Landsnet starfar á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 og samkvæmt 12. gr. laganna skal Orkustofnun setja fyrirtækinu tekjumörk. Tekjumörk er þær hámarkstekjur sem fyrirtækinu er heimilt að innheimta af viðskiptavinum fyrir flutning raforku.  Tekjumörk skulu vera tvískipt, annars vegar vegna flutnings á raforku til dreifiveitna og hins vegar vegna flutnings til stórnotenda. Tekjumörkin eru sett til fimm ára í senn og taka mið af sögulegum rekstrarkostnaði félagsins, afskriftum fastafjármuna, sköttum og leyfðri arðsemi, sem Orkustofnun ákveður árlega. Markmið með setningu tekjumarka er að hvetja til hagræðingar í rekstri flutningsfyrirtækisins og tryggja að tekjur þess séu í samræmi við kostnað við þá þjónustu sem því er falið að veita, að teknu tilliti til arðsemi.

Fyrirtækið skal ákveða gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við sett tekjumörk; fyrir dreifiveitur í íslenskum krónum og fyrir stórnotendur í bandarískum dollar. Samkvæmt raforkulögum ber fyrirtækinu að stilla af gjaldskrár þannig að félagið skili eigi meiri tekjum en settum tekjumörkum. Á hverju ári eru reiknuð frávik á milli reglulegra tekna hvers árs og endanlegra leyfðra tekna, sem Orkustofnun kveður á um eftir lok ársins, samkvæmt uppgjöri tekjumarka. Á grundvelli raforkulaga er heimilt að færa of- eða vanteknar tekjur samkvæmt endanlegum tekjumörkum milli ára, þó aldrei meira en 10% af uppfærðum tekjumörkum hvers uppgjörsárs. Komi í ljós við uppgjör tekjumarka að uppsafnaðar ofteknar tekjur eru umfram þessi mörk skal ná hlutfallinu niður fyrir tilskilin mörk eigi síðar en fyrir lok næsta árs á eftir. Óheimilt er að flytja vanteknar tekjur umfram framangreind viðmið milli ára.

Tekjumörk eru sett til fimm ára í senn og eru að meginhluta til byggð á sögulegum rekstrarkostnaði, afskriftum og arðsemi eigna. Þau taka þó ýmsum breytingum á tímabilinu þegar forsendur breytast, svo sem vegna verðlagsbreytinga, nýrra eigna, hækkunar eða lækkunar vaxta.

Stöðugleiki í tekjumörkum og arðsemi er félaginu mikilvægur. Erfitt er að gera áætlanir þegar mikil óvissa ríkir í rekstrarumhverfinu og óvissa er um hversu miklar tekjur félagið má hafa. Þegar slík óvissa varir lengi getur myndast mikið ójafnvægi milli tekna og tekjumarka ásamt því að valda því að gjaldskrár séu rangt settar.

Í sögulegu samhengi einkenndist áratugurinn 2008-2017 af mikilli óvissu. Raforkulögum var breytt árið 2011 og á tekjumarkatímabilinu 2011-2015 náðist hvorki sátt né niðurstaða um grunnforsendur í ákvörðun tekjumarka. Viðvarandi ágreiningur var um leyfða arðsemi flutnings- og dreififyrirtækja og þar með leyfðar tekjur þeirra. Þeim ágreiningi lauk ekki fyrr í febrúar 2016 þegar Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið innleiddi nýja reglugerð nr. 192/2016 um mat á vegnum fjármagnskostnaði sem viðmið um leyfða arðsemi við ákvörðun tekjumarka sérleyfisfyrirtækja í flutningi og dreifingu á raforku. Með henni náðist nauðsynlegur stöðugleiki í ákvörðun tekjumarka sem félaginu er nauðsynlegur. Stutta samantekt á sögu tekjumarka Landsnets árin 2008-2017 má sjá hér að neðan.

Hér verður, í stuttu máli, rakin saga tekjumarka á undanförnum áratug. Tímabilið einkenndist af miklum óstöðugleika, lagabreytingum, kærum og óvissu um grundvallaratriði fyrir fjárhagslega afkomu og gjaldskrá fyrirtækisins. Tekjumörk Landsnets lágu jafnan ekki fyrir en að tekjumarkatímabil voru langt komin eða liðin. Lagabreytingin árið 2011 lagði einnig verulegar skuldbindingar á fyrirtækið.

Þetta rekstrarumhverfi hefur gert Landsneti erfitt fyrir að ná markmiði sínu um að halda gjaldskrá stöðugri til lengri tíma. Hér verður, í tímaröð, farið yfir helstu atriði hvers tekjumarkatímabils fyrir sig svo lesandi geti betur áttað sig á því langvarandi óvissuástandi sem er nú að baki þótt áhrifin á rekstur Landsnets og gjaldskrá fyrirtækisins vari enn um sinn.

