Rekstrartruflanir
Við skráningu truflana Landsnets er notast við skilgreiningar úr handbók starfshóps um rekstrartruflanir (START). Uppruni hverrar truflunar er skráður, þ.e. hvort truflun megi rekja til bilunar í flutningskerfi Landsnets eða bilunar í kerfi annarra (kerfi orkuframleiðenda, orkunotenda eða dreifiveitna). Ef truflun má rekja til upphafsatburðar í kerfi Landsnets er hún flokkuð sem „fyrirvaralaus truflun“.
Rekstrartruflun getur innihaldið fleiri en eina bilun. Fjöldi bilana verður þar af leiðandi ávallt jafn eða meiri en fjöldi rekstrartruflana. Við skráningu rekstrartruflana er hver bilun skráð eftir tegund, orsök og einingu sem olli bilun.
Fyrirvaralausar rekstrartruflanir
Fyrirvaralausar truflanir í flutningskerfi Landsnets voru 78 talsins árið 2020 og alls voru 85 bilanir þeim tengdar. Ítarlega bilanatölfræði má nálgast í viðauka. Á grafi 2 er árlegur heildarfjöldi fyrirvaralausra truflana í flutningskerfi Landsnets á árunum 2011–2020 sýndur ásamt fjölda truflana vegna bilana í öðrum kerfum.
Graf 2: Rekstrartruflanir í flutningskerfi Landsnets árin 2011-2020 flokkaðar eftir kerfi upphafsbilunar
Á grafi 3 er dreifing fyrirvaralausra truflana eftir mánuðum árið 2020 sýnd ásamt meðaldreifingu síðustu 10 ára. Langflestar truflanir urðu í upphafi árs, þar af voru níu í óveðri sem gekk yfir þann 14. febrúar.
Graf 3: Truflanir sem rekja má til bilunar í flutningskerfi Landsnets flokkaðar eftir mánuðum
Á grafi 4 má sjá fyrirvaralausar rekstrartruflanir í flutningskerfi Landsnets flokkaðar eftir orsökum truflana. Undir „annað“ flokkast þær truflanir sem skráðar eru á áverka af völdum dýra eða farartækis og þær truflanir þar sem frumorsök bilunar er óþekkt.
Graf 4: Fyrirvaralausar truflanir í flutningskerfi Landsnets 2011–2020 flokkaðar eftir orsök truflunar
Alvarleikastig rekstrartruflana
Alvarleikastigsflokkun Landsnets byggir að hluta til á lista samtaka evrópskra flutningsfyrirtækja, ENTSO-E4, „Incident classification scale“, en nánari skilgreiningu á flokkunum má nálgast í viðauka. Alvarleikaflokkunin var uppfærð eftir óveðrið í desember 2019 til þess að ná betur utan um tilvik þar sem dreifiveitur missa tengingu við flutningskerfið í langan tíma.
Á skífuriti 1 eru fyrirvaralausar truflanir í flutningskerfi Landsnets árið 2020 flokkaðar eftir alvarleikastigum Landsnets. Skífurit 2 sýnir niðurstöður ársins 2019 til samanburðar. Ein truflun flokkaðist í alvarleikastigsflokk 2 árið 2020, truflun á Ísallínu 2 þann 20. febrúar.
Fyrirvaralausar truflanir í flutningskerfi Landsnets flokkaðar eftir alvarleikastigi
Skífurit 1: Fyrirvaralausar truflanir í flutningskerfi Landsnets 2020 flokkaðar eftir alvarleikastigi
Skífurit 2: Fyrirvaralausar truflanir í flutningskerfi Landsnets 2019 flokkaðar eftir alvarleikastigi
Truflanir sem eiga upptök sín í öðrum kerfum eru einnig flokkaðar eftir alvarleikastigum Landsnets. Skífurit 3 sýnir skiptingu truflana árið 2020 og skífurit 4 sýnir skiptingu ársins 2019 til samanburðar. Ein truflun flokkaðist í alvarleikastigsflokk 2, seltutruflun á Brennimel, Norðuráli og Klafastöðum.
Truflanir sem eiga upptök sín í öðrum kerfum flokkaðar eftir alvarleikastigi
Skífurit 3: Truflanir 2020 sem eiga upptök sín í öðru kerfi flokkaðar eftir alvarleikastigi
Skífurit 4: Truflanir 2020 sem eiga upptök sín í öðru kerfi flokkaðar eftir alvarleikastigi
Bilanir
Á grafi 5 hafa bilanir ársins 2020 verið flokkaðar eftir einingum og til samanburðar er 10 ára meðaltal sýnt. Hvorki eru teknar inn í talninguna kerfisbilanir né bilanir í kerfi notenda þar sem okkar varnarbúnaður vann eðlilega. Nánari skýringu á kerfisbilunum er hægt að nálgast í undirkaflanum „Rekstrartruflanir og bilanir“ í viðauka. Flokkurinn „stöð, annað“ nær yfir þær bilanir sem ekki er hægt að skrá á ákveðinn búnað í viðkomandi stöð sem bilaði.
Flestar bilanir koma fram í loftlínum, stjórn- og hjálparbúnaði.
Graf 5: Bilanir í flutningskerfi Landsnets flokkaðar eftir einingu sem bilar
Á grafi 6 eru bilanir flokkaðar eftir tímalengd hverrar bilunar: