Afhendingaröryggi

Frammistöðuskýrsla

Inngangur

Samkvæmt reglugerð nr. 1048/2004, um gæði raforku og afhendingaröryggi, er afhendingaröryggi metið út frá eftirfarandi stuðlum:

 

    1) Stuðull um rofið álag (SRA)

    2) Stuðull um meðallengd skerðingar, straumleysismínútur (SMS)

    3) Kerfismínútur (KM)

    4) Stuðull um skerta orkuafhendingu (SSO)

    5) Stuðull um meðalskerðingu álags (SMA)

    6) Áreiðanleikastuðull (AS)

 

Okkur ber að setja opinber markmið um þrjá fyrstu stuðlana. Stuðlamarkmiðin gilda um fyrirvaralausar truflanir í flutningskerfinu, þ.e. truflanir sem rekja má til bilunar í flutningskerfinu. Markmið eru sett fyrir heildarflutningskerfið en ekki einstök landsvæði eða viðskiptavini. Stuðlar 1) til 6) hafa verið reiknaðir út fyrir flutningskerfið í heild og niðurstöðurnar má finna hér að neðan í gröfum 12 til 18.

Stuðlarnir hafa að auki verið reiknaðir út fyrir þær truflanir sem rekja má til bilana í öðrum kerfum, þ.e. kerfum framleiðenda, dreifiveitna eða stórnotenda. Það er gert til að sýna hversu mikilvægt er að flutningskerfið sé í stakk búið til að geta brugðist við aðstæðum sem geta skapast í öðrum kerfum. Samverkandi þættir vegna truflana í öðrum kerfum geta hæglega leitt af sér skerðingar vegna flutningstakmarkana. Í sumum tilvikum hafa stuðlar verið reiknaðir fyrir landsvæði til að sýna betur alvarleika truflana. Skilgreiningar og reikniformúlur fyrir hvern stuðul má nálgast í viðauka.

Stuðull um rofið álag (SRA)

Stuðull um rofið álag (SRA), þ.e. hlutfall samanlagðrar aflskerðingar ársins og mesta álags á flutningskerfið, var 0,09 árið 2021. Markmið okkar að vera undir 0,85 fyrir heildarkerfið stóðst. Graf 12 sýnir útreiknaðan SRA-stuðul síðustu 10 ára, annars vegar fyrir fyrirvaralausar truflanir og hins vegar fyrir þær truflanir sem má rekja til bilunar í öðrum kerfum.

Graf 12:  SRA - Stuðull um rofið álag vegna truflana
 

Stuðull um meðallengd skerðingar, straumleysismínútur (SMS)

Straumleysismínútur (SMS) hafa hingað til verið einn helsti mælikvarði á afhendingaröryggi flutningskerfisins. Stuðullinn er hlutfall samanlagðrar orkuskerðingar og heildarorkusölu flutningskerfisins umbreytt í mínútur.

Útreikningar miðast við heildarforgangsorkuskerðingu og heildarforgangsorkuúttekt í flutningskerfinu árið 2021. Markmið okkar er að straumleysismínútur fari ekki yfir 50 á ári til forgangsnotenda í landskerfinu vegna fyrirvaralausra truflana. Skerðingar á afhendingu sem orsakast af truflunum í öðrum kerfum, s.s. vinnslukerfi, dreifikerfi eða hjá stórnotendum, eru ekki teknar með í meginniðurstöðu fyrir flutningskerfið. Þá skal áréttað að skerðingar til notenda á skerðanlegum flutningi eru ekki teknar með við mat á straumleysismínútum flutningskerfisins. Í viðauka eru straumleysismínútur reiknaðar sérstaklega fyrir stóriðjuna og dreifiveitur.

Graf 13 sýnir straumleysismínútur forgangsálags vegna fyrirvaralausra truflana í flutningskerfinu og vegna truflana hjá öðrum veitum samanborið við síðustu 10 ár. Í ár er SMS-stuðullinn vegna fyrirvaralaustra truflana 3,03 mínútur sem er undir meðaltali. Straumleysismínútur vegna truflana sem eiga upptök sín í öðru kerfi voru 0,62. 

Graf 13:  Útreiknaðar straumleysismínútur forgangsorku 2012 - 2021

Á grafi 14 er sýnd skiping straumleysismínútna eftir orsökum truflana. Í ár má rekja 1,37 straumleysismínútur af 3,03 til veðurs.

