Rafmagn er flutt um raflínur á milli staða en til að setja rafmagn inn á kerfið eða taka það út af kerfinu eru notuð tengivirki. 
 
Burðarvirki raflína eru ýmist úr timbri eða stáli og með eða án sérstakra undirstaðna. Spennuval ræður mestu um hæð mastra í háspennulínu. Af því helgast einnig að möstur í 220 kV línum eru nær undantekningarlaust byggð úr stáli og eru á steyptum undirstöðum. 

Hærri spenna - meiri hæð

Gerð er sérstök krafa um fjarlægð leiðara (rafmagnsvíra) frá jörðu. Fjarlægð eykst eftir því sem spennan er hærri. Í raun er það andrúmsloftið sem einangrar rafmagnið frá jörðu en sérstakir einangrarar, ýmist úr gleri eða postulíni, einangra leiðara frá burðarvirki. 
 
Auk burðarvirkis línu og leiðara (rafmagnsvíra) eru mikilvægustu þættir háspennulínunnar einangraraskálar og tengi- og stagbúnaður. Þá eru margar háspennulínur með sérstökum jarðvír efst í mastri til að taka við eldingum og verja endabúnað í tengivirki með því að leiða eldingarnar um burðarvirki til jarðar. Á síðari árum hefur verið lögð mikil áhersla á að háspennulínur falli sem best að landinu sem þær liggja um. 

Tengivirki

Tengivirki er mannvirki og búnaður sem notaður er til að setja rafmagn inn á flutningskerfið eða til að taka rafmagn út af kerfinu.
Helsti búnaður tengivirkja eru aflspennar, aflrofar, skilrofar, jarðblöð, mælaspennar, varnarbúnaður, launaflsbúnaður og hjálparbúnaður. 
 
Í Landsnetskerfinu eru nú 75 tengivirki og 85 afhendingastaðir, þar af eru 20 aflstöðvar, sex stórnotendur og 59 afhendingastaðir til dreifiveitna.

Tengivirki

Lína og strengur

Raforkunotkun hér á landi hefur vaxið ört síðustu áratugi. Framleiðslueiningum hefur því fjölgað og raforkuflutningur aukist, bæði í flutningskerfi og dreifikerfum. 
 
Til að anna aukinni eftirspurn þarf að styrkja kerfið og er það meðal annars gert með því að endurbyggja eldri línur eða reisa nýjar. Samhliða vaxandi umhverfisvitund Íslendinga hefur umræða um að leggja rafmagnslínur í jörð aukist mikið undanfarin ár. 
 
Raflínur á Íslandi eru að langstærstum hluta loftlínur en með flutningslínum er átt við línur sem eru reknar á 66 kV eða hærri málspennu. Jarðstrengir hafa verið lagðir á styttri köflum þar sem sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Innan þéttbýlissvæða er lögð áhersla á að leggja allar lagnir í jörð. Rekstrarspenna slíkra strengja hefur farið hækkandi undanfarna áratugi í takt við meiri flutningsþörf og tæknilegar framfarir í framleiðslu strengja. Þær hafa einnig gert lagnir strengja með háa spennu hagkvæmari en áður. 
 
Ef litið er til annarra landa má sjá að líkt og hérlendis verða strengir fyrir valinu þegar um er að ræða raforkuflutning í þéttbýli. Þeir eru líka lagðir nálægt aðflugi flugbrauta og þegar þvera þarf ár og vötn þar sem loftlínum verður ekki komið við. Þá er í sumum tilvikum um tæknilegar ástæður að ræða, t.d. nálægð við tengivirki eða þegar þvera þarf aðra loftlínu.

Línur og strengir

 
Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?