image
10.07.2019

Breyting á gjaldskrá til stórnotenda

Þann 1.júli var gerð breyting á gjaldskrá til stórnotenda. Gjaldskráin var lækkuð tímabundið um 9,5% en fyrir sjáanlegt er að hún hækki aftur eftir 12 mánuði.

Flutningsgjaldskrá Landsnets er í samræmi við tekjumörk sem Orkustofnun setur Landsneti á hverjum tíma.

Breytingar hafa orðið undanfarið á raforkumarkaði með tilkomu nýrra stórnotenda ásamt því að stórar fjárfestingar sem voru áætlaðar hafa dregist verulega vegna tafa í undirbúnings- og leyfisferlum.

Í bráðabirgðarákvæði II í lögum um breytingu á raforkulögum frá 1. mars 2011 segir að Landsneti ber að greiða gengishagnað sem myndaðist á árunum 2008-2010 til baka til stórnotenda á næstu tíu árum, eða í lok árs 2020. Landsnet hefur verið í endurgreiðslufasa vegna þessarar eldri skuldar við stórnotendur og hefur flutningsgjaldskráin því ekki endurspeglar rétt virði í langan tíma. Vegna ofangreindra breytinga hefur endurgreiðslan gengið hægar fyrir sig en annars hefði verið sem veldur einnig þrýstingi á lækkun á gjaldskrá til stórnotenda.

Vegna ofangreindra breytinga og til að uppfylla bráðabirgðaákvæði raforkulaga er því nauðsynlegt að bregðast við með lækkun á gjaldskrá til stórnotenda í afmarkaðan tíma, eða á meðan verið er að ljúka endurgreiðslu. Gjaldskrárlækkunin mun því ganga til baka um mitt ár 2020 með hækkun á gjaldskrá til stórnotenda. Gjaldskráin mun þar af leiðandi komast í jafnvægi, verða gagnsæ og endurspegla rétt virði.

Flutningstöp

Nú liggur fyrir kostnaður vegna flutningstapa fyrir þriðja ársfjórðung 2019 og hefur það áhrif til 19% lækkunar á gjaldskrá vegna flutningstapa.

Flutningstöp eru boðin út á þriggja mánaða fresti og endurspeglar innkaupsverð okkar gjaldskrá vegna flutningstapa hverju sinni. Núgildandi gjaldskrá endurspeglar að mestu kostnað okkar vegna flutningstapa fyrir annan ársfjórðung 2019 ásamt uppgjöri fyrir fjórða ársfjórðung 2018. Nauðsynlegt er því að breyta gjaldskrá vegna flutningstapa frá 1. júlí 2019 til að endurspegla rétt virði.

Gjald vegna flutningstapa lækkar því úr 98,11 kr. á MWst. í 79,34 kr. á MWst.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?