Örugg afhending

Ársskýrsla

Línur og tengivirki

Smelltu hér til að skoða lista yfir háspennulínur og tengivirkin okkar.

Háspennulínur Landsnet

Tengivirki Landsnets

Framkvæmdaverkefni


Árið 2021 námu fjárfestingar í flutningskerfinu um 9,5 milljörðum íslenskra króna og var þar hlutur nýrrar kynslóðar byggðalínunnar stærstur.  

Kröflulína 3

Í september var fyrsti áfangi nýrrar kynslóðar byggðalínunnar, Kröflulína 3, spennusettur og tekinn í rekstur. Kröflulína 3 er 220 kV, um 120 km löng loftlína milli Kröflu og Fljótsdalsstöðvar, framkvæmdir hófust árið 2019 og hafði undirbúningur byggingar línunnar staðið yfir um margra ára skeið.

Hólasandslína 3

Hólasandslína 3, ný 220 kV raflína milli Akureyrar og Hólasands, er næsti áfangi á eftir Kröflulínu 3 í styrkingu byggðalínunnar.

Þessi nýja tenging mun samanstanda af 10 km löngum jarðstreng frá nýju tengivirki á Rangárvöllum, efst í byggðum Akureyrar, inn að vesturhlíð Vaðlaheiðar, þaðan sem við tekur ný 62 km löng loftlína að nýju tengivirki á Hólasandi.

Framkvæmdir voru í fullum gangi árið 2021 og eru langt komnar, stefnt er að spennusetningu virkjanna í áföngum á árinu 2022.

Lækjartún og Lækjartúnslína 1

Unnið er að styrkingu flutningskerfisins á Suðurlandi, þar sem álag hefur vaxið hratt á síðustu árum, með tengingu 220 kV flutningskerfisins við 66 kV svæðiskerfið.

Byggt hefur verið nýtt tengivirki, Lækjartún austan Þjórsár, sem tengist 220 kV Búrfellslínu 2 og báðum hlutum 66 kV kerfisins í landshlutanum. Jafnframt var lagður jarðstrengur, Lækjartúnslína 2, milli Hellu og Lækjartúns og Selfosslína 2 tengd við tengivirkið með jarðstreng.

Framkvæmdir eru á lokastigi og gert ráð fyrir spennusetningu nýrra virkja í apríl 2022.

Ný tenging Sauðárkróks

Ný jarðstrengstenging milli Sauðárkróks og Varmahlíðar var tekin í rekstur í júní, ásamt nýjum 66 kV tengivirkjum í Varmahlíð og á Sauðárkróki. Þar með er flutningskerfið tvítengt við Sauðárkrók sem áður var einungis tengdur með einni loftlínu.

Spennuhækkun á Austurlandi

Framkvæmdum vegna spennuhækkunar lína og tengivirkja í svæðisbundna flutningskerfinu á Austfjörðum lauk á árinu. Í síðasta áfanga spennuhækkunarinnar voru byggð ný tengivirki á Eskifirði og Eyvindará og virkinu á Stuðlum breytt. Þá var Eskifjarðarlína 1 lögð í jarðstreng við tengivirkið á Eyvindará.

Eskifjörður – Neskaupstaður

Ný jarðstrengstenging milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar var tekin í rekstur í júní en jafnhliða voru tengivirkin á Eskifirði og í Neskaupstað stækkuð. Þar með er flutningskerfið tvítengt við Neskaupstað sem áður var einungis tengdur með einni loftlínu.

Tengivirki Hnappavöllum

Nýr afhendingarstaður á byggðalínunni á Hnappavöllum í Öræfum var tekinn í rekstur í júní.

Vopnafjarðarlína 1

Vopnafjarðarlína 1 var lögð í jörð á um 10 km kafla yfir Hellisheiði eystri þar sem veðurskilyrði eru erfið. Nýr jarðstrengur var spennusettur í nóvember.

Hrútatunga

Unnið var að byggingu nýs tengivirkis í Hrútatungu en virkið fór illa út úr óveðrinu sem gekk yfir landið í desember 2019. Byggingarframkvæmdum lauk að mestu á árinu og mun uppsetning rafbúnaðar hefjast á nýju ári, stefnt er að spennusetningu nýs virkis haustið 2022.

Rauðavatnslína 1

Rauðavatnslína 1 sem liggur á milli Geitháls og A12 við Rauðavatn var lögð í jörð og nýr jarðstrengur spennusettur í apríl 2021.

Vogaskeið

Nýr aflrofi var settur upp í tengivirkinu Vogaskeiði og spennusettur í september.

Flúðir

Nýtt viðbótarúttak fyrir aflspenni á Flúðum var sett upp og spennusett í maí.  

Korpa

Fyrirhugað er að endurnýja tengivirkið við Korpu í Reykjavík og leysa þannig af hólmi núverandi virki. Unnið var að hönnun og útboðsgagnagerð á seinni hluta ársins og áætlað að framkvæmdir hefjist sumarið 2022.  

Rangárvellir

Samið var um innkaup á nýjum spenni fyrir tengivirkið á Rangárvöllum. Spennirinn verður tengdur síðar á árinu 2022.

