gagna en stefnt er að því að því verkefni ljúki á þessu ári og að markviss skref verði stigin í átt að þeirri framtíðarsýn. Unnið var að því að bæta skilvirkni og framþróun í tengslum við kerfisþjónustu. Árið 2020 drógust flutningstöp saman um 3,5%; frá 366 GWh árið 2019 í 353 GWh árið 2020, samhliða minni flutningi raforku. Á sama tíma lækkaði meðalverðið sem Landsnet greiðir fyrir rafmagn vegna flutningstapa um 5,4%; frá 4.685 kr./MWh árið 2019 í 4.430 kr./MWh árið 2020. Kostnaður Landsnets vegna flutningstapa lækkaði þannig um 172 milljónir króna milli ára, sem skilaði sér í að meðaltali 5,5% lækkun á gjaldskrá milli ára. Á árinu hlaut fyrirtækið vottun á ISO27001-staðlinum fyrir upplýsingaöryggi og þá tóku gildi lög nr. 78/2019, um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, sem fyrirtækið þarf að hlíta.


 

COVID 19 viðbrögð

NM-Covid tímalínan landscape_4dálkar.png