image
27.12.2018

Starfið í stjórnstöðinni snýst um samskipti

Ragnar Guðmannsson, forstöðumaður stjórnstöðvar Landsnets, hefur starfað í stjórnstöðinni í 16 ár og man vart eftir eins góðu ári og þessu sem nú er að líða þegar kemur að straumleysi. Hann segir þó að við þurfum að gera enn betur til að standast samanburð við nágrannalöndin og auka enn frekar afhendingaröryggi kerfisins.

Ragnar lærði í Karlsruhe í Þýskalandi og heldur þýskunni við m.a. með því að lesa Arnald upphátt á þýsku. Þetta er siður sem hann tók upp eftir að hafa lesið ævisögu Lincolns Bandaríkaforseta. Síðustu ár hefur Ragnar verið í markvissri styrkleikavinnu, bæði með sína eigin styrkleika og samstarfsfélaga í stjórnstöðinni – því jú lífið í stjórnstöðinni snýst um viðbragð, þekkingu og samskipti.

Höfum verið að ná árangri

„Árið 2018, ef litið er út frá straumleysismínútum, er með þeim betri – truflanir sem hafa orðið hafa haft lítil áhrif á notendur og ekki er um margar stórar truflanir að ræða enda hefur veðurfar verið gott“ segir Ragnar og bætir við brosandi að maður sé annars fljótur að gleyma.

„Við leggjum mikið upp úr þjálfun þar sem við þjálfum upp viðbragð okkar í truflunum og getu til að meta hratt aðstæður í raforkukerfinu sem tekur sífelldum breytingum. Undanfarið höfum við líka fókuserað á andlegu og mannlegu hliðina. Að þjálfa sig í að vera undirbúin þegar eitthvað gerist, það skiptir ekki síður máli. Það hjálpar okkur einnig hve mikil þróun hefur átt sér stað í staðbundnum kerfisvörnum og víðstýringum en þær eru orðnar býsna margar. Raforkunotkun hefur aukist mikið á undanförnum árum og kerfið víða undir miklu álagi. Þá þurfum við að treysta á sjálfvirkni og varnarbúnað í auknum mæli“

Í stjórnstöðinni hefur verið mikið unnið með samskipti og samvinnu við viðskiptavininn og mikil áhersla lögð á rýnifundi eftir truflanir sem hefur reynst ótrúlega vel. Stjórnstöðin hefur tekið þátt í Lean væðingu Landsnets og mikil vinna hefur verið lögð í að kom á reglulegum rýnifundum. Við vaktaskipti hefur nú verið komið upp töflufundum þar sem farið er yfir verkefnin og hrósið flýgur þegar árangur næst.

„Það skiptir okkur miklu máli að fá aðra sjónarhorn allra á atburðinn og oft kemur maður inn með ákveðna hugmynd en þegar við förum að tala við viðskiptavini eru þeir oft með aðra sýn á hlutina og við lærum alveg ótrúlega mikið af þeim.“

Við erum alltaf á vaktinni

Það eru 15 manns sem standa vaktir í stjórnstöðinni, fjölbreyttur hópur þar sem saman er komin góð blanda af reynsluboltum og yngra fólki sem er ný komið úr námi.

„Það er gaman að vinna í breiðum hópi með mismunandi þekkingu – þetta er í raun eins og þegar ég kom inn á sínum tíma, þar sem frábært var að fá reynslu frá eldri starfsmönnum sem voru tilbúnir að deila sinni þekkingu.“

Unnið er í stjórnstöðinni allan sólarhringinn og segja má að starfið þar sé ekki ólíkt starfi viðbragðsaðila eins og björgunarsveitanna eða bráðavaktar á sjúkrahúsum en einnig er starfinu stundum líkt við starf flugumferðastjóra þar sem kerfisreksturinn er síbreytilegur en alltaf þurfi að gæta að rekstrarörygginu og að rafmagnið skili sér til allra sem þurfa á því að halda.

„Við höfum lært heilmikið t.d. af björgunarsveitunum og Almannavörnum og notum t.d. tetrakerfið meira en önnur flutningsfyrirtæki erlendis og náum þannig hratt til viðbragðsaðila um leið og eitthvað gerist – erum fljót að koma á hnökralausum samskiptum. Menn eru alltaf á tánum og tilbúnir hvort sem þeir eru á vakt eða ekki. Hér er frábær samvinna.“

Rafmögnuð framtíð

„Nýverið fór raforkunotkun í kerfinu öllu yfir 2400 MW og er það afltoppur ársins og reyndar sá hæsti sem mælst hefur nokkurn tíman. Það eru alltaf viss tímamót en yfir dimmasta og kaldasta tíma ársins er iðulega mikið álag á kerfinu. Það er margt sem spilar saman og gerir það að verkum að raforkunotkun vex. Hér áður fyrr var algengt að það kæmi afltoppur á aðfangadag en þannig er það ekki lengur. Við erum á fleygiferð inn í framtíðina og erum farin að stíga inn í fjórðu iðnbyltinguna þar sem við erum með fjölbreyttari raforkuframleiðslu, nýjar tegundir iðnaðar og auðvitað orkuskipti víða í samfélaginu úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega raforku. Framundan er vinna við aukið samtal við viðskiptavinina og dreifiveiturnar og tími til að læra meira af öðrum, lesa og nýta styrkleikana betur – virkja þekkingarþorstann“ segir Ragnar.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?