image
30.11.2012

Ákvörðun Landsnets um breytingar á gjaldskrá í fullu samræmi við lög

Landsnet hefur óskað eftir að Orkustofnun staðfesti breytingar á flutningsgjaldskrá fyrirtækisins frá næstu áramótum. Gjaldskráin byggir á forsendum sem kveðið er á um í breytingum á raforkulögum sem gerðar voru á árinu 2010 og gildi tóku í ársbyrjun 2011. Meðal þeirra eru breytingar á kröfum um arðsemi fyrirtækisins sem nú liggja fyrir samkvæmt úrskurði Orkustofnunar á grundvelli tillagna óháðra sérfræðinga. Gjaldskrá Landsnets er tvíþætt, annars vegar fyrir dreifiveitur og þar með almenna notendur, heimili og fyrirtæki í íslenskum krónum og hinsvegar fyrir stórnotendur í bandaríkjadölum.

Samkvæmt breytingunum á gjaldskránni er hækkunin til dreifiveitnanna 9% en þegar tekið hefur verið tillit til hlutfalls flutnings í rafmagnsverði til almennings leiðir þetta til um 1% hækkunar á rafmagnsverði til neytenda. Gjaldskrá Landsnets til dreifiveitna hefur verið óbreytt frá 2009 og þrátt fyrir umrædda hækkun gjaldskrárinnar er hún 7% undir hækkun almennrar verðlagsþróunar frá þeim tíma.

Flutningsgjaldskrá til stórnotenda var lækkuð í tvígang, hinn 1. janúar 2010 um 7% og hinn 1. júní 2011 um 5%. Ástæða lækkunarinnar voru áhrif frá gengishruni krónunnar sem leiddu til misvægis í þeim aðferðum sem lágu til grundvallar gjaldskrár Landsnets á þeim tíma. Þessu misvægi var eytt með breytingu á raforkulögum 2011 og nú er grundvöllurinn að megin stofni í bandaríkjadölum. Lagt er til að flutningsgjaldskrá til stórnotenda hækki um 20% frá gjaldskránni eins og hún var eftir framangreindar lækkanir. Hækkun á gjaldskránni í bandaríkjadölum frá 2008 er því tæp 7 prósentustig sem er um 4 prósentustigum undir þróun verðlags í Bandaríkjunum á sama tíma.

Hlutverk Landsnets er að tryggja íbúum og fyrirtækjum landsins aðgang að öruggu raforkuflutningskerfi að teknu tilliti til hagkvæmni og umhverfis. Á grundvelli raforkulaga eru settar ákveðnar forsendur um arðsemi fyrirtækisins. Þá er rétt að vekja athygli á því að eigið fé Landsnets er aðeins 18% og styrkist það ekki á næstunni þá getur fyrirtækið ekki fjármagnað nauðsynlegar framkvæmdir á eigin forsendum. Ljóst er að á næstu árum er nauðsynlegt að ráðast í verulegar fjárfestingar í flutningskerfi raforku meðal annars til að bæta úr þeim veikleikum sem komið hafa í ljós á undanförnum misserum á flutningskerfinu og til að mæta kröfum um uppbyggingu atvinnulífs á landinu öllu. Má í því sambandi benda á brýna þörf fyrir aukna flutningsgetu til Suðurnesja, Eyjafjarðar, Norðaustur- og Austurlands til að geta fullnýtt afkastagetu fyrirtækis á Akureyri og hugsanlegri stækkun þess, uppbyggingu á Norðausturlandi og óskum um að nýta raforku í stað olíu í fiskimjölsverksmiðjum á Austurlandi. Að auki eru fjölmargar minni framkvæmdir nauðsynlegar til að styrkja flutningkerfið í hinum dreifðu byggðum landsins. Gangi gjaldskrárhækkanirnar eftir mun Landsnet verða betur í stakk búið til að takast á við knýjandi styrkingar flutningskerfisins og þar með draga úr þeim takmörkunum á raforkuflutningi sem nú eru til staðar.

Gjaldskrá til almenningsveitna
Á undangengnum áratugum hefur flutningskerfið byggst upp í samræmi við vaxandi þarfir og hefur uppbyggingin í tengslum við stórnotendur orðið til þess að stór hluti landsmanna hefur aðgengi að öflugra flutningskerfi. Með byggingu byggðalínu á árunum 1974 –1984 var stigið stórt skref í dreifingu raforku um landið allt. Línan er því komin til ára sinna, orðin rúmlega 30 ára gömul og kerfið sem hún er grundvöllur að stenst ekki lengur þær kröfur sem nútíma þjóðfélag gerir til afhendingargetu og öryggis. Þá er ljóst af áföllum nú í haust að aldur línunnar er farinn að segja til sín og efla þarf tengingar með byggingu fleiri lína víða um land eða styrkja varaafl í svæðisbundnu kerfunum. Á næstu árum verður því nauðsynlegt að ráðast í að treysta og efla flutningskerfi raforku um landið, annars vegar til að tryggja öryggi orkuafhendingar og hinsvegar til að mæta kröfum um aukna notkun atvinnufyrirtækja á raforku og frekari uppbyggingu minni og meðalstórra fyrirtækja.

