Lykilinnviður

Ársskýrsla

Leiðarinn

Árið 2021, ár heimsfaraldurs, heimavinnu, hólfaskiptingar, fjarfunda og framkvæmda. Annað árið í röð fóru saman miklar framkvæmdir og heimsfaraldur sem skapaði krefjandi aðstæður í daglegum rekstri fyrirtækisins. Á árinu hófst nýr og spennandi kafli í sögu orkuflutnings áí Íslandi þegar Kröflulína 3, tengingin milli Kröfluvirkjunar og Fljótsdals, var tekin í rekstur. Kröflulína 3 er fyrsti áfangi nýrrar byggðalínu sem mætir þörf samfélagsins fyrir öruggari flutningi rafmagns til heimila og fyrirtækja. Við lagningu línunnar var tekið tillit til umhverfislegra, fjárhagslegra og samfélagslegra sjónarmiða, enda er markmiðið með styrkingu byggðalínunnar að auka lífsgæði og öryggi í landinu.

Nýrri kynslóð byggðalínu er ætlað það hlutverk að bæta úr mörgum af þeim vanköntum sem hrjá meginflutningskerfið í dag. Hærra spennustig gerir það að verkum að hægt verður að flytja meiri raforku á milli landshlutanna og létta þannig á þeim flöskuhálsum sem við búum við í dag. Það mun hafa jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu, auk þess sem hægt verður að nýta betur núverandi orkuframleiðslumannvirki og vatnasvæði.

Framkvæmdir við annan áfanga byggðalínunnar gengu vel á árinu og mun Hólasandslína 3 sem tengir Akureyri við Austurland koma í rekstur í sumar. Í lok ársins var jafnframt kynnt valkostagreining vegna Blöndulínu 3 en afar mikilvægt er að ná niðurstöðu í því verkefni til að halda áfram styrkingu byggðalínunnar. Á árinu var jafnframt lokið við fjölda verkefna í svæðisbundnu kerfunum samkvæmt áætlun. Fimm stafrænar og yfirbyggðar spennistöðvar voru teknar í notkun, auk þess sem afhendingarstaðir Landsnets á Sauðárkróki og í Neskaupstað voru hringtengdir og flutningsgeta aukin til Eskifjarðar og Reyðarfjarðar.

Þegar kemur að snjallvæðingu orkukerfisins erum við hjá Landsneti í fararbroddi á heimsvísu. Tengivirkin okkar sem verða hér eftir stafræn og snjallar lausnir við stjórnun kerfisins eru stolt okkar og koma til með að stuðla að miklum breytingum í rekstri og nýtingu orkunnar. Með þessum snjöllu lausnum hefur okkur tekist að auka orkuflutning í kerfinu talsvert umfram það sem áður var mögulegt.

Fyrir okkur er rafmagn loftslagsmál og Landsnet er í lykilhlutverki í orkuskiptunum. Til þess að ná árangri í orkuskiptunum verður að styrkja flutningskerfi raforku og það kallar á miklar fjárfestingar.  Landsnet er vel í stakk búið til að takast á við þær áskoranir. Fjárhagsleg staða okkar er sterk og á árinu var skrifað undir lánasamning við Norræna fjárfestingabankann og við fengum aðgengi að lánsfjármögnun hjá Landsbankanum. Rekstur Landsnets og framkvæmdir okkar í flutningskerfinu falla að sjálfbærniviðmiðum bankanna varðandi mótvægisaðgerðir í loftslagsmálum og sjálfbæra innviði. Er það traustur grunnur til að byggja á við fjármögnun komandi verkefna.

Á árinu var unnið áfram að stefnumarkmiðum í Orkustefnu Íslands, m.a. við að undirbúa virkan og samkeppnishæfan orkumarkað, en markmið með virkum raforkumarkaði er að ná fram sjálfbæru og öruggu raforkuframboði með gagnsæi og langtímahagsmuni neytenda í huga.

