image
09.05.2019

Spennandi að hitta fólk eins og okkur

„Það er ekki á hverjum degi sem við fáum tækifæri til að hitta fólk sem vinnur í sama umhverfi og við og eru að glíma við sömu vandamálin en raforkukerfin eru auðvitað misstór og stjórnstöðvarnar líka“ segir Margrét Eva Þórðardóttir sérfræðingur í stjórnstöðinni okkar á Gylfaflötinni. Hún ásamt Benedikt Kristjáni Magnússyni, sem líka vinnur sem sérfræðingur í stjórnstöðinni, eiga veg og vanda að undirbúningi og framkvæmd ráðstefnunnar EPCC The International Workshop on Electric Power Control Centers sem haldin verður dagana 12.-15. maí á Hilton Nordica.

TENGSLANETIÐ SKIPTIR MÁLI

Ráðstefnan á sér langa sögu og er þetta í fimmtánda sinn sem hún er haldin en í fyrsta sinn sem hún er haldin hér á landi. Það er skemmtilegt að segja frá því að það eru margir reynsluboltar úr bransanum að koma og flytja áhugaverð erindi um stjórnstöðvarlífið, áskoranir og einstök verkefni tengdum orkustjórnkerfum. 

Það kom þeim Margréti Evu og Benedikt á óvart hvað það eru mikil umsvif að skipuleggja ráðstefnu eins og þessa og hvað það er margt sem þarf að hafa í huga.

 „Áhuginn á ráðstefnunni er ótrúlega mikill og þátttakendur eru orðnir enn fleiri en við áttum von á. Við höfum fyrir löngu náð þeim markmiðum sem við settum okkur með fjölda gesta“ segir Margrét Eva og bætir við að það hafi verið mjög skemmtilegt að vinna í að fá fólk til að tala á ráðstefnunni. Áhersla hafi verið lögð á að hafa sem jafnast kynjahlutfall en niðurstaðan endurspeglar raforkugeirann eins og hann er í dag og því ekki eins margar konur á mælendaskrá eins og þau hefðu óskað. 

Benedikt segir að það sé auðséð að Ísland sé áhugaverður staður í augum fólks og margir hafi haft áhuga á að taka þátt. „Svona ráðstefna vindur alltaf upp á sig og það er ekki bara áhugaverð erindi heldur er líka tengslanetið sem skiptir máli og við hlökkum mikið til að fá tækifæri til að kynnast þessu fólki. Það eru ekki margar sérhæfðar stjórnstöðvar eins og okkar hér á Íslandi og því dýrmætt að fá tækifæri til að spegla okkur í fólki sem vinnur við svipaðar aðstæður og við um allan heim.“ 

Þátttakendur koma víða að bæði sem gestir og fyrirlesarar á ráðstefnunni sem sett verður á sunnudaginn í Ásmundarsafni. Þau eru sammála um að það sé mikil reynsla að halda alþjóðlega ráðstefnu og þau eru full tilhlökkunar að taka þátt í öllu sem verður á dagskránni.
 
LÍFIÐ Í STJÓRNSTÖÐINNI

Það er ekki að hægt að sleppa þeim án þess að spyrja um lífið í stjórnstöðinni okkar – hjartanu á Gylfaflötinni. Þau er í hópi okkar yngstu starfsmanna en hafa fengið eldskírn í stjórnstöðinni, Margrét Eva í orðsins fyllstu merkingu en hún var á vaktinni þegar kviknaði í tengivirkinu okkar við Írafoss á jólanótt.

Þegar ráðstefnunni lýkur gefst tími til að gera eitthvað annað en að hugsa um undirbúninginn og því tilvalið að spyrja hvað þau gera þegar þau eru ekki að halda ljósunum logandi. Þau voru ekki i vandræðum með svör. Margrét Eva ætlar á fjöll enda forfallin fjallaskíðakona og hlakkar til sumarins á fjöllum en Benedikt segist vera á þeim stað í lífinu að vera að leika í sandkassanum með stelpunum sínum, fjöllin bíði á meðan.

Hér er hægt að nálgast dagskrá ráðstefnunnar. 

 

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?