image
13.08.2015

Yfirlýsing frá Landsneti vegna ummæla forstjóra HS Veitna

Vegna ummæla forstjóra HS Veitna í frétt mbl.is fyrr í dag um rekstur spennis í Rimakoti, sem nú er bilaður, vill Landsnet taka fram eftirfarandi:

Líkt og fram hefur komið tvívegis í fréttum, bæði í dag og gær, hefur spennirinn í Rimakoti verið í fullum rekstri frá því að fullnaðarviðgerð fór fram á honum fyrir um níu árum, eða árið 2006. Frá þeim tíma hefur verklag varðandi lestun spennisins fylgt sömu reglum og gilda um aðra spenna í flutningskerfinu. Rimakotsspennirinn er 30 MVA spennir og þarf að flytja bæði raun- og launafl til Vestmannaeyja og hluta Suðurlands. Skilgreint hámarksraunafl sem spennirinn flytur við eðlilegar aðstæður er því 26 MW, að því gefnu að engar aðrar takmarkanir séu fyrir hendi í flutningskerfinu til Vestmannaeyja. Umrædd viðmiðunartala er fengin með því að gera ráð fyrir tilteknum aflstuðli fyrir álagið (0,95) og öryggismörkum miðað við samfellda lestun spennisins (10%).
   
Á liðnu ári hefur álag spennisins nokkrum sinnum náð skilgreindu hámarksálagi en þá er kerfið í raun komið út fyrir eðlileg öryggismörk vegna flutningstakmarkana á Vestmannaeyjastreng 1, sem liggur frá Rimakoti til Vestmannaeyja, og er rekinn samhliða nýjum Vestmannaeyjastreng 3. Afldeiling þeirra á milli er á þann hátt óhagstæð að VM1 yfirlestast áður en VM3 er fullnýttur en ástæðan fyrir því er sú að ekki er hægt að deila flutningi til Vestmannaeyja á milli strengjanna í tengivirki HS Veitna í Eyjum.

Fram til haustsins 2013, þegar Vestmannaeyjastrengur 3 var tekinn í rekstur milli Landeyjasands og Vestmannaeyja, voru það strengirnir VM1 og VM2 sem takmörkuðu flutning rafmagns til Vestmannaeyja en ekki spennirinn í Rimakoti. Á því tímabili voru takmarkanir oft og tíðum töluvert meiri en nú er.

Þegar takmarkanir eru settar á flutning til ákveðins afhendingarstaðar geta ástæðurnar verið margar og tengst takmörkunum í öllum einingum í því kerfi sem flytur rafmagn til staðarins. Í þessu tilviki eru það strengirnir til Vestmannaeyja, rofabúnaður og réttilega einnig spennirinn í Rimakoti. Takmarkanir eru einnig áætlaðar miðað við forsendur kerfisins til að standa af sér truflun á einni einingu og því ekki æskilegt að fulllesta einingar kerfisins.

Álagsþróun í Vestmannaeyjum hefur fyrst og fremst aukist hjá notendum dreifiveitu sem eru á svokölluðum skerðanlegum flutningi en sú notkun er á þeim forsendum að nýta umframflutningsgetu sem til staðar er í flutningskerfinu, þó með fyrirvara um að rekstraröryggi annarra notenda versni ekki. Stýring á afhendingu rafmagns til Vestmannaeyja er í samræmi við stýringu annarra afhendingarstaða í kerfi Landsnets.

Þá skal að lokum áréttað að nú hyllir undir framtíðarlausn þessara mála með byggingu nýs 66 kV tengivirkis í Vestmannaeyjum. Samhliða þeim framkvæmdum verður ráðist í breytingar á tengivirki Landsnets í Rimakoti og hluti Rimakostslínu 1 styrktur til að auka flutningsgetu hennar. Sótt var um leyfi til Orkustofnunar fyrir umræddum framkvæmdum þann 20. mars 2015 og var leyfið gefið út þann 11. ágúst síðastliðinn. Undirbúningur framkvæmda fer nú á fullt skrið hjá Landsneti og er áætlað að þeim verði lokið næsta sumar.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?