Starfskjarastefna Landsnets hf. er sett í samræmi við 79. gr. a. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Hún byggir jafnframt á leiðbeiningum um góða stjórnarhætti fyrirtækja og er ætlað að treysta viðleitni félagsins til að veita góða þjónustu og tryggja langtímahagsmuni félagsins.

Starfskjarastefnu Landsnets er ætlað að veita hluthöfum upplýsingar um starfskjör stjórnarmanna, forstjóra og stjórnenda félagsins. 

Stjórn félagsins fer með hlutverk starfskjaranefndar.

1. Stefna og markmið 

Það er stefna og markmið Landsnets hf. að laða að og halda í hæft starfsfólk sem styður við hlutverk og starfsemi félagsins eins og hún er skilgreind í raforkulögum 65/2003.  Til að svo megi verða er nauðsynlegt að bjóða samkeppnishæf laun við það sem tíðkast hjá sambærilegum fyrirtækjum á markaði en þó ekki leiðandi. Jafnframt skal gætt að viðurkenndum jafnréttissjónarmiðum.

2. Starfskjör

2.1. Starfskjör almennt
Starfskjör skulu taka mið af stefnu og markmiðum starfkjarastefnu ásamt viðmiðunum, svo sem hæfni, ábyrgð, álag, vinnuaðstæður og frammistöðu. 
Greidd skulu sambærileg laun fyrir sambærilega vinnu óháð kyni. 

2.2. Starfskjör stjórnarmanna
Stjórnarmönnum félagsins skal greidd þóknun samkvæmt ákvörðun aðalfundar félagsins ár hvert. Samkvæmt samþykktum Landsnets skal þóknun fyrir störf stjórnar, á næstliðnu starfsári, ákvörðuð á aðalfundi. Á aðalfundi skal jafnframt tekin ákvörðun um laun fyrir setu í undirnefndum stjórnar. Skal þóknunin taka mið af þeirri ábyrgð sem starfinu fylgir og því flókna umhverfi sem félagið starfar í, vinnuframlagi sem þörf er á starfsins vegna auk þess sem litið skal til þóknunar til stjórnarmanna sambærilegra félaga.

2.3. Starfskjör forstjóra 

Stjórn gerir skriflegan ráðningarsamning við forstjóra Landsnets hf. og semur um starfskjör við hann samkvæmt starfskjarastefnu þessari. Kjör hans skulu vera samkeppnishæf á íslenskan mælikvarða og taka mið af hæfni, ábyrgð og umfangi starfsins. Tilgreina skal önnur starfskjör í ráðningarsamningum, svo sem greiðslur í lífeyrissjóð, orlof, hlunnindi, uppsagnarfrest og önnur kjör. Við gerð ráðningarsamnings við forstjóra skal haft að leiðarljósi að ekki komi til frekari greiðslna við starfslok en fram koma í ráðningarsamningi. Heimilt er þó við sérstök skilyrði að mati stjórnar að gera sérstakan starfslokasamning við forstjóra.

2.4. Starfskjör framkvæmdastjóra
Forstjóri gerir skriflega ráðningarsamninga við framkvæmdastjóra félagsins og semur um kjör þeirra samkvæmt starfskjarastefnu þessari. Kjör þeirra skulu vera samkeppnishæf á íslenskan mælikvarða. Fjárhæð grunnlauna og annarra greiðslna til þeirra skal taka mið af menntun og reynslu starfsmanns, ábyrgð og umfangi starfsins.

3.  Árangurstengdar greiðslur 
Félagið greiðir ekki árangurstengdar greiðslur.  

4.  Starfslok 
Það er stefna félagsins að gera ekki sérstaka starfslokasamninga við stjórnendur eða starfsmenn félagsins umfram skyldur félagsins samkvæmt lögum og kjarasamningum. 

5.  Samþykkt, endurskoðun og upplýsingagjöf 

Stjórn skal veita upplýsingar á aðalfundi félagsins um starfskjör stjórnar og forstjóra félagsins. Þar skal stjórn jafnframt skýra frá framkvæmd áður samþykktrar starfskjarastefnu. Starfskjarastefna skal samþykkt á aðalfundi, með eða án breytinga.

Stjórn  skal hafa eftirlit með að starfskjarastefnu sé framfylgt.

Stjórn skal árlega yfirfara stefnuna og gera tillögur að breytingum ef ástæða þykir. 

Starfskjarastefnuna skal birta á heimasíðu félagsins.

 

Aðalfundur Landsnets hf. 13.03.2020

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?