Landsnet vinnur stöðugt að aukinni hagkvæmni í rekstri, umbótum og minnkandi áhættu með það sem markmið að nýta aðföng sem best.

Landsnet starfar á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 og samkvæmt 12. gr. laganna skal Orkustofnun setja fyrirtækinu tekjumörk. Tekjumörk er þær hámarkstekjur sem fyrirtækinu er heimilt að innheimta af viðskiptavinum fyrir flutning raforku.  Tekjumörk skulu vera tvískipt, annars vegar vegna flutnings á raforku til dreifiveitna og hins vegar vegna flutnings til stórnotenda. Tekjumörkin eru sett til fimm ára í senn og taka mið af sögulegum rekstrarkostnaði félagsins, afskriftum fastafjármuna, sköttum og leyfðri arðsemi, sem Orkustofnun ákveður árlega. Markmið með setningu tekjumarka er að hvetja til hagræðingar í rekstri flutningsfyrirtækisins og tryggja að tekjur þess séu í samræmi við kostnað við þá þjónustu sem því er falið að veita, að teknu tilliti til arðsemi.

Fyrirtækið skal ákveða gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við sett tekjumörk; fyrir dreifiveitur í íslenskum krónum og fyrir stórnotendur í bandarískum dollar. Samkvæmt raforkulögum ber fyrirtækinu að stilla af gjaldskrár þannig að félagið skili eigi meiri tekjum en settum tekjumörkum. Á hverju ári eru reiknuð frávik á milli reglulegra tekna hvers árs og endanlegra leyfðra tekna, sem Orkustofnun kveður á um eftir lok ársins, samkvæmt uppgjöri tekjumarka. Á grundvelli raforkulaga er heimilt að færa of- eða vanteknar tekjur samkvæmt endanlegum tekjumörkum milli ára, þó aldrei meira en 10% af uppfærðum tekjumörkum hvers uppgjörsárs. Komi í ljós við uppgjör tekjumarka að uppsafnaðar ofteknar tekjur eru umfram þessi mörk skal ná hlutfallinu niður fyrir tilskilin mörk eigi síðar en fyrir lok næsta árs á eftir. Óheimilt er að flytja vanteknar tekjur umfram framangreind viðmið milli ára.

Tekjumörk eru sett til fimm ára í senn og eru að meginhluta til byggð á sögulegum rekstrarkostnaði, afskriftum og arðsemi eigna. Þau taka þó ýmsum breytingum á tímabilinu þegar forsendur breytast, svo sem vegna verðlagsbreytinga, nýrra eigna, hækkunar eða lækkunar vaxta.

Landsnet hefur skráð skuldabréf á verðbréfamarkaði og ber því upplýsingaskyldu um þá þætti sem geta haft áhrif á verð bréfa félagsins.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?