Hjá Landsneti starfar frábær hópur starfsfólks sem hefur lagt mikið á sig undanfarin ár við að halda flutningskerfinu gangandi. Hópur sem á árinu lagði upp í ferðalag, menningarvegferð, þar sem við horfðumst í augu við okkur sjálf og hvernig fyrirtæki við vildum vera. Það hefur verið áskorun en við erum sannfærð um að þessi vegferð geri okkur betur til þess fallin að ná markmiðum okkar í samfélagi sem reiðir sig á áreiðanlega orku og okkur.


Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri og Sigrún Björk Jakobsdóttir stjórnarformaður

Stjórnin

Stjórnin okkar er skipuð fimm einstaklingum sem kjörnir eru á aðalfundi hluthafa sem halda skal fyrir lok marsmánaðar ár hvert. Til að fullnægja kröfum um fyllsta hlutleysi og jafnræði í störfum ber stjórnarmönnum að vera sjálfstæðir og að öllu leyti óháðir öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, dreifingu eða sölu á raforku. Stjórnin sinnir stefnumótun, eftirliti og töku meiriháttar ákvarðana í rekstri félagsins í samræmi við lagareglur um stjórn félagsins. Stjórnin fer með málefni félagsins og skal annast um að stjórnskipulag rekstrar þess og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórnin ræður forstjóra sem ber ábyrgð á daglegum rekstri félagsins

Sigrún Björk Jakobsdóttir, formaður stjórnar

Katrín Olga Jóhannesdóttir, stjórnarmaður

Magnús Þór Ásmundsson, stjórnarmaður

Ólafur Rúnar Ólafsson, stjórnarmaður

Svava Bjarnadóttir, stjórnarmaður

 

Skipurit

Skipurit

Hlutverkið

Rafvædd framtíð er kjarninn í framtíðarsýn okkar hjá Landsneti . Nútímasamfélög treysta á áreiðanlega raforku. Flutningskerfið er þannig lykilinnviður íslensks samfélags og þarf að vera bæði áreiðanlegt og traust. Á sama tíma þarf það að vera byggt upp með nútímalegum hætti og um það þarf að ríkja eins breið sátt og mögulegt er. Þær leiðir sem farnar verða þurfa í senn að taka tillit til þarfa samfélagsins á hverjum tíma ásamt því að sýna ábyrgð í umgengni við náttúruna.

Stefnan 

Snjöll

Við störfum í umhverfi þar sem kröfur eru sífellt að aukast og tæknin með. Við þurfum að verða tilbúin til að mæta tæknibreytingum sem eru fram undan. Það gerum við m.a. með aukinni sjálfvirknivæðingu og stafrænum lausnum. Við treystum grundvöll ákvarðana með sífellt betri innsýn og greiningargetu. Sveigjanleiki notkunar og nýsköpun á raforkumarkaði verða í lykilhlutverki til að gera okkur kleift að mæta áskorunum framtíðarinnar.

Skilvirk

Í okkar umsjón eru mikil verðmæti. Samfélagið og viðskiptavinir gera til okkar miklar kröfur um góða þjónustu, skilvirkan rekstur og stöðuga gjaldskrá. Við sjáum alltaf tækifæri í að gera betur og við gerum okkur grein fyrir því að það er lykilatriði til að ná fram skilvirkni í ferlum og hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri raforkukerfisins. Við viljum einfalda og skerpa hluti í þágu viðskiptavina og nýta fjármagn þeirra og okkar betur. Hluti af því er að velja umhverfisvænar lausnir því að þannig nýtum við betur auðlindir okkar og heimsins.

Ábyrg

Við erum lykilinnviður þjóðarinnar og því fylgir mikil ábyrgð. Örugg afhending orku er mikilvægasta viðfangsefnið okkar en samhliða því þarf ákvarðanataka að vera gagnsæ og byggja á öflugri upplýsingagjöf, samtali og samvinnu. Við tryggjum samfelldan rekstur og stjórnum okkar verkum út frá áhættu. Umhverfismál eru í forgangi og við tökum aldrei áhættu varðandi persónuöryggi. Við beitum skipulögðum starfsháttum. Við vinnum að stöðugum umbótum þar sem stuðst er við alþjóðlega stjórnunarstaðla og uppfylltar eru viðeigandi kröfur, bæði lagalegar og aðrar sem tengjast starfseminni.

