Rafmagn á Íslandi er flutt í formi riðstraums í þremur fösum. Riðstraumur þýðir að straumstefnan í hverjum fasa breytist lotubundið eða nánar tiltekið 50 sinnum á sekúndu. Þá er sagt að tíðnin sé 50 rið eða Herz [Hz] eins og hún er í allri Evrópu. Í Bandaríkjunum er rekstrartíðni raforkukerfanna hins vegar 60 Hz.

Varnir gegn flökti

Tíðni raforkukerfisins er háð jafnvægi milli notkunar og vinnslu rafmagns. Ef þetta jafnvægi héldist fullkomlega væri tíðnin einnig föst í 50 Hz. Þar sem notkun rafmagns er flöktandi víkur tíðnin frá þessu viðmiðunargildi. Þá grípa gangráðar véla og sjálfvirk vinnslustýring frá stjórnstöð strax inn í og haga vinnslu véla þannig að tíðnin sé ávallt sem næst 50 Hz. 

Þegar frávik á tíðni fer yfir ákveðin mörk er gripið til afls á reglunaraflsmarkaði. Þegar raforkunotkun er meiri en vinnsla veldur það tímabundið lægri tíðni. Vinnsla umfram notkun skilar sér hins vegar tímabundið í hærri tíðni. Til viðbótar sjálfvirkri vinnslustýringu eru settar upp kerfisvarnir hjá stórnotendum sem sjá um að leysa út álag samkvæmt sérstökum varnaráætlunum til að sporna við mikilli undirtíðni.

Í reglugerð um gæði raforku og afhendingaröryggi eru sett eftirfarandi skilyrði um tíðni í raforkukerfinu: 

Kerfistíðni skal vera 50 Hz. Við eðlileg rekstrarskilyrði á meðalgildi rekstrartíðni mælt yfir 10 sekúndur að vera innan eftirfarandi marka:

  • 50 Hz ± 1 % (þ.e. 49,5 – 50,5 Hz) 99,5 % tímans.
  • 50 Hz +4 / -6 % (þ.e. 47 – 52 Hz) 100 % tímans.

Auk þessara skilgreindu vikmarka tíðnigæða í reglugerðinni setur Landsnet sér enn strangari markmið til tíðnigæða í raforkukerfinu.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?