Landsnet er fyrirtæki sem starfar í þágu allra landsmanna. Á fyrirtækinu hvíla skyldur og markmið fyrirtækisins eru sett í raforkulögum. Markmið raforkulaga er meðal annars að „stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, sbr. 1. mgr 1.gr. Enn fremur segir í 1. mgr. 9. gr. um skyldur flutningsfyrirtækisins: „Flutningsfyrirtækið skal byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, gæða raforku og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Einnig er í 9.gr. kveðið á um skyldu flutningsfyrirtækisins til að „Tengja alla þá sem eftir því sækjast við flutningskerfið”.

Landsneti er skylt að fylgja fyrrgreindum markmiðum raforkulaga og um leið rækja skyldur sínar gagnvart viðskiptavinum sínum um allt land. Flutningskerfið verður því að geta þjónað landinu öllu.

 

Hver er staðan á flutningskerfinu?

Staðan á flutningskerfinu er þannig í dag að erfiðlega gengur fyrir Landsnets að uppfylla markmið sem sett eru fram í raforkulögum vegna takmarkana á kerfinu. Myndin hér að neðan sýnir tiltæka afhendingargetu í kerfinu og má þar sjá að flutningsfyrirtækið mun eiga erfitt með að uppfylla skyldur sínar í náinni framtíð ef ekki koma til verulegar styrkingar.

 

 

 

 

Mynd sýnir tiltæka afhendingargetu í meginflutningskerfi Landsnets en hún er víðast hvar lítil sem engin umfram þá notkun sem er í dag. Svo þungt lestuðu flutningskerfi fylgir ýmis konar óhagræði og áskoranir en einungis verður tekið á því helsta hér.

 

Hvernig stuðlar flutningskerfið að þjóðhagslegri hagkvæmni?

Takmörkuð afhendingargeta takmarkar staðbundna atvinnuþróun verulega því ómögulegt getur verið að tengja notendur sem óska eftir því. Það veldur efnahagslegri stöðnun á þeim svæðum sem búa við þær takmarkanir.

Landsnet vann árið 2019 skýrslu með alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu Frontier Economics sem sýndi að laun almennings vaxa hægar þar sem afhendingargeta flutningskerfisins er lítil miðað við almenna notkun. Það er því bæði óhagkvæmt og gegn markmiðum raforkulaga um eflingu atvinnulífs og byggðar í landinu að afhendingargeta sé takmarkandi.

Af þessu leiðir að líklegur kostnaður samfélagsins við vanfjárfestingar og ófullnægjandi flutningskerfi er mun hærri en líklegur samfélagslegur kostnaður við hugsanlega offjárfestingu sem myndi þá birtast í hærri gjaldskrá.

Mikilvægt er að fjárhagslegt umhverfi flutningsfyrirtækisins taki mið af framangreindum atriðum – sérstaklega þegar fyrir liggur stefna ríkisstjórnar um hraða styrkingu kerfisins í kjölfar víðtækra og langvarandi truflana á raforkuafhendingu veturinn 2019-20. Leyfð arðsemi fyrirtækisins þarf að endurspegla þessa staðreynd.

 

Hvers vegna er vandamál að kerfið sé þungt lestað?

Þungt lestað kerfi leiðir til verri frammistöðu í rekstri með tilheyrandi kostnaði fyrir alla notendur kerfisins. Þar munar mestu um aukin flutningstöp og minna afhendingaröryggi.

Flutningstöp eru óhjákvæmileg í öllum raforkuflutningi en þau aukast með vegalengd og eftir því sem flutningsálag er nær hámarksflutningsgetu línu. Flutningstöp valda verulegum kostnaði í kerfinu og eru af sambærilegri stærð og öll orkuvinnsla í Svartsengi.

Þegar skyndilegar bilanir koma upp í flutningskerfinu eða hjá notendum þarf raforkan sem flæðir um kerfið að geta fundið sér annan farveg til notenda. Þungt lestaðar flutningslínur eru síður líklegar til að geta tekið við auknu flutningsálagi í bilanatilfellum. Kostnaður samfélagsins við raforkutruflanir getur verið mörghundruðfalt raforkuverð. Aukið afhendingaröryggi er því fljótt að borga sig.

Það er því hvorki hagkvæmt né öruggt að reka þungt lestað raforkukerfi. 

 

Hvernig ætlar Landsnet að styrkja kerfið á næstu árum?

Í Kerfisáætlun Landsnets má finna lýsingu á uppbyggingaráformum Landsnets næstu tíu árin. Þar kemur meðal annars fram hvernig Landsnet hyggst tryggja afhendingaröryggi í samræmi við stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins og að teknu tilliti til markmiða raforkulaga.

Þegar fyrirhugaðar styrkingar Landsnets eru að baki er gert ráð fyrir því að afhendingargetan í flutningskerfinu verði nokkurn veginn eins og á mynd. Afhendingargeta mun hafa stóraukist um allt land með tilheyrandi létti á kerfinu. Flutningstöp munu dragast saman og afhendingaröryggi aukast um allt land.

Myndin sýnir hvernig tiltæk afhendingargeta mun aukast á landinu öllu ef framkvæmdir á 10 ára áætlun Landsnets ná fram að ganga. Eins og sjá má verður staðan á landinu öllu gjörbreytt frá því sem nú er. Athugið að taka þarf tillit til þess að tiltæk afhendingargeta á myndinni er innbyrðis háð. Það þýðir að ef stór notandi kemur á einn afhendingarstað, þá mun hún breytast á afhendingarstöðum í kring. Myndin gefur samt sem áður hugmynd um hvernig framtíðarstaða afhendingar í meginflutningskerfinu mun líta út eftir 10 ár. 

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?