Fyrirhuguð línuleið Hólasandslínu 3. Í undirbúningi umhverfismatsins er verið að skoða loflínu (blár litur), jarðstrengi (gulur litur) eða hvorutveggja (rauður litur).
image
04.09.2017

Akureyri - Hólasandur

Markmiðið með Hólasandslínu 3, 220 kV raflínu milli Akureyrar og Hólasands norðan við Mývatn, er bætt orkunýting, aukin flutningsgeta og að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi.

Með auknum stöðugleika minnka líkur á spennusveiflum í kerfinu, sem geta og hafa valdið tjóni á raftækjum notenda á landsbyggðinni. Framkvæmdirnar eru einnig mikilvægar fyrir flutningskerfi landsins í heild sinni þar sem um er að ræða mikilvægan hlekk í styrkingu tengsla milli sterkari hluta kerfisins á suðvesturhorninu og veikari hluta þess á Austurlandi.

Lagnaleiðin er 70 – 80 km, mislöng eftir valkostum. Hún er að mestu leyti fyrirhuguð samhliða Kröflulínu 1, en víkur frá henni í Eyjafirði og á Hólasandi.

Greining hefur verið gerð á því hversu langa jarðstrengi megi leggja innan meginflutningskerfisins á grundvelli tæknilegra forsendna og er niðurstaðan fyrir Hólasandslínu 3 að hámarkslengd jarðstrengs geti verið um 12 km. 

Á línuleiðinni eru tvö svæði, í Eyjafirði og Laxárdal, sem falla að viðmiðum í stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, sem vísa til þess hvenær lagt skuli mat á umhverfisáhrif jarðstrengja.

Í undirbúningsferlinu hafa verið skoðaðir valkostir sem lúta að jarðstrengjum og loftlínum á þessum svæðum og eru þeir m.a lagðir fram sem valkostir í tillögu að matsáætlun. Aðrir raunhæfir kostir sem koma í ljós við framvindu verkefnisins, til dæmis frá hagsmunaaðilum, verða teknar til skoðunar og geta komið til álita sem valkostir við mat á umhverfisáhrifum. 

Aðalvalkostur verður lagður fram í frummatsskýrslu á grundvelli niðurstöðu um mat á umhverfisáhrifum og frekara samráðs. 

Matsáætlun  

Nú er til kynningar tillaga að matsáætlun, sem er verkáætlun fyrir komandi umhverfismat, en áður kynnti Landsnet drög að tillögu matsáætlunar í janúar síðast liðnum og bárust athugasemdir frá 28 aðilum. Í kjölfarið vann Landsnet frekar að mótun tillögunnar og hefur Skipulagsstofnun nú tekið hana til formlegs umsagnarferlis.  Þar er óskað umsagna og almenningi gefinn kostur á að gera athugasemdir, sem Landsnet  hefur tækifæri til að bregðast við. Að kynningartíma loknum tekur Skipulagsstofnun ákvörðun um matsáætlunina.

Hér er hægt að nálgast drögin.

Megintilgangur matsáætlunar er að fá fram ábendingar leyfisveitenda framkvæmdarinnar, sérfræðistofnana, hagsmunaaðila og almennings á útfærslum framkvæmdar, fyrirhuguðum áherslum umhverfismatsins og þeim gögnum sem ætlunin er að nýta til að meta umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Mikilvægt er á þessu undirbúningsstigi matsins að fá fram sem flestar ábendingar sem snúa að tilhögun þess, t.d. gagnaöflun, rannsóknum og valkostum. Jafnframt er óskað eftir ábendingum um viðkvæm svæði, sérstaka hagsmuni eða annað er nýst gæti við komandi matsvinnu. 

Allir geta gert skriflegar athugasemdir við tillöguna innan tilgreinds kynningartíma og skulu þær berast skriflega til Skipulagsstofnunar, Borgartúni 7b. 105 Reykjavík eða sendar á netfangið skipulag@skipulag.is.

Athugasemdafrestur er til og með 14. september 2017.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?