image
11.08.2015

Sæstrengur til Evrópu krefst styrkingar á raforkuflutningskerfi Íslands

Lagning sæstrengs til Evrópu kallar á styrkingu íslenska raforkuflutningskerfisins en hversu miklar þær þurfa að vera ræðst að verulegu leiti af landtökustað strengsins og öryggi tengingarinnar. Athuganir Landsnets benda til að umræddar styrkingar, umfram framtíðartillögur fyrirtækisins um styrkingu flutningskerfisins, séu minni ef strengurinn væri tekinn á land á Suðurlandi heldur en ef landtaka yrði á Austfjörðum.

Töluverð vinna hefur verið lögð í það undanfarin misseri að kanna fýsileika þess að flytja raforku frá Íslandi til Evrópu um sæstreng. Þáttur Landsnets í þeirri vinnu hefur að mestu snúið að því að greina stóru myndina innanlands, þ.e. að bera saman nokkra kosti með tilliti til til uppbyggingarþarfar flutningskerfisins. Niðurstöður þeirra athugana eru kynntar í sérstökum þemakafla í tillögu að kerfisáætlun 2015-2024, sem nú er til kynningar hjá Landsneti og fjallar um áætlaða þróun notkunar og framleiðslu raforku tengdri raforkuflutningskerfinu og uppbyggingu sem ráðgerð er á næstu 10 árum.


Þarf tvær tengingar vegna afhendingaröryggis

Þar kemur m.a. fram að krafa um hátt afhendingaröryggi til sæstrengsins, þ.e. að hægt sé að afhenda það afl sem óskað er eftir þrátt fyrir að ein lína fari úr rekstri, kalli á tvær tengingar fyrir afhendingarstað strengsins. Nákvæm útfærsla á tengingum strengsins við flutningskerfið hafi hins vegar ekki verið skoðuð á þessu stigi né heldur tenging nýrra virkjana sem kunni að verða byggðar vegna hans. 

Miðað við þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar um sæstreng til Evrópu sýnir greining Landsnets að styrkinga er þörf á íslenska flutningskerfinu ef það á að geta sinnt flutningi raforku að landtökustað hans. Þessar styrkingar eru allt frá því að vera frekar litlar umfram framtíðartillögur um styrkingu flutningskerfisins yfir í verulega umfangsmiklar framkvæmdir eftir landtökustað. Þannig myndi t.d. landtaka á Austfjörðum vera hagkvæm með tilliti til lengdar sæstrengsins en krefjast mikillar uppbyggingar á flutningskerfinu þar sem tengingar austur um land eru veikar í núverandi kerfi. Landtaka á Suðurlandi þýddi aftur á móti umtalsvert lengri sæstrengsleið en minni uppbyggingu flutningskerfisins en landtaka á Austfjörðum.


Afhendingaröryggi batnar

Í umfjöllun Landsnets er lögð áhersla á að margt sé enn óljóst varðandi sæstrengsverkefnið, s.s. um gæði landtökustaðs og fleira sem geti haft áhrif á styrkingarþörf flutningskerfisins. Jafnframt er lögð áhersla á að það megi ekki gleymast í umræðunni að styrking flutningskerfisins vegna hugsanlegs sæstrengs nýtist líka til að anna auknu álagi innanlands. Þannig muni áreiðanleiki og afhendingaröryggi kerfisins almennt batna og það verða betur í stakk búið til að þjóna raforkuframleiðendum og notendum, óháð staðsetningu þeirra. 

Kynningarfundur „í beinni“ á Hótel Natura 14. ágúst 

Gerð verður grein fyrir helstu niðurstöðum kerfisáætlunar Landsnets 2015-2024 og umhverfisskýrslu hennar á opnum fundi á Hótel Natura, þingsal 2, milli klukkan 9 og 10:30 föstudaginn 14. ágúst næstkomandi. Að loknum ávarpsorðum Guðmundar Inga Ásmundssonar, forstjóra Landsnets, mun Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar og tæknisviðs Landsnets, fjalla um kerfisáætlunina og Stefán Gunnar Thors, sviðsstjóri umhverfis- og skipulags hjá VSÓ Ráðgjöf, kynnir umhverfisskýrsluna. Áhugasamir, sem eiga þess ekki kost að mæta á Hótel Natura, geta fylgst með beinni útsendingu frá fundinum á heimasíðu Landsnets.

Frestur til að gera athugasemdir eða koma með ábendingar vegna kerfisáætlunarinnar og umhverfisskýrslunnar er til og með 1. september 2015. 

DRÖG að kerfisáætlun og umhverfisskýrslu kerfisáætlunar 2015-2024

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?