image
07.11.2018

Raforkuverð til Landsnets 5,45 kr/kWh

Landsnet hefur samið um kaup á raforku vegna flutningstapa fyrir fyrsta ársfjórðung 2019 á grundvelli útboðs sem fram fór í október síðastliðnum.

Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri kerfisstjórnunarsviðs, segir niðurstöður útboðsins jákvæðar og að meðalverð sé nærri því óbreytt samanborið við sama tímabil á þessu ári.

„Sögulega hefur raforkuverð verið hæst á fyrstu mánuðum hvers árs en á þeim árstíma er raforkunotkun með mesta móti og eftirspurnin því mikil eftir rafmagni í samfélaginu öllu. Miklar hækkanir á raforkuverði síðustu ára hafa komið niður á okkar viðskiptavinum því þegar raforkuverð hækkar þá veldur það hækkun á gjaldskrá okkar vegna flutningstapa. Að þessu sinni var þátttaka raforkusala góð. Tíðari útboð okkar á raforku eru að skila virkari samkeppni og aukinni þátttöku raforkusala. “

Aukin raforkutöp í flutningskerfinu

Útboðið var framkvæmt rafrænt innan rammasamnings Landsnets um kaup á raforku vegna flutningstapa sem fimm raforkusalar eru aðilar að. Fjórir raforkusalar skiluðu inn tilboðum; Íslensk orkumiðlun, Landsvirkjun, HS Orka og Orka Náttúrunnar en Orkusalan sat hjá. Alls voru 104 GWh af raforku boðin út en það er sú raforka sem áætlað er að tapist í flutningskerfinu á fyrsta ársfjórðungi 2019. Það orkumagn samsvarar nokkurn vegin meðalframleiðslu Kröflustöðvar á 3 mánaða tímabili og myndi nýtast um 60-80 þúsund heimilum. Magnaukning útboðsins á milli ára, fyrir sama tímabil, nemur tæpum 8%.

Aukin raforkutöp í flutningskerfinu og verðlækkanir fátíðar

Heildarkostnaður kaupanna var 565 milljónir króna. Meðalverð orku vegna flutningstapa fyrir fyrsta ársfjórðung 2019 lækkaði lítillega, eða um 0,5%, miðað við sama tímabil í fyrra og verður nú um 5,45 kr/kWh. Kostnaður Landsnets vegna flutningstapa endurspeglast í gjaldskrá flutningstapa.

Lækkanir eru fátíðar en sú raforka sem Landsnet kaupir vegna flutningstapa hefur hækkað nokkuð allt frá árinu 2014. Hækkunin frá fyrsta ársfjórðungi 2014 og til fyrsta ársfjórðungs 2019 er 30,3%.

Öll tilboð birt á heimasíðu Landsnets

Öll tilboð sem bárust vegna útboðsins eru birt á www.landsnet.is og þar er hægt að skoða nánar dreifingu tilboða og bera saman við tilboð fyrri útboða á þessu ári.

Veðurfar hefur áhrif á raforkuverð

Nordpool er stærsti raforkumarkaður í Evrópu. Landsnet hefur borið saman verð á Nordpool frá byrjun árs 2014 við meðalverð tekinna tilboða frá raforkusölum á Íslandi í útboðum Landsnets vegna flutningstapa á sama tímabili. Athygli vekur að á árinu 2017 voru Elspot verðin að meðaltali 18% lægri en meðalverð íslenskra raforkusala til Landsnets. Töluvert hefur dregið úr þessum mun á þessu ári, ekki vegna lækkana í Íslandi, heldur vegna skyndilegrar hækkunar á raforkuverði í Norður Evrópu í kjölfar óvenju mikilla þurrka og hitabylgju þar. Á sama tíma hefur staða vatnsmiðlana hér á landi verið góð í lok sumars og fram á haust sem er einn þeirra þátta sem ætti að hafa áhrif til lækkunar raforkuverðs á Íslandi.

Flutningstöp er sú raforka sem tapast vegna viðnáms í raflínum og spennum í raforkuflutningskerfinu. Ríflega 2% þeirrar raforku sem mötuð er inn á kerfið tapast á leið til notenda.

 

 

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?