Hlutfall flutningskostnaðar í orkureikningi heimilanna og atvinnufyrirtækja annarra en stórnotenda var um 12% árið 2005, en yrði 9% eftir að boðuð hækkun hefur tekið gildi þannig að ljóst má vera að gjaldskrárþróun Landsnets hefur verið mun hóflegri en almennt gerist á raforkumarkaðinum. Eftir stendur að þrátt fyrir þessa hækkun mun gjaldskráin vera um 7% undir verðlagsþróun undanfarinna ára og umrædd hækkun mun aðeins leiða til um 1% hækkunar til viðskiptavina á hinum almenna markaði.

null

Gjaldskrá til stórnotenda
Starfsemi svonefndra stórnotenda hér á landi er öll grundvölluð á bandaríkjadölum og gildir það einnig um tekjur orkusölufyrirtækjanna af raforku til þeirra. Þótt gjaldskrá Landsnets til stórnotenda hafi allt frá árinu 2007 verið ákvörðuð í bandaríkjadölum þá var grundvöllur hennar allt til ársloka 2010 í íslenskum krónum. Vegna gengisfalls íslensku krónunnar í árslok 2008 og byrjun árs 2009 var gjaldskrá Landsnets til stórnotenda lækkuð fyrst um 7 % og síðar um 5 % til viðbótar. Í ársbyrjun 2011 tóku gildi ný ákvæði raforkulaga þar sem grundvöllur tekna Landsnets af stórnotendum ákvarðast nú í sömu mynt og gjaldskráin er í þ.e. bandaríkjadölum. Þetta leiðir af sér ákveðnar breytingar þar sem bæði gjaldskrá og ákvörðun um leyfðar tekjur eru nú í sömu mynt. Þessi leiðrétting vegur um 13% stig af þeirri hækkun sem nú er til umfjöllunar, tæp 7% stig er sú hækkun sem er því sú raunhækkun sem nú er til umræðu. Þegar horft er til verðlagsþróunar í bandaríkajdölum þá er þrátt fyrir hækkunina um 4% raun lækkun að ræða á tímabilinu frá febrúar 2008 til 1. janúar 2013. Meðaflutningkostnaður stórnotenda sem var 5,4 USD/MWh í febrúar 2008 verður 5,7 USD/MWh frá 1. janúar 2013 gangi gjaldskrárhækkunin eftir. Rétt er að fram komi að um 70% af flutningstekjum Landsnets til stórnotenda kemur frá orkusölufyrirtækjunum á grundvelli eldri sölusamninga sem innihéldu flutning en 30% beint frá stórnotendunum en tekjur orkusölufyrirtækjanna eru í bandaríkjadölum eins og gjaldskrá Landsnets og hafa tekjur þeirra því tekið samskonar breytingum ef þær eru umreiknaðar í íslenskar krónur. Á grundvelli gagna um meðalverð til stórnotenda þá áætlast hlutfall flutnings í orkuverðinu stórnotenda vera rúmlega 20% eftir hækkun gjaldskrárinnar en það er svipað hlutfall og meðaltal áranna 2005-2011 að teknu tilliti til breytinga á álverði undanfarin ár. Tekjur söluaðilanna eru samkvæmt þessu 80% af orkuverðinu eftir sem áður.

null

Í raforkulögum og reglugerð um framkvæmd þeirra er skýrt kveðið á um aðgreiningu á starfsemi Landsnets hvað varðar annars vegar dreifiveitur og stórnotendur hinsvegar, það endurspeglast meðal annars í mismunandi arðsemiskröfum þessara tveggja þátta starfseminnar. Landsnet telur að umræddar breytingar séu í fullu samræmi við kröfur raforkulaganna og að fulls jafnræðis sé gætt milli aðila í þeim tillögum um breytingar á gjaldskrá fyrirtækisins sem óskað hefur verið eftir staðfestingu á. Hækkun á gjaldskrá Landsnets til stórnotenda á því ekki að leiða til hækkunar á orkuverði söluaðila til almennra notenda. Í þessu samhengi er rétt að benda á að í raforkulögum er verðlagning á raforku gefin frjáls. Umræðan vekur því upp spurningar um það hvort lögin virki sem skildi í þessum efnum.

Í umfjöllun fjölmiða hefur komið fram kæra á hendur Landsneti fyrir lögbrot vegna hækkunar gjaldskrár. Það er mjög misvísandi. Hins vegar hefur ákvörðun Orkustofnunar um leyfða hámarksarðsemi sem stofnuninni ber að setja samkvæmt lögum verið kærð. Ákvörðun Landsnets um breytingar á gjaldskrá er því í fullu samræmi við lög og eru tillögur Landsnets nú til umfjöllunar hjá Orkustofnun eins og lög gera ráð fyrir. Að lokinni þeirri umfjöllun verður gjaldskrárhækkunin fyrst kæranleg.

Flutningskerfi Landsnets gegnir mjög mikilvægu hlutverki í samfélaginu sem stofnkerfi raforkunnar. Það er afar mikilvægt að fyrirtækið búi við traustan efnahag og stöðugt umhverfi. Þær lækkanir sem urðu á gjaldskrá til stórnotenda í kjölfar falls krónunnar eru afar óheppilegar og endurspegla í raun ekki stöðu fyrirtækisins á þessum tíma. Gjaldskrárhækkunin nú miðast við það að arðsemi félagsins verði innan leyfðra marka og mun leiða til þess að fyrirtækið geti rækt hlutverk sitt í samræmi við þarfir samfélagsins. Verði reyndin önnur eru leyfðar hámarkstekjur Landsnets og þar með gjaldskráin endurskoðuð með reglubundnum hætti af Orkustofnun.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?