Með opnun íslenska raforkumarkaðarins geta notendur, hvort sem þeir eru einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir eða stórnotendur, valið þann orkusala sem þeir kjósa að kaupa orkuna af.

Jafnframt þurfa notendur að vera í viðskiptum um afhendingu á rafmagninu við þá dreifiveitu sem hefur sérleyfi á viðkomandi svæði. Fyrirtækið, sem annast dreifinguna, þarf þó ekki að vera hið sama og sölufyrirtækið.

Orkusölufyrirtækin útvega viðskipta-vinum rafmagn, annaðhvort með eigin vinnslu eða með kaupum frá öðrum. Slík viðskipti eiga sér yfirleitt stað með tvíhliða samningum milli sölufyrirtækis og framleiðenda en gætu allt eins átt sér stað á raforkumarkaði í kauphöll eins og tíðkast til dæmis á Norðurlöndum.

Orkuvinnslufyrirtækin á Íslandi framleiða flest rafmagn annaðhvort í vatnsafls- eða gufuaflsvirkjunum og mata inn á flutningskerfi Landsnets.

Landsnet tekur við rafmagninu frá framleiðendum, flytur um flutningskerfið og afhendir síðan til dreifiveitna og stórnotenda víðs vegar um landið. Landsnet á og rekur allar meginflutningslínur rafmagns og öll megintengivirki á Íslandi. Fyrirtækið stýrir uppbyggingu flutningskerfisins og annast kerfisstjórnun.

Dreifiveiturnar taka við rafmagni frá flutningskerfinu og dreifa því áfram um eigin dreifikerfi til endanlegra notenda á því svæði þar sem þær hafa sérleyfi.

Stórnotendur kaupa rafmagn í miklu magni af sölufyrirtækjum og fá það afhent beint frá flutningskerfinu. Stórnotendur eru þeir sem nota, innan þriggja ára, á einum stað a.m.k. 80 GWst á ári.

Orkustofnun hefur eftirlit með því að raforkufyrirtæki með sérleyfi starfi samkvæmt raforkulögum og fullnægi þeim skilyrðum sem sett hafa verið um starfsemi þeirra. Eftirlit Orkustofnunar snýr meðal annars að tekjumörkum og gjaldskrám, bókhaldslegum aðskilnaði fyrirtækja, sem eru í blandaðri starfsemi, og gæðum raforku og afhendingaröryggi.

Orkustofnun sker úr um álitaefni sem upp kunna að koma.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?