image
01.06.2018

Kerfisáætlun 2018-2027 - Örugg endurnýjanleg orka fyrir þig

Landsnet hefur sett í opið umsagnarferli tillögu að kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfis raforku á Íslandi. Umsagnarferlið, sem stendur til 15. júlí, er tækifæri fyrir hagaðila og almenning að koma að innihaldi kerfisáætlunar og eru allir hvattir til að kynna sér innihald hennar og koma sínum umsögnum á framfæri.

Áætlunin er sú tólfta sem lögð hefur verið fram frá stofnun Landsnets og gildir hún fyrir tímabilið 2018-2027. Hún skiptist í tvo meginhluta, langtímaáætlun um þróun meginflutningskerfisins og þriggja ára framkvæmdaáætlun fyrir tímabilið 2019-2021. Með kerfisáætluninni var unnið mat á umhverfisáhrifum hennar og er það birt í meðfylgjandi umhverfisskýrslu.


Breytt verklag

Meðal helstu breytinga á langtímaáætlun frá útgáfu síðustu kerfisáætlunar má m.a. nefna grunnforsendur kerfisrannsókna, en nú er notast við sviðsmyndir um raforkunotkun frá Raforkuhópi orkuspárnefndar, aukna umfjöllun um flutningsgetu og afhendingaröryggi ásamt því hvernig niðurstöður valkostagreiningar eru settar fram. Að auki hefur mat á þjóðhagslegum ávinningi þess að styrkja flutningskerfið verið uppfært og umfjöllun um áhrif fjárfestinga í flutningskerfinu á gjaldskrá Landsnets verið bætt til muna.

Framkvæmdaáætlun er einnig mikið breytt og hefur umfang hennar aukist til muna. Hún kemur núna út í sér skýrslu sem inniheldur ítarlegar lýsingar á öllum þegar áætluðum framkvæmdum við flutningskerfið fram til ársins 2021. Fyrir öll ný verkefni á framkvæmdaáætlun hefur verið afmörkuð stöðluð valkostagreining sem tekur mið af stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og markmiðum raforkulaga.

Umhverfisskýrsla er unnin á svipaðan hátt og áður og inniheldur mat á umhverfisáhrifum allra skoðaðra valkosta bæði á langtímaáætlun og á framkvæmdaáætlun.

Á fyrri hluta umsagnartímans verða haldnir opnir kynningarfundir um efni áætlunarinnar í Reykjavík, á Egilstöðum, Akureyri, Ísafirði og á Hellu þar sem farið verður yfir innihald áætlunarinnar. Fundartímar og staðsetningar verða auglýstir þegar nær dregur.

Ábendingar og athugasemdir við kerfisáætlun og um umhverfisskýrsluna skal senda til Landsnets á netfangið landsnet@landsnet.is eða á heimilisfangið Gylfaflöt 9, 112 Reykjavík, merkt athugasemdir við kerfisáætlun 2018-2027.

Frestur til að gera athugasemdir eða koma með ábendingar við tillögurnar er til og með 15. júlí 2018.

Það er von Landsnets að flestir kynni sér efni kerfisáætlunar og umhverfisskýrslu.


Fannst þér efnið hjálplegt?NoYes
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?