Metnaðarfull

Við viljum skapa eftirsóknarverðan vinnustað þar sem umhyggja, jafnrétti og öryggi starfsfólks er í fyrirrúmi. Áhersla er á að skapa jákvæða vinnustaðarmenningu með sterkri liðsheild. Menningin okkar er metnaðarfull og hvatar eru til að ná árangri og framgangi í starfi. Við erum framfaramiðað þekkingarfyrirtæki og leggjum áherslu á að þróa hæfileika og hæfni starfsfólks. Við stuðlum að því að allt starfsfólk eigi möguleika á að þróast í starfi, geti sótt fræðslu og sí- og endurmenntun í takt.

Eigendur

Horft í baksýnisspegilinn 

 

Landsnet er fjárhagslega sterkt og vel hefur tekist að stýra rekstrinum með hagkvæmum hætti í heimsfaraldrinum undanfarin ár. Annað árið í röð fóru saman miklar framkvæmdir og heimsfaraldur sem skapaði krefjandi aðstæður í daglegum rekstri fyrirtækisins. Fjárhagslegur styrkur Landsnets er mikilvægur sem og stöðugleiki í lagaumhverfinu og stuðla þessir þættir, ásamt hagkvæmum rekstri, að trausti lánveitenda til fyrirtækisins. Annað árið í röð var slegið met í fjárfestingum félagsins frá stofnun. Auk þess að tryggja fjármögnun verkefna þurfti einnig að tryggja aðföng. Á tímum heimsfaraldurs og hækkandi vöru- og flutningsverðs komu upp ýmsar aðstæður sem þurfti að takast á við. Í einhverjum tilfella var forgangsröðun verkefna breytt og í öðrum sýndi starfsfólk og verktakar lausnamiðað hugarfar í úrlausn flókinna verkefna. Við lögðum áherslu á stöðugan og hagkvæman rekstur, hagstæða fjármögnun og lögbundna arðsemi til eigenda eins og hún er skilgreind í lögum. Umhverfi tekjumarka og grunnforsendur gagnvart fjármagnskostnaði og arðsemi er byggð á sömu reglum og viðmiðunum og í löndunum í kringum okkur. Stöðugleiki í regluumhverfi er mjög mikilvægur og algjört grundvallaratriði þegar kemur mati félagsins á því hvernig það er í stakk búið til að takast á við krefjandi og síbreytilega framtíð með kröfum um betra og tryggara aðgengi að rafmagni.

Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri 

Á árinu voru fimm ný stafræn tengivirki tekin í rekstur. Þetta er vendipunktur í þróun á nýrri tækni sem hefur verið unnið að síðustu ár, vakti þessi árangur nokkra athygli raforkugeirans utan landsteinanna og erum við framarlega á þessu sviði á heimsvísu. Þessi nýja tækni hefur ýmsan ávinning í för með sér, s.s. tækifæri á „snjallari“ stýringu, hagkvæmni vegna minni plássþarfar og aukið persónuöryggi. Náttúruöflin héldu áfram að minna á sig á árinu og gáfu eldgos og jarðskjálftar á Reykjanesi tækifæri á einstæðum rannsóknum á áhrifum jarðhræringa á bæði rekstur og þróun raforkuinnviða. Unnið var að undirbúningi fjölda framkvæmdaverkefna á árinu, hvort sem er vegna nýrra innviða eða endurnýjunar þeirra sem eldri eru. Verkefnin ná yfir bæði uppbyggingu nýs meginflutningskerfis og styrkingu landshlutakerfa út í byggðirnar, og eru helstu verkefnin nýjar loftlínur, jarðstrengir og yfirbyggð tengivirki. Eins og árið áður þá setti COVID-19 heimsfaraldurinn nokkurt mark á starfsemi sviðsins. Hafði faraldurinn t.a.m. áhrif á möguleika starfsmanna til aukinnar þekkingaröflunar og takmarkaði sömuleiðis samráð [BSH1] vegna áætlana og undirbúning verkefna. Notast var við net- og fjarfundartækni í flestum tilvikum sem gaf nokkra möguleika á að halda samráði virku.

