image
06.06.2018

Verð á rafmagni fer hækkandi

Landsnet hefur samið um kaup á raforku vegna flutningstapa fyrir þriðja ársfjórðung þessa árs á grundvelli útboðs sem fram fór í apríl.

Niðurstöður útboðsins benda til þess að verð á rafmagni fari hækkandi segir Íris Baldursdóttir framkvæmdastjóri kerfisstjórnunarsviðs Landsnets.

„Verðið til okkar er að hækka og það er áhyggjuefni. Við veltum fyrir okkur því regluverki sem er til staðar til að stuðla að samkeppni á almennum raforkumarkaði og hvort eðlilegt jafnvægi sé á milli framboðs og eftirspurnar. Raforkuverð nú er orðið töluvert yfir verði Nordpool eða um 12% umfram meðalverð Nordpool það sem af er þessu ári. Sem dæmi samsvarar þessi umframkostnaður um 395 milljónum króna í innkaupum ársins 2017 vegna flutningstapa. „

Þrír raforkusalar skiluðu inn tilboðum

Flutningstöp er sú raforka sem tapast vegna viðnáms í raflínum og spennum í raforkuflutningskerfinu. Um 2% þeirrar raforku sem mötuð er inn á kerfið tapast á leið til notenda.

Útboðið var framkvæmt rafrænt innan rammasamnings Landsnets um kaup á raforku vegna flutningstapa sem fimm raforkusalar eru aðilar að. Þrír raforkusalar skiluðu inn tilboðum; HS orka, Íslensk orkumiðlun og Orkusalan.

Veruleg hækkun frá verði síðasta árs

Heildarkostnaður kaupanna var rúmar 376 milljónir króna, þar af grunntöp 303 milljónir króna og viðbótartöp 73 milljónir króna. Meðalverð orku vegna flutningstapa á þriðja ársfjórðungi hækkaði um 28% miðað við sama tímabil síðasta ársog verður nú um 4.000 kr/MWh. Hins vegar er lækkun á meðalverði sé miðað við síðasta útboð vegna orku fyrir 2. ársfjórðung 2018. Kostnaður Landsnets vegna flutningstapa endurspeglast í gjaldskrá flutningstapa.

Sú orka sem Landsnet kaupir vegna flutningstapa hefur hækkað nokkuð allt frá árinu 2014, mismikið eftir ársfjórðungum. Hækkunin frá byrjun árs 2014 er 56%.

Raforkuverð töluvert yfir verði Nordpool

Nordpool er stærsti raforkumarkaður í Evrópu. Á síðasta ári var meðalverð til Landsnets um 30% hærra en Nordpol verð og á tímabilinu janúar – april 2018 hefur Landsnet greitt 12% umfram meðalverð Nordpool. Þessi kostnaður samsvaraði á árinu 2017 um 395 milljónir króna.

Nánari upplýsingar gefur Íris Baldursdóttir framkvæmdastjóri í síma 8569312

Fannst þér efnið hjálplegt?NoYes
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?