Kröflulína 3 mun að mestu liggja samsíða Kröflulínu 2, sem hér sést
image
12.12.2017

Skipulagsstofnun tekur undir helstu niðurstöður vegna Kröflulínu 3

Skipulagsstofnun telur matsskýrslu vegna Kröflulínu 3 uppfylla skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt en þetta kemur fram í áliti sem stofnunin gaf út 6.desember.

Ýmsir valkostir skoðaðir

Í megindráttum tekur Skipulagsstofnun undir niðurstöðu Landsnets um væntanleg umhverfisáhrif, fyrir utan að stofnunin telur að ásýndarbreytingar vegna framkvæmdarinnar og þar með áhrif á landslag, útivist og ferðamennsku verði neikvæðari en niðurstaða matsskýrslu gefur til kynna.

Í matsskýrslu Landsnets var lagt mat á ýmsa valkosti, meðal annars jarðstrengslagnir á ákveðnum svæðum á línuleiðinni, með hliðsjón af leiðbeiningum Skipulagsstofnunar. 

Takmarkanir á hámarkslengd jarðstrengja

Með tilliti til tæknilegra takmarkanna getur jarðstrengur á línuleiðinni milli Kröflu og Fljótsdals að hámarki orðið 15 km.  Yrði það svigrúm hins vegar nýtt þá takmarkar það möguleika á jarðstrengslagningu á leiðinni frá Blönduvirkjun að Kröflu.  Það er  ljóst að á þeirri leið þarf hluti fyrirhugaðrar Hólasandslínu 3, í nágrenni við Akureyrarflugvöll að vera í forgangi þegar kemur að ákvörðunum um hvar skuli ráðast í lagningu jarðstrengja, meðal annars með tilliti til stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.  Þrátt fyrir að niðurstaða matsins leiddi í ljós að áhrif á ásýnd og landslag á þessum svæðum yrðu minni af jarðstreng en loftlínu var ákveðið að leggja loftlínu fram sem aðalvalkost.  Það var meðal annars gert með tilliti til takmarkanna á hámarkslengd jarðstrengja; að ekki var um að ræða verulegan mun áhrifa, auk stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.

Samráð og samtal

Nú þegar fyrir liggur álit Skipulagsstofnunar þarf að eiga sér stað frekara samtal milli Landsnets, sveitarfélaga og landeigenda, við frekari undirbúning verksins sem meðal annars snýr að skipulagsbreytingum, undirbúningi framkvæmdaleyfa og samningum við landeigendur. 

Sett hefur verið á fót verkefnaráð vegna Kröflulínu 3 þar sem eiga sæti helstu hagsmunaðilar og mun ráðið verða hluti af samráðsferlinu sem er framundan.

Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og álit Skipulagsstofnunar er meðal annars grundvöllur þessa samtals og undirbúnings framkvæmdaleyfisumsókna.  Sveitarfélögin þurfa að kynna sér matsskýrslu Landsnets og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar, meðal annars sem þar segir um valkosti.

Hér er hægt að nálgast, matsskýrsluna, álitið og umsagnir og viðbrögð Landsnets við umsögnum og athugasemdum sem bárust við frummatsskýrslu.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?