Sverrir Jan Norðfjörð framkvæmdastjóri

Líkt og árið á undan var 2021 mikið framkvæmdaár og heimsfaraldur setti áfram mark sitt á starfsemina. Nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni gengu almennt vel þó svo að áhrifa heimsfaraldursins hafi víða gætt, t.d. í lengri afhendingartíma á aðföngum og ýmsum takmörkunum. Fjárfestingar í flutningskerfinu námu 9,5 milljörðum íslenskra króna og margar nýjar og mikilvægar fjárfestingar voru teknar í rekstur. Þar á meðal er Kröflulína 3, sem er fyrsti áfanginn í uppbyggingu á nýrri kynslóð byggðalínu. Afhendingaröryggi á Austurlandi og flutningsgeta innan svæðisins var bætt með nýjum fjárfestingum og spennuhækkun. Þá var lokið við að tvítengja bæði Norðfjörð og Sauðárkrók með nýjum jarðstrengjum og nýr afhendingarstaður á Hnappavöllum í Öræfum var tekinn í notkun. Vonir stóðu til í upphafi ársins að það næðist að koma í rekstur öðrum áfanga nýrrar byggðalínu, tengingu milli Akureyrar og Hólasands, en vorið kom seint á Norðausturlandi og veturinn snemma og framkvæmdatíminn fyrir jarðvinnu og reisingu línu reyndist því of stuttur. Veturinn 2020/2021 reyndist okkur mun hagstæðari við rekstur flutningskerfisins en veturinn þar á undan, þegar mikið var um bilanir og tjón vegna veðurs. Meðal stærri rekstrarverkefna á árinu var færsla 2,5 km kafla byggðalínunnar við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi innar í land vegna ágangs sjávar.

Nils Gústavsson framkvæmdastjóri

Árið litaðist töluvert af viðbrögðum við COVID-19, en sem mikilvægt innviðafyrirtæki þurfum við að stíga hraðar inn í herðingar á viðbrögðum og hægar í afléttingar. Samtals breyttum við um takt í viðbragði 28 sinnum á árinu. Þrátt fyrir þetta var komin töluverð reynsla hjá starfsfólki að breyta um takt hratt og vel og skipta úr staðbundinni vinnu í fjarvinnu með litlum fyrirvara. Í slíku umhverfi er nauðsynlegt að ferlar séu skilvirkir sem byggir á virku og öflugu gæðakerfi. Áfram var unnið með erlendum ráðgjöfum að hentugustu útfærslu á fyrirkomulagi raforkumarkaðar og fyrsta skrefið í breytingum á gjaldskrá, en bæði verkefnin eru viðbrögð okkar við hröðum breytingum sem eru að verða á orkuumhverfinu í átt að dreifstýringu og auknu gagnsæi. Við stigum stór skerf í menningar- og gagnaverkefnunum okkar og horfumst þar í augu við veikleika og styrkleika okkar. Hluti af þessu öllu er að hlusta og taka samtalið og þar stóðum við okkur vel, bæði á fjölmörgum fundum og á samfélagsmiðlum sem skipa stærra hlutverk en áður í samskiptum við viðskiptavininn, almenning og fjölmiðla.

