image
13.01.2020

Um jarðstrengi og raftæknilegar takmarkanir

Í kjölfarið á óveðrinu sem gekk yfir landið um miðjan desember heyrðust háværar raddir um að nú þyrfti að herða á því að koma öllum raflínum í jörð. En er það raunhæfur kostur?

Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að gera grein fyrir muninum á dreifikerfi raforku og flutningskerfi. Flutningskerfið, sem Landsnet á og rekur, samanstendur af stærstu flutningslínunum sem flytja raforku á hárri spennu milli landshluta á 132 kV og 220 kV spennu. Að auki eru landshlutakerfin, sem í flestum tilfellum eru rekin á 66 kV og sinna raforkuflutningi til einstakra byggðarlaga, hluti flutningskerfisins. Dreifikerfin taka svo við þegar flutningskerfinu sleppir og dreifa  raforkunni til einstakra notenda. Í stuttu máli má líkja þessu við æðakerfi mannslíkamans; flutningskerfið er hliðstætt stóru slagæðunum sem flytja blóðið um milli einstakra líkamshluta og dreifikerfið samsvarar háræðakerfinu sem dreifir blóðinu til frumanna eða vöðva og einstakra líffæra.

Dreifiveitur hafa staðið sig gríðarlega vel undanfarna áratugi í því að koma sínum línum í jörðu. Eðli málsins samkvæmt ganga hlutir hægar fyrir sig í flutningskerfi raforkunnar enda er þar verið að fást við línur á hærri spennustigum og með meiri flutningsgetu. Þó er rétt að benda á að Landsnet hefur, frá stofnun fyrir 15 árum síðan, lagt allar línur á 66 kV og 132 kV spennu í jörð. Þar er um að ræða rúmlega 150 kílómetra af jarð- og sæstrengjum. Þetta er í fullu samræmi við stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, þar sem segir að meginreglan, við uppbyggingu landshlutakerfa raforku, sé að notast við jarðstrengi að því gefnu að slíkt sé tæknilega raunhæft.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er það eitt af forgangsverkefnum að nýta með sem hagkvæmustum þætti þá orku sem þegar hefur verið virkjuð. Í því skyni þurfi að styrkja flutnings- og dreifikerfi raforku og tengja betur lykilsvæði og skoðað verði að hve miklu leyti megi nýta jarðstrengi í slíkar tengingar með hagkvæmum þætti, eins og það er orðað. Í þingsályktun nr. 26/148 frá 11. júní 2018 um uppbyggingu flutningskerfisins er nánar kveðið á um rannsóknir á mögulegum jarðstrengslögnum og liggja niðurstöður þeirra rannsókna nú fyrir. Þann 16. desember síðastliðinn birtist í samráðsgátt stjórnvalda skýrsla sem dr. Hjörtur Jóhannsson vann um þessi mál að beiðni ráðuneyta Atvinnuvega- og nýsköpunarmála og Umhverfis- og auðlindamála. Meginniðurstöður í þessari skýrslu eru þær að svigrúm til jarðstrengslagna í fyrirhuguðu 220 kV meginflutningskerfi hringinn í kringum landið er afar lítið. Þessar niðurstöður eru í fullu samræmi við það sem Landsnet hefur margoft bent á. Kerfisaðstæður á hverjum stað (þ.e. kerfisstyrkur) hefur grundvallaráhrif á möguleika til jarðstrengslagna, sérstaklega á hæstu spennustigum flutningskerfisins (132 kV og 220 kV). Sé kerfið ekki í stakk búið til þess að taka við strengnum er tómt mál að tala um strenglagnir þar. Þess vegna er nauðsynlegt að greina hvert tilvik vandlega. Undir þetta er tekið í skýrslunni á fleiri en einum stað, t.a.m. „Umfjöllun um kosti og ókosti nýtingar jarðstrengja til styrkingar flutningskerfi raforku er gagnleg ef hún er sett fram í samhengi við tæknilegar hámarkslengdir jarðstrengja. Verkefni þar sem fjallað væri um hve neikvæð eða jákvæð áhrif það hefði á raforkuverð, afhendingaröryggi eða umhverfiskostnað ef allt flutningskerfi raforku væri lagt í jörðu hefði mjög takmarkað gildi ef ekki væri tæknilega mögulegt að leggja nema takmarkaðan hluta kerfisins í jörðu“. Því miður hafa, á síðustu árum, verið birtar skýrslur um t.a.m. jákvæð áhrif jarðstrengslagna á afhendingaröryggi þar sem skautað hefur verið fimlega fram hjá þessum þætti, sem hlýtur að vera grundvallarforsenda í umræðum um þessi mál.

Eins og áður segir koma niðurstöður skýrslunnar okkur hjá Landsneti ekki á óvart. Raunar má segja að þær staðfesti að það svigrúm sem þó er til staðar til strenglagna á 220 kV eigi fyrst og fremst að nýta til þess að fullnægja skilyrðum sem stefna stjórnvalda um lagningu raflína setur, m.a. um á hvaða svæðum komi helst til greina að leggja jarðstrengi.

Magni Þór Pálsson 

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?