image
21.12.2018

Rafsníkir á ferðinni á Brennimelslínu

Laki ehf er íslenskt sprotafyrirtæki sem undanfarin ár hefur unnið að þróun búnaðar til að "sníkja" rafmagn af háspennulínum. Orkan, sem þessi "Rafsníkir" (14. jólasveinninn?) vinnur úr línunni er notuð til þess að knýja ýmsan mæli- og eftirlitsbúnað sem koma má fyrir í búnaðinum.

Gögnin úr tækinu eru aðgengileg í gegnum þægilegt vefviðmót. Í gær, fimmtudaginn 20. desember, var stórum áfanga náð í þróunarferlinu. Prufueintak (prótótýpa) af tækinu var sett upp í eina af 220 kV línum Landsnets, Brennimelslínu 1. Megintilgangurinn með þessari uppsetningu er að sjá hvernig búnaðurinn stendur sig í íslenskri vetrarveðráttu.

Ef vel gengur mun þessi búnaður opna ýmsa möguleika til vöktunar á loftlínum. Með honum má fylgjast með ísingarmyndun á leiðaranum, seltu, lofthita og leiðarahita, svo nokkur atriði séu nefnd.

Auk þess er myndavél í búnaðinum. Það sem gerir þennan búnað frábrugðinn álíka búnaði frá erlendum framleiðendum er einkum það að íslenski Rafsníkirinn getur unnið mun meiri orku úr línunni en þeir. Það gerir hann fjölhæfari, þ.e. hann getur þá fylgst með mun fleiri þáttum.

Við hjá Landsneti erum stolt af því að taka þátt í þessu nýsköpunarverkefni með Laka ehf og höfum fulla trú á að þessi búnaður muni koma að góðum notum, bæði í íslenska flutningskerfinu og, ekki síður, erlendis.Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?