image
06.12.2012

Vegna umfjöllunar fjölmiðla um gjaldskrárhækkunartillögur Landsnets

Undanfarna daga hefur því verið haldið fram í fjölmiðlum að með hækkun á gjaldskrá sinni til stórnotenda sé Landsnet að hækka flutningsverð til almennings. Þessu hafnar Landsnet, enda með öllu óheimilt samkvæmt lögum og útilokað að Orkustofnun myndi samþykkja slíkt. Það er grundvallaratriði að raforkuflutningur til stórnotenda eins og annarra viðskiptavina Landsnets, standi undir þeim kostnaði sem honum fylgir. Tillögur fyrirtækisins miðast við þetta. Væri það ekki gert mætti saka Landsnet um að flytja kostnað yfir á almenning en ekki öfugt eins og fjölmiðlar gefa nú til kynna.

Raforkuframleiðendur hafa haldið því fram að samningar þeirra við stórnotendur gefi ekki færi á hækkunum þar sem framleiðendurnir hafa samið um að greiða flutningskostnað stórnotenda. Frá því raforkulög voru sett hefur alltaf verið gert ráð fyrir að tekjur Landsnets væru samkvæmt gjaldskrá sem tæki breytingum í samræmi við setningu tekjumarka fyrir fyrirtækið. Það að einstök fyrirtæki hafi ákveðið að taka áhættu vegna flutningskostnaðar fyrir hönd stórnotenda er mál sem er Landsneti óviðkomandi og stjórnendur þeirra verða að svara fyrir. Sú 9% hækkun til dreifiveitna sem Landsnet hefur sótt um er fyrsta hækkun Landsnets síðan 2009. Miðað við verðlag þá er hún 7 prósentustigum undir verðlagsþróun. Rétt er að benda á að ekkert orkufyrirtæki hefur hækkað gjaldskrá sína jafn lítið og Landsnet á undanförnum misserum. 


Upplýsingar veita:

Þórður Guðmundsson, forstjóri 8935621
Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri 8934843

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?