Graf 14: Útreiknaðar straumleysismínútur forgangsorku 2012 - 2021 vegna fyrirvaralausra truflana, flokkaðar eftir orsökum truflana

Kerfismínútur (KM)

Stuðullinn kerfismínútur (KM) gefur til kynna hve alvarlegt einstakt tilvik er. Hægt er að greina hvert tilvik skerðingar í  alvarleikaflokka eftir kerfismínútnafjölda á eftirfarandi hátt:

Tafla 4: Skilgreining á alvarleikaflokkum truflana eftir kerfismínútum

KerfismínútuflokkurLengd truflunar
0Undir 1 KM
1Undir 10 KM
2Undir 100 KM
3Undir 1000 KM

Markmið okkar er að engin truflun mælist yfir 10 kerfismínútur sem náðist árið 2021. Á grafi 15 má sjá fjölda þeirra fyrirvaralausu truflana í flutningskerfinu sem ollu skerðingu skipt eftir kerfismínútuflokkum.

Graf 15: Fyrirvaralausum truflunum sem ollu skerðingu árin 2012-2021 flokkaðar eftir kerfismínútuflokkum

Stuðull um skerta orkuafhendingu (SSO)

Stuðull um skerta orkuafhendingu (SSO) mælir skerta orkuafhendingu (Power Energy Curtailment Index) sem er hlutfall orkuskerðingar, ef afl hefði verið óbreytt allan skerðingartímann, og heildarafls á kerfið. Graf 16 sýnir útreiknað SSO árin 2012–2021 þegar tekið er tillit til fyrirvaralausra truflana og til samanburðar er sýnt SSO fyrir allar truflanir í heildarkerfinu.

Graf 16: Stuðull um skerta orkuafhendingu SSO síðustu 10 ár

Stuðull um meðalskerðingu álags (SMA)

Stuðull um meðalskerðingu álags (SMA) er mælikvarði á meðalskerðingu í hverri truflun (Power Supply Average Curtailment Per Disturbance). Graf 17 sýnir útreiknaðan SMA-stuðul fyrir árin 2012–2021 þegar tekið er tillit til fyrirvaralausra truflana. Til samanburðar er sýndur SMA-stuðull fyrir allar truflanir í heildarkerfinu.

Graf 17:  Stuðull um meðalskerðingu álags SMA vegna fyrirvaralausra truflana í flutingskerfi Landsnets síðustu 10 ár, samanborið við heildarkerfið

Áreiðanleikastuðull (AS)

Áreiðanleikastuðull (AS) sýnir áreiðanleika kerfis sem hlutfall af fjölda skertra klukkustunda ársins. Þetta er hlutfallslegur mælikvarði sem má umbreyta í prósentu. Graf 18 sýnir áreiðanleikastuðulinn umbreyttan í prósentur, ásamt markmiði okkar um að áreiðanleiki afhendingar forgangsraforku frá flutningskerfinu skuli vera yfir 99,9905%. Það samsvarar 50 straumleysismínútum á ári eða 0,833 skertum klukkustundum. Í ár var stuðullinn 99,9994% og stóðst því markmiðið.

Bláa línan á grafi 18 sýnir útreiknaðan áreiðanleikastuðul þegar miðað er við forgangsorkuskerðingu vegna bilana í flutningskerfinu. Gráa línan sýnir útreiknaðan áreiðanleikastuðul þegar miðað er við forgangsraforkuskerðingu óháð uppruna bilana í heildarkerfinu. 

Graf 18: Áreiðanleikastuðull forgangsálags vegna fyrirvaralausra truflana í flutningskerfi Landsnets síðustu 10 ár, samanborið við heildarkerfið 

Vinnsla varaafls

Á svæðum þar sem flutnings- eða dreifikerfið er veikt hafa dreifiveitur komið upp varaaflsstöðvum sem framleiða raforku þegar truflanir verða á orkuafhendingu. Við höfum aðgang að þessum stöðvum, ásamt færanlegum varaaflsvélum Landsnets, þegar truflanir verða í flutningskerfinu til að anna forgangsálagi. Það tekur vissan tíma að ræsa slíkar stöðvar og því verður ávallt straumlaust við fyrirvaralausar truflanir uns varaaflsstöð hefur verið ræst. Landsnet á sjálfvirka varaaflsstöð í Bolungarvík sem ræsir sig á hálfri mínútu og almennt forgangsálag í Bolungarvík er komið með rafmagn frá henni eftir um mínútu frá truflun. Ísafjörður er kominn með almennt forgangsálag um tveimur mínútum síðar.

Á grafi 19 er sýnd vinnsla varaaflsstöðva vegna fyrirvaralausra rekstrartruflana fyrir síðustu fimm ár. Árið 2021 nam vinnslan 622 MWst. Ef aðgengi að varaafli væri ekki fyrir hendi má ætla að straumleysismínútur til forgangsnotenda hefðu orðið 20,82 mínútur fyrir þetta ár í stað 3,03 mínútna.

Graf 19: Vinnsla varaaflstöðva vegna fyrirvaralausra truflana í flutningskerfi Landsnets síðustu fimm ár.