Fyrirhuguð línuleið Hólasandslínu 3. Í undirbúningi umhverfismatsins er verið að skoða loflínu (blár litur), jarðstrengi (gulur litur) eða hvorutveggja (rauður litur).
image
30.10.2019

Erum á réttri leið - Mat á umhverfiskostnaði vegna tengingar á milli Akureyrar og Hólasands

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Landsnet um mat á umhverfiskostnaði vegna Hólasandslínu 3 er Landsnet á réttri leið í umhverfismálum. Niðurstöður gefa m.a. til kynna að greiðsluvilji almennings fyrir mótvægisaðgerðir vegna Hólasandslínu sé ekki svo mikill að hann valdi breytingum á framkvæmdinni.

Ýmsar aðferðir hafa verið þróaðar þar sem lagt er mat á verðmæti umhverfisgæða og þeim aðferðum beitt í margvíslegum tilgangi við áætlanagerð og undirbúning framkvæmda. Hérlendis hefur þessum aðferðum lítið verið beitt og er t.d. ekki gerð lagaleg krafa um slíkt við mat í lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, sem er sambærilegt við lög þessa efnis á Norðurlöndunum.

Einn af mikilvægum þáttum í starfsemi Landsnets er að huga að umhverfisþáttum í framkvæmdum. Í því ljósi var ákveðið að fá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til að vinna rannsóknarverkefni sem fælist í að beita efnahagslegu umhverfismati og meta sjónræn áhrif nokkurra útfærslna á línunni sem tengir Akureyri við Hólasand. Lagt yrði mat á greiðsluvilja vegna umhverfisáhrifa þessara útfærslna, til að meta hagrænt virði umhverfisgæðanna.
Hólasandslína 3 er ein af þremur línum nýrrar kynslóðar byggðalínunnar sem nú er annað hvort í framkvæmd eða í undirbúningi. Markmið framkvæmdarinnar að bæta flutningsgetu, auka afhendingaröryggi raforku á Norðausturlandi og um leið er hún mikilvægur hlekkur í styrkingu kerfisins í heild.

Hólasandslína 3 liggur að mestu í slóð Kröflulínu 1 en framkvæmd eins og þessari fylgir alltaf rask á umhverfi og er skýrslu Hagfræðistofnunar ætlað að leggja mat á þann kostnað sem vilji er til að greiða fyrir umhverfið, þar sem einstaka útfærslur eru bornar saman við framkvæmdakostnað.

„Þetta verkefni er sjálfstætt rannsóknarverkefni sem við fengum góða hjálp við hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Niðurstöður þess eru í miklu samræmi við þær aðgerðir sem við höfðum þá þegar gripið til, til að bæta umhverfisgæðin, og því er þessi rannsókn fyrst og fremst staðfesting á því að við erum á réttri leið“, segir Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdarstjóri Þróunar- og tæknisviðs hjá Landsneti.

Skýrslan hefur verið birt á www.hhi.hi.is

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?