Árin 2008-2011: Frá efnahagshruni að breytingu á raforkulögum

Tekjumörk á tekjumarkatímabilinu 2006-2009 voru tilefni langvarandi deilna. Frágangur og meðferð ýmissa atriði sem snéru að ákvörðun tekjumarka, eignastofn og arðsemi voru óljós. Landsnet kærði uppgjör tekjumarka 2006-2009 í apríl 2011 og þeim deilum lauk ekki fyrr en um mitt árið 2014 með úrskurði Úrskurðarnefnd raforkumála. Þann 4.3. 2015 birti OS ákvörðun um arðsemi Landsnets fyrir árin 2006-2009. Í framhaldi af því voru tekjumörk tímabilsins gerð endanlega upp.

Með breytingum á raforkulögum í mars 2011 var ákveðið að setja eignastofn sem tengdist flutning til stórnotenda í bandaríkjadollar og arðsemi þess hluta ákvörðuð með hliðsjón af fjármögnun í þeirri mynt. Með því var leiðrétt afdrifaríkt misræmi í tekjumarkasetningu og tekjum Landsnets. Tekjur félagsins höfðu verið í krónum árin 2005-2007 en á haustmánuðum 2007 var byrjað að innheimta tekjur af stórnotendum í dollurum. Tekjumörk félagsins voru hins vegar áfram sett í krónum og því myndaðist þar gjaldeyrisáhætta fyrir bæði Landsnet og stórnotendur.

Í kjölfar efnahagshrunsins og á árunum 2008 – 2010 myndaðist umtalsverður gengishagnaður sem jók tekjur félagsins langt umfram viðmið tekjumarka sem var í íslenskum krónum. Tilgangur lagabreytingarinnar var að koma í veg fyrir að þannig aðstæður gætu komið upp aftur að sveiflur í gengi gjaldmiðla settu tekjur Landsnets í uppnám. Löggjafanum þóttu rök Landsnets varðandi það að félaginu þætti óeðliegt að endurgreiða stórnotendum gengishagnað málefnaleg. Það kom fram í ákvörðun hans í bráðabirgðaákvæði með breytingunum að gefa félaginu 10 ár, eða til ársins 2020 og án uppreiknings, að greiða gengishagnaðinn til baka með lægri gjaldskrá. Á árinu 2018 gætir enn Þessara áhrifa í gjaldskrá til stórnotenda en gert er ráð fyrir því að tímafrestur til endurgreiðslu verði fullnýttur.

Árin 2011-2015: óvissa um tekjumörk og leyfða arðsemi

Þetta tekjumarkatímabil einkenndist, eins og fyrra tímabil, af mikilli óvissu um leyfðar tekjur. Orkustofnun tók ítrekað ákvarðanir, eða setti fram drög að ákvörðunum, um leyfða arðsemi fyrir félagið sem ýmist voru kærðar eða dregnar til baka.

Það var ekki fyrr en 21. júlí 2015 sem Orkustofnun birti endanlega ákvörðun um leyfða arðsemi fyrir árin 2011-2015 og í framhaldi af því voru tekjumörk 2011-2014 gerð upp. Hér lauk að mestu þeirri óvissu sem hafði verið í mörg ár varðandi tekjumörk félagsins fyrir árin 2011-2015.

Þessi sátt byggðist meðal annars á því að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði boðað endurskoðun á reglugerð um mat á leyfðri arðsemi sem liggja átti til grundvallar í nýju tekjumarkatímabili 2016 – 2020. Breytt reglugerð var birt 15. febrúar 2016 og var þar með kominn grunnur að þeim stöðugleika sem leitað var að.

Árin 2016-2020: stöðugleiki næst með nýrri reglugerð um leyfða arðsemi

Nýtt tekjumarkatímabil hófst 2016 og gildir til 2020. Leyfð arðsemi Landsnets árið 2016 lá fyrir í apríl 2016 og var grundvölluð á nýrri reglugerð um viðmið um leyfða arðsemi við ákvörðun tekjumarka. Í framhaldið af því voru tekjumörkin fyrir tímabilið 2016-2020 sett 9. maí 2016.

Eftir ákvörðun um leyfða arðsemi í júlí 2015 fyrir tímabilið 2011-2015 varð ljóst að gjaldskrá til dreifiveitna hafði verið of lág og fyrir lá að vanteknar tekjur væru umfram heimildir í raforkulögum. Landsnet varð því af tekjum af þeim hluta rekstursins. Þrátt fyrir fyrirséð tekjutap var ákveðið hækka gjaldskrána í skrefum árin 2016 og 2017.

Gjaldskrá til stórnotenda var lækkuð 1. júlí 2016 vegna lækkunar á leyfðri arðsemi og áfram unnið að endurgreiðslu skuldar frá fyrra tekjumarkatímabili.

Ný reglugerð hefur fækkað mögulegum ágreiningsatriðum við ákvörðun tekjumarka þar sem flestar breytur í útreikningi voru festar í sessi í reglugerðinni sjálfri. Það má því segja að verklag hafi þróast og lærdómur verið dregin af óstöðugleika undanfarinna ára. Stefnt er að því að ljúka endurgreiðslu til stórnotenda vegna gengishagnaðar í kringum efnahagshrunið á árinu 2020. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á regluverki tekjumarka voru löngu nauðsynlega og framundan tímabil stöðugleika í tekjumörkum og gjaldskrám Landsnets.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?