Reykjanes

Unnið var að hönnun og innkaupum á nýjum rofareit sem verður settur upp í tengivirkinu Reykjanesi í tengslum við stækkun Reykjanesvirkjunar á árinu 2022.

Breiðadalur

Fyrirhugað er að endurnýja tengivirkið í Breiðadal við Önundarfjörð en rekstur þess hefur verið erfiður undanfarin ár vegna veðurþátta. Unnið var að hönnun og útboðsgagnagerð á seinni hluta ársins og áætlað að framkvæmdir hefjist sumarið 2022.  

Vegamót

Unnið var að hönnun nýs tengivirkis á Vegamótum á Snæfellsnesi sem leysa mun eldra virki af hólmi. Unnið var að hönnun og útboðsgagnagerð á seinni hluta ársins og áætlað að framkvæmdir hefjist sumarið 2022.  

Færanlegar varaflsstöðvar

Samið var um kaup á fimm nýjum færanlegum varaaflsstöðvum, samtals 6 MW, til viðbótar við þær sem við höfum nú þegar fjárfest í. Vélarnar eru væntanlegar til landsins í mars 2022.
 

Rannsóknaanáll

Á árinu 2021 voru ýmsar rannsóknir stundaðar. Rannsóknir á áflugi fugla á háspennulínur fóru fram með svipuðu sniði og árið á undan. Nú var hins vegar bætt við einni lítilli hræstúdíu, þ.e. lagt var út fuglshræ og fylgst með því hversu lengi það fékk að liggja óhreyft. Stefnt er að því að endurtaka þessa athugun á árinu og jafnvel auka í.

Unnið var að greiningum á nýtni íslenska flutningskerfisins í samvinnu við þýska ráðgjafafyrirtækið Frontier Economics. Í því skyni fór fram forathugun á mögulegum leiðum og aðferðum til þess að meta hana.

Í tengslum við jarðeldana í Geldingadölum tókum við, ásamt fleiri veitu- og innviðafyrirtækjum, þátt í verkefni á vegum Almannavarna þar sem markmiðið var m.a. að meta áhrif hraunflæðis á lagnir neðanjarðar. Við vorum með í þriðja áfanga verkefnisins, en eldgosinu lauk og hraunflæðið stöðvaðist áður en það náði að rannsóknastaðnum. Hins vegar náðust mikilvægar upplýsingar úr fyrri áföngunum sem munu nýtast okkur vel við mat á áhrifum jarðhræringa á mannvirki flutningskerfisins.

Við höfum stutt við verkefnið „Áhættumat vegna jökulhlaupa til vesturs og suðurs samfara eldgosum í eldstöðvakerfi Bárðarbungu“, sem stýrt er af Veðurstofu Íslands.

Í byrjun árs skrifuðum við og Alor ehf. undir viljayfirlýsingu um samstarf vegna þróunar á álrafhlöðu. Í lok árs var þetta samstarf svo fest enn frekar í sessi með undirritun samnings um samstarf. Við bindum miklar vonir við þetta verkefni.

Í árslok var gefin út skýrsla um afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Um er að ræða viðbót við skýrslu um sama efni frá árinu 2019.

Erlent rannsóknasamstarf hélt áfram á árinu með þátttöku í nokkrum verkefnum ásamt raforkufyrirtækjum og háskólum á Norðurlöndum og víðar. Það er mikilvægt fyrir fyrirtæki eins og Landsnet að taka þátt í slíku samstarfi og nýta þekkingu og kunnáttu annars staðar frá.

Undirbúningsverkefni

Breiðadalur tengivirki

Verkhönnun er lokið

Komið til framkvæmda

Flutningskerfi Vestfjarða

Verkhönnun í vinnslu

Holtavörðuheiðarlína 1

Valkostaskýrsla gefin út

Unnið að matsáætlun

Vegamót tengivirki

Verkhönnun er lokið

Komið til framkvæmda

Klafastaðir tengivirki

Verkhönnun er í vinnslu

Korpa tengivirki

Verkhönnun er lokið

Komið til framkvæmda

Lyklafellslína 1 og Ísallína 3

Unnið er að umhverfismatsskýrslu

Reykjanes tengivirki

Verkhönnun er lokið

Komið til framkvæmda

Njarðvíkurheiði

Verkhönnun er lokið

Komið til framkvæmda

Suðurnesjalína 2

Grindavíkurbær, Reykjanesbær og Hafnarfjörður gáfu út framkvæmdaleyfi.

Leyfin voru kærð og fóru fyrir ÚUA. Leyfi Hafnarfjarðar var fellt úr gildi en leyfi Reykjanesbæjar og Grindavíkurbæjar héldu.

Hafnarfjörður vinnur að endurútgáfu framkvæmdaleyfis.

