Í grundvallaratriðum er flutningskostnaður raforku ákvarðaður út frá samspili tveggja þátta. Fyrri þátturinn er raforkuflutningu til viðskiptavina. Aukinn flutningur leiðir til lægri flutningskostnaðar því tekjur Landsnets eru fastar til skemmri tíma. Hinn þátturinn eru svokölluð tekjumörk sem eru þær tekjur sem fyrirtækinu er heimilt af hafa samkvæmt lögum. Hækki tekjumörk hækkar flutningskostnaður á einingu.

Þessi útfærsla, að ákvarða heildartekjur flutningsaðila er sú sama og notuð er víðast hvar í Evrópu. Á Íslandi er tekjumörkum vegna raforkuflutnings er skipt í tvennt, annars vegar vegna flutnings til dreifiveitna og hins vegar vegna flutnings til stórnotenda.

Hvernig eru tekjumörk Landsnets ákveðin?

Samkvæmt raforkulögum setur Orkustofnun Landsneti tekjumörk í fimm ár í senn og byggjast þau á eftirfarandi þáttum:

Rekstrarkostnaður

Rekstrarkostnaði má skipta í tvennt. Annars vegar er almennur rekstrarkostnaður sem reiknast sem meðaltal rekstrarkostnaðar hjá félaginu fyrir tiltekið tímabil og hins vegar viðbótar rekstrarkostnaður sem verður til vegna nýrra flutningseininga sem teknar eru í notkun hjá félaginu. Í dag nemur viðbótar rekstrarkostnaður 2% af stofnvirði nýrra eininga.

Arður af eignum

Arði má líkt og rekstrarkostnaði skipta í tvennt. Annars vegar er reiknaður arður af þeim eignastofni sem telst til tekjumarka og reiknast arðurinn út frá vegnum fjármagnskostnaði (WACC) sem er reiknaður samkvæmt reglugerð 192/2016 og birtur af Orkustofnun. Veginn fjármagnskostnaður byggist á ýmsum stærðum svo sem ávöxtunarkröfu á verðbréfamörkuðum á Íslandi og Bandaríkjunum og skuldatryggingaálagi. Hinn hluti tekjumarka sem snýr að arði er vegna veltufjáreigna en veltufjáreignir eru áætlaðar sem 20% af arði síðasta árs á undan og er arðsemi reiknuð ofan á þá stærð. Munur er á leyfðum arði fyrir stórnotendur annars vegar og dreifiveitur hins vegar. Sjá umfjöllun um CAPM-líkanið og Veginn fjármagnskostnað.

Afskriftir og eignastofn

Eignum Landsnets er skipt í þrjá hluta sem nefnast eignastofnar. Einn hluti er eyrnamerktur flutningi til almennra notenda í gegnum dreifiveitur, annar er eyrnarmerktur flutningi til stórnotenda og sá þriðji er sameiginlegur en honum er skipt eftir aflskiptihlutföllum samkvæmt reglum Orkustofnunnar.

Afskriftir eignastofnsins er hluti af tekjumörkum. Tengivirki eru afskrifuð á 40 árum og háspennulínur, þar með talið jarðstrengir, eru afskrifuð á 50 árum. Annar búnaður, svo sem stjórnar og varnarbúnaður, er afskrifaður á 20 árum.

Framlag eignastofnsins til tekjumarka er hinn ráðandi þáttur í útreikningum þeirra, en um 80% tekjumarka fyrir stórnotendur og um 65% tekjumarka fyrir dreifiveitur má rekja til eignastofnsins. Í heildina er framlag eignastofns til tekjumarka um 75% og hefur eignastofninn því afgerandi áhrif á tekjumörk félagsins, gjaldskrárgrunn og þar með gjaldskrá sem fundin er á grundvelli orku- og afláætlana.

Gjaldskrá Landsnets er líkt og tekjumörkum skipt í tvo hluta. Annars vegar fyrir flutning til dreifiveitna sem ákvarðaður er í krónum og hins vegar fyrir flutning til stórnotenda sem ákvarðaður er í Bandaríkjadölum.

Nýjar flutningseiningar

Í dag eru nýjar eignir teknar inn í eignastofn við spennusetningu þeirra. Þetta þýðir að stórar fjárfestingar sem ekki fylgir aukning á orkunotkun geta haft áhrif á gjaldskrá og valdið sveiflum á henni. Félaginu er þó heimilt að jafna sveiflur á gjaldskrá að hluta til með því flytja hluta tekjumarka á milli ára en samkvæmt raforkulögum er okkur heimilt að flytja sem nemur 10% af tekjumörkum á milli ára.

