image
11.11.2015

Landsnet kaupir rafmagn fyrir ríflega hálfan annan milljarð

Landsnet hefur samið við HS Orku, Landsvirkjun og Orku náttúrunnar um kaup á 347 gígavattstundum (GWst) af rafmagni til að mæta flutningstapi í raforkukerfinu á næsta ári.

Það er um 90% þeirrar orku sem Landsnet áætlar að þurfi til að mæta flutningstöpum árið 2016 en ekki bárust tilboð í allt magnið sem boðið var út. Heildarkostnaður Landsnets vegna samninganna, sem undirritaðir voru af fulltrúum fyrirtækjanna í stjórnstöð Landsnets í dag, er tæplega 1,6 milljarðar króna.

Flutningstöp er sú raforka sem tapast í flutningskerfinu, vegna viðnáms í flutningslínum og spennum, og kaupir Landsnet rafmagn af raforkuframleiðendum til eins árs í senn til að mæta þessu tapi. Framkvæmt var opið útboð á rafmagni vegna flutningstapa og bárust tilboð frá þremur bjóðendum, HS Orku, Landsvirkjun og Orku náttúrunnar.

Boðnar voru út tæplega 380 gígavattstundir (GWst) vegna flutningstapa næsta árs. Það er um 1,5% magnaukning frá yfirstandandi ári þegar boðnar voru út 374 GWst, en einungis bárust nú tilboð í 347 GWst. Það eru rétt ríflega 90% af útboðsmagninu og þarf Landsnet því að leitast við að kaupa síðar þær33 GWst sem upp á vantar.

Heildarkostnaður Landsnets vegna kaupanna á þessum 347 GWst sem gengið var frá í dag við orkusölufyrirtækin þrjú er ríflega 1.558 milljónir króna. Hækkunin er 18% milli ára en meðalverðið á kílóvattstund (kWst) í útboðinu nú var 4,48 krónur, samanborið við 3,8 krónur á kWst í útboðinu haustið 2014.

Hlutfall tapa af afhentri raforku frá flutningskerfinu var 2,1% árið 2015, eða 361 GWst, og samsvarar það raforkunotkun um 75.000 heimila sem ekki eru rafhituð. Áætlað er að hlutfall tapa á næsta ári verði um 2,2%.

Kerfisstyrking myndi bæta orkunýtingu
Töp í flutningskerfi Landsnets hafa farið vaxandi á undanförnum árum. Helsta ástæðan fyrir þeirri þróun er að flutningur eftir byggðalínunni hefur verið í eða yfir flutningsmörkum. Slíkt ástand leiðir til þess að hærra hlutfall af orku tapast þar heldur en í þeim hlutum flutningskerfisins þar sem flutningsálagið er minna. Styrking flutningskerfisins mun leiða til ábyrgari meðferðar orkunnar, betri orkunýtingar og þar með bæta orkumarkað. Styrkingin ætti einnig að minnka kolefnisspor Landsnets því flutningstöp valda töluverðri óbeinni losun gróðurhúsalofttegunda hjá fyrirtækinu.

Mynd:
Frá vinstri talið Páll Erland, framkvæmdastjóri ON, Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets,  Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri framleiðslu og orkusölu hjá HS Orku undirrita samkomulag í stjórnstöð Landsnets í dag um kaup á raforku vegna flutningstapa fyrir
árið 2016. Mynd: Landsnet/Hreinn Magnússon.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?