image
12.08.2015

Alvarleg bilun staðfest

Nú er ljóst að skerðingar verða áfram í gildi til raforkunotenda í Vestmannaeyjum þar sem ástandsmælingar frá því í dag staðfesta að um alvarlega bilun er að ræða í spenni í tengivirki Landsnets í Rimakoti á Landeyjasandi. Reynt verður að spennusetja hann aftur síðar í dag og jafnframt er verið að undirbúa flutning á varaspenni á svæðið en hann verður ekki kominn í rekstur fyrr en eftir nokkra daga.

Vegna bilunarinnar þarf áfram að skerða raforkuflutning til Vestmannaeyja og mun dreifiveitan í Eyjum, HS Veitur, stýra skerðingunni í samstarfi við sína viðskiptavini, eins og verið hefur frá því bilunin kom upp. Í kvöld verður reynt að spennusetja Rimakostsspenninn að nýju – í þeirri von að hann geti haldist í rekstri í nokkra daga á lágmarksálagi – en Landsnet vinnur nú á fullu að því að koma varaspenni austur að Rimakoti. Ekki er vitað nákvæmlega á þessari stundu hvað það tekur langan tíma, m.a. út af veðri en viðbúið er að varaspennirinn verði ekki kominn í rekstur fyrir austan fyrr en eftir nokkra daga.

Samhliða þessu eru HS Veitur að vinna að því að tryggja meira varaafl til Vestmannaeyja en það hefur ekki reynst nægjanlegt í dag, m.a. vegna þess að allt umsamið varaafl sem á að vera til staðar í Eyjum reyndist ekki tiltækt þegar á reyndi. 

Talið er að bilunin í spenninum í Rimakoti sé í skiptingu í tengibretti milli 132 kílóvolta (kV) og 66 kV spennu en það fæst þó ekki staðfest fyrr en hann hefur verið aftengdur og skoðaður. Svipuð bilun varð í umræddum spenni fyrir níu árum, árið 2006, og var hann þá sendur í fullnaðarviðgerð og hefur síðan þá verið í fullum rekstri.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?