Þessi aðferð verður þó allaf til þess að einhverjar sveiflur á gjaldskrá myndast. Fjárfestingar sem eru umfram afskriftir leiða til þess að eignastofn stækkar sem veldur því að nauðsynlegt getur verið að hækka gjaldskrár, nema að þeim fylgi annaðhvort aukinn orkunotkun eða að leyfð arðsemi lækki.

Eru þetta ekki óþarflega flóknar reglur?

Sú aðferð sem lýst hefur verið hér að framan er í grundvallaratriðum sú sama og hefur verið tekinn upp víðast hvar. Með því að ákvarða leyfðar tekjur flutningsfyrirtækisins eru því settar skorður með tilliti til kostnaðar en jafnframt skapaðir hvatar fyrir fyrirtækið til að bæta rekstur og skila hagnaði.

Reglur um tekjumörk byggjast hvarvetna á sömu hugmyndum um arðsemi eigna, rekstrakostnað og afskriftir.

 

Er flutningskostnaður hár á Íslandi?

Upplýsandi samanburður á flutningskostnaði milli landa er að ýmsu leyti flókið verkefni. Markaðsverð ákveðast ekki af lögmálum framboðs og eftirspurnar á markaði heldur eru þau ákveðin út frá reglugerðum eins og þeim sem hefur verið lýst hér að framan. Þá er flutningskostnaður mjög háður aðstæðum og eðli raforkukerfis. Samanburður á flutningskostnaði þarf því að líta til langs tíma því flutningskerfi eru sett upp til áratuga.

Eins og fram kemur í umfjöllun um hvernig flutningskostnaður myndast þá eru fjárfestingar og raforkunotkun ráðandi þættir í því hvort gjaldskrá þróast upp á við eða niður. Raforkunotkun getur sveiflast milli ára og þegar litið er til lengri tíma getur hún ýmist aukist hraðar eða hægar en spár gera ráð fyrir. Annað atriði sem skiptir sköpum er eðli raforkuvinnslu í kerfinu en óumdeilt er að endurnýjanleg raforkuvinnsla leiðir til aukins flutningskostnaðar. Þá eru landfræðilegir eiginleikar, veðurfar og þéttbýli þættir sem vega þungt í þróun flutningskerfa og þar af leiðandi á flutningskostnað.

Ísland hefur um langt skeið rekið 100% endurnýjanlegt raforkukerfi eins og þjóðir heims keppa nú flestar að. Einkenni slíkra raforkukerfa er að bestu staðsetningar fyrir raforkuvinnslu eru oftar en ekki víðs fjarri notendum. Hér á landi fer mest orkuvinnsla fram annars vegar á Þjórsársvæðinu og hins vegar á Norður- og Austurlandi. Mest notkunin er hins vegar á Suðvesturlandi og svo á Reyðarfirði. Þetta þýðir að flutningur raforku þarf að fara langa leið með auknum tilkostnaði. Orkuver sem keyrð eru áfram af eldsneyti eru hins vegar staðsett nálægt notendum sem sparar flutningskostnað.

Ólíkar tegundir orkuvinnslu leggja einnig mismiklar kröfur á flutningskerfið fyrir utan fjarlægðina frá notendum. Hér á landi er raforkukerfið fyrst og fremst byggt upp á fyrirsjáanlegum og stýranlegum orkugjöfum, vatnsorku og jarðhita. Fyrirsjáanleiki og stýranleiki minnkar sóun og kostnað við að viðhalda stöðugleika í kerfinu. Þessir orkugjafar eru enn fremur með mjög háan nýtingarstuðul. Hár nýtingarstuðull þýðir að fjárfesting í flutningskerfi nýtist betur og leiðir til lægri flutningskostnaðar á einingu en hjá orkugjafa sem er með lægri nýtingarstuðul. Í fyrirséðri framtíð munu lönd heims í stórum stíl færa sig yfir í sólar- og vindorku. Þessir orkugjafar bjóða hvorki upp á stýranleika né háan nýtingarstuðul og munu þar af leiðandi hækka flutningskostnað raforku á heimsvísu.

Ísland er eitt strjálbýlasta land heims og því fylgir óhjákvæmilega að lengd flutningslína á íbúa hér verður meiri en í samanburðarlöndum. Á Íslandi eru 9,23 metrar af flutningslínum á íbúa samanborið við 3,5 í Noregi og 4,17 í Þýskalandi. Þetta leiðir óhjákvæmilega af sér aukinn kostnað við rekstur flutningskerfisins.

Að teknu tilliti til framangreindra atriða má teljast nokkuð gott að í samanburði Samtaka evrópskra flutningsfyrirtækja (ENTSO-E) hefur flutningskostnaður á Íslandi verið nálægt meðaltali.

  

Mynd 1 Flutningskostnaður raforku í Evrópu 2019. €/MWst (uppruni: ENTSO_E report 201: Overview of Transmission Tariffs in Europe: Synthesis 2019)

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?