Öflugt umbótarstarf
Við hjá Landsneti leggjum áherslu á öflugt umbótastarf og að gera betur í dag en í gær. Það er undirstaða framfara og mikilvægur þáttur í menningunni okkar. Rík áhersla er lögð á ferlavæðingu, straumlínustjórnun og að einfalda gæðakerfið til að tryggja sýnileika í rekstri fyrirtækisins í heild með áherslu á þjónustu við viðskiptavini. Stuðst er við alþjóðlega stjórnunarstaðla og að uppfylla viðeigandi kröfur, bæði lagalegar og aðrar sem tengjast starfseminni. Við erum með vottað stjórnunarkerfi í gæða-, heilsu-, öryggis-, upplýsingaöryggis-, jafnlauna-, rafmagnsöryggis- og umhverfismálum.
Stjórnunarkerfið og umbætur
Markmið okkar með gæðamálum og stjórnunarkerfi er að tryggja að þörfum og væntingum hagaðila sé mætt með öflugri gæðavinnu, sem styðst við alþjóðlega stjórnunarstaðla og kröfur.
Markmiðum gæðastefnu var náð á árinu 2021 en þau snéru m.a. að innri þjónustu, þá að auka tíðni innri úttekta og gera gæðakerfið sjálfbærara í notkun.
Innleiðing á nýjum ábendinga- og þjónustubeiðnavef sem uppfyllir kröfur ISO staðla hófst í nóvember 2021. Á vefnum er haldið utan um ábendingar og beiðnir er tengjast rekstri stjórnunarkerfisins. Markmiðið er að starfsfólk LN skrái ábendingar og beiðnir á réttan stað og að þær fari í réttan farveg. Kynning á nýjum vef var haldin fyrir allt starfsfólk LN í nóvember.
Innri úttektir voru haldnar í febrúar, september og desember þar sem m.a. var tekið út upplýsingaöryggi og skjalastýring. Aðrar sértækar úttektir voru gerðar á efnastjórnun, öryggismálum á framkvæmdartíma og á mótvægisaðgerðum í mati á umhverfisáhrifum. Þá fór ytri úttekt BSI fram dagana 15.-18. mars.
Á síðari hluta árs var unnið að og gefin út Gagnastefna en markmiðið er m.a. að nýta gögn í auknum mæli við ákvarðanatöku, sjálfvirknivæðingu ferla og miðlun upplýsinga til hagaðila.
Aðrar breytingar tengdar umbótum og breyttu verklagi sem hafði áhrif á rekstur stjórnunarkerfis var að Kröflulína 3 var tekin í rekstur og hafin var vinna við nýjan ytri vef..
Samstillt átak skilar okkur árangri
Við hjá Landsneti stefnum að því alla daga að skapa slysalausan vinnustað og sköpum fyrirtækjamenningu sem styður starfsfólk í að leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir slys.
Ekkert fjarveruslys varð hjá starfsmönnum okkar á árinu. Þjálfun starfsfólks í öryggismálum tekur mið af þeim áhættuþáttum sem starfsfólk er útsett fyrir hverju sinni. Áherslur í þjálfun taka mið af áhættum í framkvæmdum og verkum.
Landsnet er í samstarfi við önnur sambærileg innviðafyrirtæki á Norðurlöndum um öryggismál sem nýtast okkur til að tryggja bestu viðmið og góða starfshætti hverju sinni.
Kolefnissporið
Kolefnissporið er metið með aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol, þar sem losunarþættir eru greindir og þeir flokkaðir í umfang 1, sem er bein losun frá rekstrinum, og umfang 2 og umfang 3 sem ná yfir óbeina losun félagsins.
Árið 2021 var losun gróðurhúsalofttegunda, miðað við umfang 1, 2 og 3, 7.699 tonn af CO2-ígildi eða 0,41 tonn af CO2-ígildi á hverja framleidda GWst sem er um 5% aukning frá árinu 2020.
Í umfangi 1 er helsta uppspretta beinnar losunar vegna leka á SF6-gasi sem er einangrunarmiðill í rafbúnaði tengivirkja. Losunin var um 2.680 tonn af CO2-ígildi árið 2021 og dróst saman um 17% miðað við árið 2020. Þennan samdrátt í losun má tengja við aukna vöktun og fyrirbyggjandi viðhald á búnaði félagsins. Reglulega er verið að skipta út gömlum búnaði fyrir nýjan og er allur búnaður sem keyptur er í dag með sívöktunarbúnaði á SF6-gasið. Landsnet fylgist grannt með þróun búnaðar sem notar svokallað grænt gas.
Annar beinn losunarþáttur í umfangi 1 er notkun á varaafli sem er mjög breytilegt á milli ára. Á árinu 2021 tókum við í notkun fimm færanlegar varaaflsvélar til að koma til móts við rafmagnsáföll. Á árinu 2022 mun færanlegum varaaflsvélum fjölga um fimm til að tryggja afhendingu á raforku. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna notkunar varaafls var 576 tonn af CO2-ígildi á árinu 2021 og hafði lækkað um 9% miðað við árið 2020.
Í umfangi 2 valda flutningstöp mestri óbeinni losun hjá félaginu. Losun vegna flutningstapa var rúmlega 4.000 tonn af CO2-ígildi árið 2021, miðað við íslensku orkukörfuna. Aukningin var 18% frá árinu 2022.
Helstu óbeinu losunarþættir sem félagið tengir við umfang 3 eru úrgangur og flug starfsmanna, bæði innanlands og erlendis. Flokkunarhlutfall úrgangs árið 2021 var 71% þar sem stærsti hluti úrgangs verður til í framkvæmdum á vegum félagsins. Mjög hefur dregið úr innanlandsflugi, auk þess sem starfsmenn flugu ekkert erlendis á vegum félagsins á árinu.
Kolefnishlutleysi
Við höfum sett okkur það markmið að starfsemin verði kolefnishlutlaus árið 2030.Í samstarfi við Kolvið kolefnisjafnaði félagið 462 tonn CO2-ígilda árið 2021. Kolefnisspor félagsins er því 7.238 tonn CO2-ígilda sem er 12% hærra en árið 2020. Þessa hækkun má helst rekja til aukinnar losunar vegna flutningstapa