image
09.07.2015

Landsnet og Hafnarfjarðarbær semja um niðurrif Hamraneslínu eigi síðar en 2018

Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Guðmundur I. Ásmundsson forstjóri Landsnets skrifuðu í dag undir samkomulag um uppbyggingu hluta raforkuflutningskerfis fyrirtækisins innan Hafnarfjarðar.

Haraldur fagnar því að samkomulag hafi náðst með samvinnu og samstarfi við íbúa á svæðinu. „Samkomulagið sem við undirrituðum í dag tryggir að nú þegar verður hafist handa við að breyta ásýnd og bæta hljóðvist við tengivirkið í Hamranesi og að línurnar verði farnar að hluta til í jörð næst Hamranesi ekki seinna en árið 2018,“ segir Haraldur.

Samkomulagið miðar að því að hægt verði að rífa Hamraneslínur 1 og 2 og að færa Ísallínur 1 og 2 sem liggja frá tengivirkinu í Hamranesi að álverinu í Straumsvík fjær byggðinni. Gert ráð fyrir að ný Suðurnesjalína 2 – 220 kV háspennulína sem lögð verður út á Reykjanes – tengist Hamranesi með 1,5 km löngum 220 kV jarðstreng frá Hraunhellu. Hafnarfjarðarbær mun á næstunni gefa út framkvæmdaleyfi fyrir þeim hluta Suðurnesjalínu 2 sem liggur um land bæjarins.

Bætt ásýnd og hljóðvist við Hamranes tengivirkið
Til að minnka hljóð sem berst frá tengivirkinu verður í ár ráðist í aðgerðir til að bæta hljóðvist tengivirkisins í Hamranesi, m.a. með því að byggja utan um spenna með hljóðdempandi efnum og hækka hljóðmön um 2 metra. Áformaðar breytingar sem leiða af byggingu Sandskeiðslínu 1 og Suðurnesjalínu 2, niðurrifi Hamraneslína 1 og 2 og tilfærslu Ísallína 1 og 2 munu bæta ásýnd tengivirkisins. Stálgrindamöstur sem standa upp úr byggingunni verða minnkuð og aukamöstur innan lóðarmarka fyrir Suðurnesjalínu 1 tekin niður um leið og Suðurnesjalína 2 kemur í rekstur.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets fagnar því að samkomulag hafi náðst um breytingar á flutningskerfi raforku í nágrenni íbúabyggðar í Hafnarfirði. „Samkomulagið er gert í samráði við samtök íbúa á Völlunum í Hafnarfirði og er mikilvægt að þannig hefur náðst niðurstaða sem víðtæk sátt er um,“ segir Guðmundur.

Áætlað er að framkvæmdum, sem felast í samkomulagi Landsnets og Hafnarfjarðarbæjar, ljúki fyrir árslok 2018, að því gefnu að tilskilin leyfi fáist í tæka tíð. Áætlaður kostnaður Landsnets vegna þessara breytinga nemur tæpum 5 milljörðum króna, auk þess er kostnaður við Suðurnesjalínu 2 áætlaður um 2,5 milljarðar króna.

Undirbúningur Sandskeiðslínu hafinn
Bygging Sandskeiðslínu 1 er forsenda þess að hægt verði að rífa Hamraneslínur og gera aðrar breytingar á flutningskerfinu í Hafnarfirði sem felast í samkomulaginu. Til þess að hægt verði að ráðast í þetta verkefni sem fyrst munu samningsaðilar leita eftir samvinnu við önnur sveitarfélög sem málið varðar.

Undirbúningur að byggingu 420 kV Sandskeiðslínu 1 er hafinn. Línan mun liggja í lofti frá nýju tengivirki við Sandskeið að Hrauntungum í Hafnarfirði og þaðan áfram samsíða Suðurnesjalínu 2 að Hraunhellu. Tvær mögulegar útfærslur á legu Sandskeiðslínu 1 frá Hraunhellu að Hamranesi eru til skoðunar. Annars vegar að hún liggi í lofti frá Hraunhellu í samræmi við aðalskipulag Hafnarfjarðar en tengist Hamranesi með jarðstreng frá loftlínuhluta vestan Krísuvíkurvegar. Hins vegar er útfærsla sem byggir á tengingu Sandskeiðslínu 1 frá Hrauntungum beint til álversins í Straumsvík í stað Hamraness.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?