Mannauðs- og jafnréttisstefna Landsnets er hluti af heildarstefnu fyrirtækisins en eitt að lykilatriðum í velgengni fyrirtækisins felst í mannauðnum.

Jákvæð menning og gott starfsumhverfi 

Við leggjum áherslu á að skapa jákvæða fyrirtækjamenningu með sterkri liðsheild þar sem samskipti einkennast af gildum okkar. Samskipti eru opin og heiðarleg og vinnubrögð einkennast af trausti og samvinnu.  
Við sýnum hvert öðru virðingu og umberum ekki einelti, áreitni eða fordóma af neinu tagi. Það er á ábyrgð okkar allra að skapa umhverfi sem er laust við slíka hegðun.
Áhersla er á að starfsfólki líði vel í vinnunni og að gætt sé að jafnvægi milli einkalífs og vinnu með því að stuðla að sveigjanleika í starfi. Við veitum stuðning þegar koma upp veikindi eða önnur áraun í einkalífi. 

Fjölbreytni, jafnræði og hæft starfsfólk

Við viljum að Landsnet sé eftirsóknarverður vinnustaður. Við náum því markmiði með því að  ráða, efla og halda hæfu og ábyrgu starfsfólki. Veita því tækifæri til að takast á við spennandi verkefni, þróast og dafna í faglegu og framsæknu umhverfi. 
Við leggjum áherslu á fjölbreyttan vinnustað. Við ráðningu er ávallt tekið mið af hæfni umsækjenda og er leitast við að jafna kynjahlutfall innan sviða, eininga og starfsflokka.
Lögð er rík áhersla á jafnræði og að allir fái notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu.

Jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf

Við tryggjum starfsfólki jöfn kjör og tækifæri. Við greiðum starfsfólki okkar hófleg en samkeppnishæf laun í sambærilegum atvinnugreinum. Ákvörðun launa okkar er byggð á viðurkenndum jafnréttissjónarmiðum, virðingu fyrir starfsfólki, lögum og reglum. Sanngirni og samfélagslega ábyrgð eru leiðarljós okkar í kjaramálum. 
Við leggjum áherslu á þátttöku í kjararannsóknum þar sem markmiðið er ávallt að launaþróun starfsfólks sé byggð á vitneskju um þróun markaðarins. Við gerum ófrávíkjanlega kröfu um jöfn laun fyrir sömu vinnu óháð kyni eða öðrum þáttum. Vottað jafnlaunakerfi skal vera til staðar á grundvelli staðalsins ÍST 85. Starfrækt er jafnréttisnefnd innan fyrirtækisins og virk aðgerðaáætlun jafnréttismála. 

Þekking og færni í takt við þarfir og öflug stjórnun 

Við erum framfaramiðað þekkingarfyrirtæki og leggjum áherslu á að þróa hæfileika og hæfni starfsfólks. Við stuðlum að því að allt starfsfólk eigi möguleika að þróast í starfi, geti sótt fræðslu og sí- og endurmenntun í takti við kröfur og þarfir starfsins.
Við leggjum áherslu á sýnilega og stefnumiðaða stjórnun með öflugum stjórnendum sem hafa skýra framtíðarsýn. Áhersla er á reglubundin samtöl starfsfólks og stjórnenda, þar sem rætt er um væntingar og líðan, veittur stuðningur og endurgjöf um frammistöðu ásamt hvatningu til að þróast í starfi.

Jafnréttisáætlun 

 

Útgefið 11.03.2020

 

 
Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?