image
29.08.2018

Verð á raforku lækkar

Landsnet hefur samið um kaup á raforku vegna flutningstapa fyrir fjórða ársfjórðung þessa árs á grundvelli útboðs sem fram fór í júlí og ágúst í sumar.

Íris Baldursdóttir framkvæmdastjóri kerfisstjórnunarsviðs segir niðurstöður útboðsins  jákvæðar  því meðalverð lækki miðað við sama tímabil í fyrra.

„Við sáum miklar hækkanir í kjölfar útboðs í vor og það er ánægjulegt að sjá að sú hækkun er ekki komin til að vera. Fyrirkomulag útboða er þannig að allir raforkusalar ættu að geta tekið þátt en virk samkeppni er lykilatriði í því að tryggja að við getum gengið að hagstæðustu tilboðum í rafmagn á hverjum tíma.“

Þrír raforkusalar skiluðu inn tilboðum

Útboðið var framkvæmt rafrænt innan rammasamnings Landsnets um kaup á raforku vegna flutningstapa sem fimm raforkusalar eru aðilar að. Þrír raforkusalar skiluðu inn tilboðum; Íslensk orkumiðlun, Landsvirkjun og Orka Náttúrunnar en HS Orka og Orkusalan sátu hjá. Alls voru 100 GWst af raforku boðin út en það er sú raforka sem áætlað er að tapist í flutningskerfinu á fjórða ársfjórðungi 2018. Það orkumagn samsvarar nokkurn vegin meðalframleiðslu Kröflustöðvar á 3 mánaða tímabili og myndi nýtast um 60-80 þúsund heimilum. Magnaukning á milli ára nemur tæpum 9%.

Lækkanir fátíðar

Heildarkostnaður kaupanna var 490 milljónir króna. Meðalverð orku vegna flutningstapa á þriðja ársfjórðungi lækkaði um 7,9% miðað við sama tímabil í fyrra og verður nú um 4.874 kr/MWh. Kostnaður Landsnets vegna flutningstapa endurspeglast í gjaldskrá flutningstapa.

Lækkanir sem þessar eru fátíðar en sú raforka sem Landsnet kaupir vegna flutningstapa hefur hækkað nokkuð allt frá árinu 2014. Hækkunin frá síðasta ársfjórðungi 2014 og til síðasta ársfjórðungs í ár er 31%.

Öll tilboð birt á vefsíðu Landsnets

Öll tilboð sem bárust vegna útboðsins eru birt á https://www.landsnet.is og þar er hægt að skoða nánar dreifingu tilboða og bera saman við tilboð fyrri útboða á þessu ári.

Veðurfar hefur áhrif á raforkuverð

Nordpool er stærsti raforkumarkaður í Evrópu. Á síðasta ári var meðalverð raforkusala til Landsnets um 30% hærri en verð á Nordpool og hafði það veruleg áhrif á kostnað vegna flutningstapa. Á tímabilinu janúar – júlí 2018 hefur raforkuverð til Landsnets verið að meðaltali 3% lægra en verð á Nordpool. Hitabylgja og óvenju miklir þurrkar í Norður Evrópu hafa leitt til verulegra hækkana á raforkuverði frá miðju sumri. Aftur á móti er staða vatnsmiðlana hér á landi góð í lok sumars en það er einn þeirra þátta sem hefur áhrif á verðmyndun.

Flutningstöp er sú raforka sem tapast vegna viðnáms í raflínum og spennum í raforkuflutningskerfinu. Um 2% þeirrar raforku sem mötuð er inn á kerfið tapast á leið til notenda.

 

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?