Þegar undirbúningi fyrir lagningu háspennulína er lokið, eftir atvikum þegar mati á umhverfisáhrifum er lokið, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, og gerð skipulagsáætlana, sbr. skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, þarf að leita eftir heimild til að hefja viðkomandi framkvæmd.

Rétt er að benda á að í 21. gr. raforkulaganna kemur m.a. fram að ekki má leggja raflínur eða reisa önnur mannvirki á grundvelli leyfa samkvæmt raforkulögum fyrr en náðst hefur samkomulag um endurgjald fyrir landnot eða að eignarnám hefur farið fram.

Af ákvæðinu leiðir að raforkulögin gera ráð fyrir að samkomulag við landeigendur um heimild og endurgjald þurfi að liggja fyrir áður en lagðar eru raflínur í landi þeirra. Náist hins vegar ekki samkomulag gera lögin ráð fyrir tilteknu ferli til að leysa úr ágreiningi.

Sú staða getur komið upp að landeigandi veitir Landsneti heimild til framkvæmda í landi sínu en ekki næst samkomulag um endurgjald. Í slíku tilviki geta aðilar samið um að skjóta mati um fjárhæð endurgjalds til matsnefndar eignarnámsbóta. Er þá ekki um eiginlegt eignarnám að ræða. Matsnefnd eignarnámsbóta, sem starfar á grundvelli laga um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973, sker úr um fjárhæð endurgjalds. Málsmeðferð fyrir matsnefndinni er útlistuð nánar í lögunum og lýkur henni með úrskurði hennar um fjárhæð endurgjaldsins.

Niðurstaða matsnefndarinnar er endanleg nema aðilar kjósi að leita úrlausnar dómstóla að gengnum úrskurði nefndarinnar.

Eignarnám

Verði ljóst, að undangegnu samningaferli, að hvorki næst samkomulag við landeiganda um afmörkun réttinda né um endurgjald er í 23. gr. raforkulaganna heimild til að taka eignarnámi nauðsynleg réttindi vegna framkvæmda.

Í ákvæðinu kemur m.a. fram að ef fyrirtæki nær ekki samkomulagi við landeiganda um endurgjald fyrir landnot vegna framkvæmda á grundvelli raforkulaga geti ráðherra tekið eignarnámi nauðsynlegt land, landgæði, mannvirki, aðstöðu og önnur réttindi landeiganda að því leyti sem nauðsyn ber til.

Ráðherra afhendir flutningsfyrirtækinu þau verðmæti sem tekin eru eignarnámi en matsnefnd eignarnámsbóta fjallar um ákvörðun endurgjalds eftir sömu reglum og áður hefur verið fjallað um.

Ef nauðsynlegt reynist að óska eftir heimild iðnaðarráðherra til eignarnáms gilda um ákvörðun hans stjórnsýslulög, nr. 37/1993. Í því felst m.a. að landeiganda er veittur andmælaréttur áður en ráðherra tekur ákvörðun um eignarnámið.

Ákvörðun ráðherra um heimild til eignarnáms er endanleg á stjórnsýslustigi en aðilar geta leitað úrlausnar dómstóla eftir að ákvörðun hans liggur fyrir. Þess má geta að fátítt er að leita þurfi eignarnáms vegna framkvæmda.

 

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?