Einar S. Einarsson framkvæmdastjóri

Rekstur raforkukerfisins gekk prýðilega á árinu og voru allir gæðamælikvarðar vel innan settra markmiða ársins. Nokkrar áskoranir voru þó í rekstrinum, sérstaklega vegna slæmrar vatnsstöðu í uppistöðulónum á Þjórsársvæðinu, en vegna þessa var flutningsgeta kerfisins frá Austurlandi til suðvesturhornsins nýtt að fullu en slíkt eykur álag á einstök flutningssnið og eykur flutningstöp í kerfinu. Stigin voru markviss skref í uppbyggingu gagnainnviða en breytt viðskiptaumhverfi, nýir valkostir í tengslum við orkuframleiðslu og breytt neyslumynstur vegna orkuskipta munu koma með ný tækifæri og nýjar áskoranir og opna nýja möguleika í samvinnu og þjónustu við viðskiptavini Landsnets. Við héldum áfram innleiðingu á kauphöll fyrir raforku. Aukin markaðsvæðing og viðskipti með raforku munu gera nýjar kröfur til stýringa og reksturs flutningskerfisins og á árinu hófst vinna við aðlögun kerfisstjórnar að breyttu viðskiptaumhverfi. Um er að ræða viðamikla endurskoðun á verklagi og ferlum en öflugir gagnainnviðir eru lykilatriði til að þau markmið náist. Netöryggi var áfram í brennidepli en raforkukerfið er skilgreint sem kerfislega mikilvægur innviður. Við fórum í gegnum úttekt vegna ISO-27001 og innleiddum NIS-tilskipun sem er ný heildarlöggjöf um net- og upplýsingaöryggi. Gerður var samstarfssamningur við KraftCERT sem er samstarfsvettvangur norrænna orkufyrirtækja á sviði netöryggis.

Þorvaldur Jacobsen framkvæmdastjóri
 

Samráð og samtal

Við vorum í víðtæku samráði á árinu við hagaðila sem og samfélagið í heild sinni. Starfandi eru verkefnaráð í stærri svæðisbundnum verkefnum. Í verkefnaráðunum koma helstu hagsmunaaðilar fyrir utan landeigendur saman með reglulegu millibili. Vinnan í ráðunum hefur gengið vel, fundað er reglulega og almennt hefur verið góð stemning og andi á þessum vettvangi. Haldnir eru upplýsinga- og kynningarfundir með landeigendum vegna þeirra verkefna sem nefnd eru hér að ofan, bæði heima í héraði og á höfuðborgarsvæðinu. Fjölmargir samráðs- og upplýsingafundir voru haldnir með sveitarstjórnum víðs vegar um land, fagnefndum á þeirra vegum, auk funda með fjölda samtaka og hópum.

Hagsmunaráðið fundaði reglulega yfir árið en ráðinu er ætlað að vera ráðgefandi og að vera vettvangur til að ræða stefnu, áætlanir og greiningar okkar með tilliti til þarfa og framtíðaráskorana samfélagsins og hagaðila.

Miðlun upplýsinga vegna samráðs hefur verið með margvíslegum hætti. Við erum ötul á Facebook og Instagram og á vefsíðunni er upplýsingum miðlað í gegnum sérstök svæði hvers verkefnis sem og upplýsingum um starfsemi hagsmunaráðs.

Almennt hafa verkefni sem snúa að samráði gengið vel og því hefur verið fagnað að við höfum frumkvæði að því að skapa vettvang fyrir opnar hreinskiptnar umræður sem einkennast af víðsýni, gagnkvæmri virðingu og samstarfsvilja.

Samfélagsmiðlar skipuðu áfram stórt hlutverk þegar kom að upplýsingagjöf út á við og við notuðum tækifærið til að efla miðlana okkar og fjölga notendum á Landsnetsappinu á árinu. Allir þessir miðlar skipta sköpum í upplýsingagjöfinni okkar. Áfram var haldið með að skilgreina og bæta upplýsingagjöfina okkar, viðbrögð í neyðartilvikum og með hvað hætti við gætum komið fréttum af okkur á framfæri.

Landsnethlaðvarpið var í loftinu og var haldið áfram að þróa og framleiða þætti, en á árinu voru gerðir sex þættir sem allir fengu fína hlustun. Hugmyndin með Landsnetshlaðvarpinu er að fjalla um allt á milli himins og jarðar sem viðkemur flutningskerfinu. Á árinu var lögð sérstök áhersla á þætti sem fjölluðu um orkuskiptin.

Landsnet var mjög mikið í fréttum á árinu og hefur jákvæðum fréttum af fyrirtækinu fjölgað mikið á milli ára og neikvæðum fréttum fækkað.