image
10.09.2015

Brýnt að Landsnet vinni að sátt með öllum hagsmunaaðilum

„Ef við horfum á stöðuna eins og hún er núna og þá út frá forsendum eftirspurnar eftir rafmagni þá getur stór hluti landsins einfaldlega ekki þróast eðlilega áfram vegna takmarkana kerfisins. Fólk hefur ekki það aðgengi að rafmagni sem þyrfti að vera,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets í viðtali við ViðskiptaMoggann í dag.

„Við náum hvorki að anna því magni sem þörf er á, né heldur að tryggja það afhendingaröryggi sem skiptir sífellt meira máli. Ástandið er orðið þannig að það eru ýmsar truflanir og raskanir sem nútímasamfélag sættir sig ekki við,“ segir Guðmundur enn fremur í viðtalinu. Sá vandi sem þjóðin standi frammi fyrir, hvað uppbyggingu raforkukerfisins varðar, eigi sér ýmsar birtingarmyndir. Nú sé til dæmis útlit fyrir að vatnsskortur verði til þess að takmarka raforkuframleiðslu að nokkru marki á komandi vetri. Það leiði til þess að byggðalínan verði undir mjög miklu álagi.

„Það mun skorta orku á Norðurlandi og Austurlandi og þá þarf að senda orku héðan að sunnan í meira mæli. Þennan flutning þarf að skipuleggja afar vel og kerfið ræður ekki við neina aukningu þegar mikið álag er. Þess vegna horfum við fram á veturinn sem framundan er og sjáum að það þarf að öllum líkindum að grípa til skerðinga. Ekki aðeins vegna þess að það vanti orku heldur einnig vegna þess að flutningskerfið ræður ekki við verkefnið. Þá fara menn að keyra á olíu. Það gerist til dæmis alveg örugglega í fiskimjölsverksmiðjunum. Þær hafa olíuna upp á að hlaupa þegar raforkan bregst. Þá er þetta orðin spurning um það hvort alvarlegir hnökrar séu komnir á stærsta umhverfisátak síðustu ára hérlendis, átak sem fólst í því að rafvæða fiskimjölsverksmiðjurnar kringum landið.“

Íslenskt samfélag stendur á ákveðnum krossgötum um þessar mundir segir Guðmundur enn fremur í viðtalinu vegna þess að mjög aðkallandi er orðið að styrkja til muna flutningskerfi raforku víða um landið. Ef ekki verði brugðist við sem fyrst sé líklegt að afhendingaröryggi raforku muni skerðast og að flutningsnetið verði flöskuháls við atvinnuuppbyggingu á stórum landsvæðum.

„Það er því afar brýnt að Landsnet vinni með öllum hagsmunaðilum að því að ná sem víðtækastri sátt um raforkuflutningskerfið. Þá á ég við sátt um að það sé þörf á að byggja upp kerfið, sátt um þörfina á að bæta aðgengi að rafmagni og sátt um að rafmagnið sé áreiðanlegt. Landsnet þarf að forgangsraða verkefnum til að eiga þetta samtal við samfélagið, bæði til að geta fengið ólík sjónarmið að vinnu okkar en líka til að við getum miðlað okkar hugmyndum á móti. Ef okkur tekst ekki að eiga samtal við þjóðina með það markmið að ná sátt, þá er ljóst að erfitt verður að byggja upp flutningskerfið sem hefur síðan áhrif á byggðaþróun á landinu og þróun atvinnulífsins.“

Viðtal ViðskiptaMoggans við forstjóra Landsnets má lesa í heild hér.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?