Hamranes tengivirki

Stækkun Hamraness um einn reit

Verkhönnun í gangi

Kolviðarhólslína 1

Verkhönnun í gangi

Rimakotslína 2

Verkhönnun í gangi

Blöndulína 3

Unnið er að umhverfismatsskýrslu

Dalvíkurlína 2 og Dalvík tengivirki

Frumgreiningu lokið

Verkhönnun byrjuð

Viðhald og viðgerðir

Viðhaldsflokkar Netþjónustu höfðu í ýmsu að snúast á árinu að vanda. Miðað við síðustu tvö ár á undan var árið rólegt í þeim skilningi að ekki var mikið um ótímabærar alvarlegar bilanir. Vel gekk að aðlaga vinnu við viðhald rekstrarverkefna og vinnu í kringum framkvæmdaverkefni þrátt fyrir truflun vegna Covid-19. Sést það best á því að verkefnum netþjónustu fækkaði ekki mikið og enduðu í um 1100 verkum á árinu.

Starfsfólk netþjónustu sem flestir eru með rafiðnaðarmenntun voru í lok árs 32 auk nema á samning. Á árinu fjölgaði á landbyggðarstarfsstöðvunum en auk Reykjavík eru starfsstöðvar á Egilsstöðum og Akureyri.    

Í vor voru teknar í notkun varaaflsvélar sem hafa gert það að verkum að hægt er að sinna viðhaldi og bjarga veðmætum þegar eitthvað á bjátar á í kerfinu. Netþjónusta hefur séð um uppsetningu og tengingu víða á landinu og er tengistöðum stöðugt að fjölga í samráði við veitur viðkomandi svæða.

Endurnýjun á stjórnbúnaði í Svartsengi var nokkuð stórt verkefni og er nú búið er að endurnýja allan stjórn og varnarbúnað þar.

Reitaskoðanir hafa haft ákveðin forgang í rekstrinum og hefur verið farið í fjölda tengivirkja til þess. Reitur í tengivirki er allur búnaður sem tilheyrir til dæmis einum línu útgangi í virkinu. Búnaður eins og aflrofar, skilrofar, straum- og spennuspennar auk stjórn og varnarbúnaðar. Víða er þessi búnaður komin vel til ára sinna og því mikilvægt að viðhalda honum vel.

Nokkur hópur rafiðnaðarmanna hefur verið að þjálfa sig upp í nýrri gerð tengivirkja þ.e. stafrænna tengivirkja. Þessi gerð tengivirkja kallar á aukna breidd kunnáttu þar sem hugbúnaður og ljósleiðarar eru að taka yfir og hefðbundinn virki þar sem allt er tengt saman með vírum og takmarkaðri upplýsingamiðlun um stöðu virkisins á undanhaldi. Nokkuð var að gera í kringum nýframkvæmdir stafrænna virkja og má nefna verkefni eins og virki á fjörðunum fyrir austan, í Skagafirði og Eyjafirði.  

Háspennustrengur yfir háheiðina á Hellisheiði eystri var tekin í rekstur og bætir rekstar öryggi á svæðinu til muna. Með tilkomu þessa strengs er búið að tengja fram hjá einu þekktu kennileiti línumanna, „Búrinu“. Sagt er ef línumaður hafi ekki meðal annars unnið á Búrinu í aftakaveðri þá geti viðkomandi næstum ekki kallað sig línumann.

Nokkuð var um stærri verkefni á línum og er að nefna breytingar á Kröflulínu 1 vegna tilkomu Hólasandslínu og færsla á Hnappavallarlínu 1 við Breiðamerkurlón. Þar er Atlandshafið að brjóta land í miklu mæli og eru einungis um 6 ár síðan línan var færð frá fjörukambinum, það svæði sem þá var línustæði er löngu farið í sjóinn.

Drónar voru mikið notaðir í skoðanir bæði á línum og í tengivirkjum. Þessi tækni geri okkur kleift að fá nærmyndir af svæðum sem erfitt er að komast að þegar búnaður er í rekstri og fá mjög góða mynd af ástandi kerfisins.

Nokkuð var um spennaflutninga á árinu og er þá oft notast við sérstakan búnað í eigu Landsnets til að taka spenna af flutningsvögnum og setja á sinn stað án aðkomu stórra kranatækja. Eitt svona verkefni var nýr spennir fyrir nýjan tengistað á suðurlandi, Lækjartún en spennir þessi var 100 tonn.

Ekki komu upp alvarleg frávik eða slys hjá viðhaldsflokknum og markmiðið um að komast heil heim að kveldi gekk upp.

Aðfangakeðjan

Vandamál í flutningakeðju heimsins sköpuðu vandamál í aðfangakeðjunni okkar en lærdómur og undirbúningur frá fyrra ári hjálpaði við úrlausn á vandamálum aðfangakeðjunnar sem var undir miklu álagi, þar sem 2021 var mikið framkvæmdaár hjá félaginu. Hafin var innleiðing á nýju birgðakerfi og í innkaupum var unnið var að einföldun samningsskilmála á erlendum samningum.

Hvernig stóðum við okkur á árinu? 

Smelltu hér og farðu beint yfir í frammistöðuskýrsluna okkar þar sem farið er yfir truflanir, gæði og afhendingaröryggi ársins og þar er líka að finna sérstakan kafla um desember óveðrið.