image
27.03.2018

Jarðstrengskostir voru skoðaðir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í gær úr gildi framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarbæjar vegna Lyklafellslínu 1 á þeim forsendum að ekki hafi verið sýnt nægjanlega fram á að jarðstrengskostir væru ekki raunhæfir og samanburður á umhverfisáhrifum þeirra og aðalvalkosti framkvæmdaraðila hafi ekki farið fram með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir.

Vinna við undirbúning Lyklafellslínu hefur staðið yfir um nokkurn tíma og höfðu öll sveitarfélögin sem línan liggur um gefið út framkvæmdaleyfi fyrir línunni. Línan hefur farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum og er á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar 2015-2024, sem samþykkt var af Orkustofnun, og í fullu samræmi við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulag viðkomandi sveitarfélaga sem línan fer um. Í ljósi þess hversu viðkvæmt svæðið er, þ.á m. vegna vatnsverndar, var framkvæmdin vel undirbúin, farið í sérstakt áhættumat vegna vatnsverndar og ítarleg viðbragðsáætlun gerð.

Jarðstrengskostir voru skoðaðir og lagðir fram í ítarlegri viðbótarskýrslu „Breytingar á flutningskerfinu við Höfuðborgarsvæðið“, þar sem fram kemur að lagning jarðstrengja í vegstæði Bláfjallavegar sé tæknilega framkvæmanlegur kostur og fjórum sinnum dýrari en loftlína. Viðbótarkostnaðurinn nemur rúmum 5 milljörðum króna sem eru verulegir fjármunir. Samkvæmt raforkulögum og með hliðsjón af stefnu stjórnvalda um lagningu raflína í jörðu eru engir jarðstrengskostir sem koma til greina á þessari leið.

Úrskurðurinn gefur nýjar leiðbeiningar, sem ekki hafa komið fram í tengslum við síðustu línuframkvæmdir, um að þurft hafi álit Skipulagsstofunnar á viðbótargögnum sem lögð eru fram til að styðja við framkvæmdaleyfið og að sjálfstætt mat sveitarfélaganna á niðurstöðunum sé ekki nægjanlegt. Munum við ræða við stofnunina um hvaða leiðir séu í þeim efnum.

Það er óhjákvæmilegt að úrskurðurinn þýðir að frestun verður á framkvæmdum við línuna og á tengdum framkvæmdum.

Niðurstaða nefndarinnar eru vonbrigði. Skilvirkni laga og reglna er ekki nægjanleg og í þessu tilviki virðist sem samspil raforkulaga, laga um mat á umhverfisáhrifum og útgáfa framkvæmdaleyfa sé ekki nógu skýrt.

Hér er hægt að nálgast úrskurðinn.

Fannst þér efnið hjálplegt?NoYes
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?