Flutningur rafmagns frá virkjunum til notenda fer um flutningskerfi og/eða dreifikerfi.
Á Íslandi er aðeins eitt skilgreint flutningskerfi en mörg dreifikerfi. Dreifikerfin eru svæðisbundin og um þau fer rafmagnið til notenda á viðkomandi landsvæði.

Þungamiðja raforkukerfisins

Flutningskerfi Landsnets myndar nokkurs konar þungamiðju raforkukerfisins. Aflstöðvar framleiða rafmagn inn á kerfið og dreifiveitur fá afhent rafmagn sem þær dreifa síðan áfram til heimila og fyrirtækja á sínu svæði.

Stórnotendur eru tengdir beint við flutningskerfið og fá þaðan afhent rafmagn til starfsemi sinnar. Einstaka smáar aflstöðvar framleiða einnig beint inn á dreifikerfið og tengjast því flutningskerfinu óbeint í gegnum dreifikerfið.

Raforkusölusamningar

Notandinn kaupir rafmagn af sölufyrirtæki á grundvelli raforkusölusamnings og fær það afhent frá þeirri dreifiveitu sem hefur sérleyfi til dreifingar á því svæði þar sem notandinn er. Sölufyrirtækið getur ýmist framleitt rafmagn í eigin aflstöðvum eða keypt frá vinnslufyrirtækjunum og selt svo til endanlegra notenda. Útgjöld notenda fela ekki eingöngu í sér kostnað vegna vinnslu rafmagnsins heldur einnig kostnað við að flytja það frá aflstöð til notenda.
Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?