image
14.03.2018

Nýir straumar og leiðir til framtíðar á vorfundi Landsnets

Fjölmennur vorfundur Landsnets var haldinn á Hilton Reykjavík Nordica í dag, miðvikudag undir yfirskriftinni „Nýir tímar“. Áherslur fundarins voru framtíðaráskoranir í raforkumálum og hvernig hægt sé að auka samtal um raforku. Á fundinum var lagt upp með lausnamiðaða umræðu um framtíð orkumála og hvernig tekist yrði á við þær áskoranir sem blasa við.

Leiðarstef fundarins kristallaðist ef til vill vel hvað best við titil ávarps Sigrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, stjórnarformanns Landsnets, það er að segja „Rafmagn án rifrildis“ en í erindi sínu fór hún yfir leiðir til aukins samtals og sátta.

Bæði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra orkumála og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra ávörpuðu fundinn en þess má geta að þetta var í fyrsta sinn sem sitjandi umhverfisráðherra flytur ávarp á fundi Landsnets.  

Þórdís Kolbrún sagði veru umhverfisráðherra gleðiefni. Aukið samráð á mismunandi stigum væri lykilatriði í átt til aukinnar sáttar um þær áskoranir sem við blöstu.

Því hafi hún sett af stað vinnu í ráðuneytinu við að koma á fót hagsmunaráði um málefni flutningskerfisins. „Markmið hagsmunaráðsins verður að efla enn frekar samráð og miðlun upplýsinga, þannig að áætlanagerð, framkvæmdir og forgangsröðun taki mið af áherslum hagsmunaaðila. Með slíku hagsmunaráði gefst tækifæri til að leiða saman ólíka hagsmunaaðila, draga fram nýjar hugmyndir um lausnir á ýmsum viðfangsefnum og ná fram betri skilningi á milli hagsmunaaðila um verkefnin fram undan,“ sagði Þórdís Kolbrún við tilefnið.   

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets fór yfir framtíðaráskoranir og tækifæri veraldar sem stefndi að rafvæddri framtíð sem kallar á „snjallar“ og „grænar“ lausnir. Straumhvörf væru að verða á notkuninni vegna vaxandi kröfu um hreina orku og uppbyggingu fjórðu iðnbyltingarinnar sem getið hefur af sér fjölda nýrra rafknúinna tækja. Orkumál og loftslagsmál væru óaðskiljanlegir þættir og áskorun Landsnets væri fólgin í því að geta svarað kalli notenda um aukna orku í sátt við samfélag og umhverfi.

Alicia Carrusco er reynslumikill sérfræðingur í orkustefnu og markaðsmálum en hún er einnig fyrrum forstöðumaður hjá Tesla, EMEÁ og Siemens. Breytingar á markaði var hennar helsta umfjöllunarefni. Þessar breytingar væri miklar og kölluðu á gagngera endurskoðun. Rafvædd framtíð kallaði á nýjar lausnir í dreifikerfi og bæði neytendur og söluaðilar þyrftu að vera „snjallir“ og sveigjanlegir til að geta tekist á við framtíðina og þá flutningsgetu raforku sem hún kallaði eftir.  

Lokaávarp fundarins flutti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. Hann tók undir þörfina um frekara samtal milli aðila. Þá  fjallaði hann um leiðir sem gætu gert almenningi  betur kleift að koma fyrr að ákvarðanatöku sem tengdust raforkumálum. 

„Ég tel bráðnauðsynlegt að stjórnvöld, fyrirtæki og almenningur sameinist um það að leita leiða til að styrkja þátttöku almennings fyrr í ferli ákvarðanatöku. Þessu hafa fyrirtækin kallað eftir og þessu hafa almenningur og félagasamtök kallað eftir. Ég vona svo sannarlega að þær tilraunir Landsnets að fá fleiri að borðinu snemma í ferlinu muni skila meiri sátt. Ég mun jafnframt beita mér fyrir því að við getum með einhverju móti styrkt þessa snemmþátttöku í samræmi við Árósasamninginn og heilbrigða skynsemi,“ sagði Guðmundur Ingi umhverfisráðherra.

 

 

 

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?