Gjaldskrá Landsnets er útbúin í samræmi við þau tekjumörk sem Orkustofnun setur Landsneti á hverjum tíma og gildir annars vegar fyrir almenna notendur og hins vegar fyrir stórnotendur. Gjaldtaka fyrir flutning er óháð þeirri vegalengd, sem rafmagnið fer um kerfi Landsnets, eða þeirri fjarlægð sem er á milli innmötunar- og úttektarstaðar. 
 
Flutningsgjaldið er að mestu grundvallað á þeirri raforku sem dreifiveitur og stórnotendur taka út af flutningskerfinu á einstökum afhendingarstöðum. Um er að ræða tvenns konar gjald, annars vegar aflgjald og hins vegar orkugjald.

Útreikningur

Aflgjaldið er reiknað út frá meðaltali fjögurra hæstu 60 mínútna mánaðarafltoppa ársins fyrir sérhvern afhendingarstað á meðan orkugjaldið reiknast af hverri MWst. sem flutt er um kerfi Landsnets. Innheimt er fast árlegt afhendingargjald fyrir alla afhendingarstaði sem tengjast flutningskerfinu, hvort sem um er að ræða innmötun á kerfið eða úttekt. 
Að auki er innheimt fyrir kerfisþjónustu og flutningstöp og er það fast gjald fyrir hverja kWst. í úttekt. Því gjaldi er ætlað að standa straum af innkaupsverði Landsnets fyrir þessa þjónustu á hverjum tíma. Gjaldskrá Landsnets fyrir úttekt stórnotenda er í USD en aðrir liðir gjaldskrárinnar eru í íslenskum krónum.

Afslættir

Í gjaldskrá Landsnets er heimild til að gefa afslátt vegna flutnings sem leiðir til betri nýtingar á flutningskerfinu, svo sem vegna ótryggs rafmagns. Þetta á til dæmis við um afhendingu og flutning á hærri spennu en 66 kV. Landsneti er heimilt að skerða afhendingu á ótryggu rafmagni án bóta ef rekstrartruflanir verða í kerfinu. 

Á rafmagnsreikningi einstaklinga og fyrirtækja er kostnaður vegna flutnings tilgreindur sérstaklega og er gjarnan 10-15% af heildarfjárhæðinni sem samanstendur af orkuverði og kostnaði við flutning og dreifingu.
Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?