image
29.10.2012

Fréttatilkynning frá Hafnarfjarðarbæ og Landsneti hf.

Framkvæmdir við niðurrif Hamraneslína hefjast 2016. Viðauki við gildandi samkomulag undirritaður.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir viðaukann fela í sér nýja tímasetningu á niðurrifi Hamraneslínanna. Niðurrifi línanna hefur seinkað af ýmsum óviðráðanlegum ytri aðstæðum sem m.a. má rekja til efnahagsþrenginga undanfarinna ára. Samkvæmt viðaukanum muni undirbúningur við niðurrif lína í á Völlum og við Hamranes hefjast eigi síðar en 2016 og vera lokið ekki seinna en 2020.

Hafnarfjarðarbær og Landsnet hf. hafa samþykkt viðauka við samkomulag frá árinu 2009 um framkvæmdir og tímaröð framkvæmda við flutningskerfi raforku í Hafnarfirði. Upphaflega samkomulagið fól í sér byggingu nýrra raflína frá Hellisheiði til Hafnarfjarðar, samsíða núverandi línum í upplandi Hafnarfjarðar og þaðan áfram til Suðurnesja. Þar er gert ráð fyrir að framkvæmdir við flutningskerfið verði í þremur áföngum er komi að fullu til framkvæmda árið 2017 en ljóst er að breyta verður þeim áætlunum. Á það við um framkvæmdatíma og lok hans en einnig um breytingar á einstaka verkþáttum sem vinna átti innan hvers áfanga fyrir sig. Ekki er unnt að tímasetja hvenær fyrirhuguðum framkvæmdum við flutningskerfið lýkur né í hvaða röð þær verða unnar en aðilar hafa rætt saman, sbr. niðurlag 2. mgr. 6. gr. samkomulagsins.

Með viðaukanum hefur Landsnet skuldbundið sig til að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir við niðurrif Hamraneslínu 1 og 2 og að undirbúningur þeirra hefjist eigi síðar en árið 2016 þannig að unnt verði að ljúka verkinu eigi síðar en árið 2020.

Þórður Guðmundsson forstjóri Landsnets segir að það sé sameiginlegur skilningur beggja aðila að hefjist framkvæmdir við fyrsta áfanga nýs álvers í Helguvík eða annarrar atvinnustarfsemi á svæðinu, þá verði þegar hafinn undirbúningur að fyrrgreindum framkvæmdum. Með viðauka þessum við fyrra samkomulag hafa allar sveitarstjórnir sem koma að svokölluðu Suðvesturlínu verkefni samþykkt að setja væntanleg flutningsmannvirki Landsnets inn á skipulag. Landsneti mun því halda áfram við undirbúning fyrsta áfanga verkefnisins og áætlar að á næsta ári hefjist framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 svo tryggja megi viðunandi afhendingaröryggi á Suðurnesjum.

Nánari upplýsingar gefur Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets í síma 8935621 og Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar í síma 664 5521.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?