Eitt af meginhlutverkum okkar er að tryggja jafnvægi milli framleiðslu rafmagns og notkunar þess.

Við sinnum þessu annars vegar í áætlunarfasa þar sem leitast er við í samstarfi við viðskiptavini að tryggja að áætluð framleiðsla sé jöfn áætlaðri notkun. Hins vegar tryggjum við þetta jafnvægi á rauntíma með því að sjá til þess að raunveruleg framleiðsla sé jöfn raunverulegri notkun. 

Áætlunarfasi

Til að stuðla að sem bestu jafnvægi í áætlunarfasa fer Landsnet fram á að viðskiptavinir fyrirtækisins skili inn tvenns konar áætlunum. Með jöfnunaráætlun er tryggt að áætluð notkun sé jöfn áætlaðri framleiðslu. Með vinnsluáætlun getum við gengið úr skugga um að hægt sé að halda úti öruggum rekstri kerfisins, miðað við áætlaða staðsetningu framleiðslunnar.

Sölufyrirtæki, sem stunda heildsöluviðskipti á raforkumarkaðinum, skila jöfnunaráætlunum til okkar þar sem fram kemur hvernig áætluð raforkuöflun, hvort sem um er að ræða eigin framleiðslu eða aðkeypt rafmagn, er jöfn áætlaðri raforkunotkun, hvort sem það er notkun viðskiptavina eða sala til annarra sölufyrirtækja. Jöfnunaráætlanir eru gerðar í samræmi við reglur Landsnets sem koma fram í skilmálum um öflun reglunarafls og uppgjör jöfnunarorku. 

Í áætlunarfasa gerum við heildarálagsspá fyrir landið og berum hana saman við áætlanir vinnslufyrirtækjanna. Ef útlit er fyrir að fyrirhuguð raforkuframleiðsla valdi vandkvæðum í raforkuflutningi vegna flutningstakmarkana eða af öðrum kerfislegum ástæðum förum við fram á að vinnslufyrirtækin endurskoði áætlanir sínar. Vinnsluáætlanir eru gerðar í samræmi við útgefnar reglur Landsnets sem fram koma í skilmálum um vinnsluáætlanir.

Rauntími

Ekki er hægt að áætla raforkunotkun með 100% nákvæmni og því kemur alltaf til frávika sem þarf að brúa. Landsnet hefur tvö úrræði til að laga framleiðslu að notkun á rauntíma. Það fyrra er að nýta reiðuafl og það síðara felst í notkun reglunarafls. 

Smærri frávik eru jöfnuð með hjálp reiðuafls. Reiðuaflið felst einkum í viðbótarframleiðslu virkjana sem er sett af stað af svokölluðum gangráðum sem er sjálfvirkur búnaður í virkjunum. Reiðuafli er nánar lýst í texta um kerfisþjónustu. 

Í stjórnstöðinni okkar er fylgst með reiðuaflsnotkun vegna frávika. Fari reiðuaflsnotkunin út fyrir viss mörk er gripið til reglunarafls. Notkun reglunarafls felst í því að Landsnet nýtir tilboð á reglunaraflsmarkaði og breytir framleiðslu virkjunar í samræmi við það.