image
09.03.2020

Samið við þrjá aðila

Nýverið voru opnuð tilboð í raforku sem áætlað er að muni tapast á öðrum ársfjórðungi en Landsnet býður fjórum sinnum á ári út alla þá orku sem tapast í flutningskerfinu.

Raforkuverð vegna flutningstapa verður 4,28 kr/kWst fyrir annan ársfjórðung 2020. Meðalverð þessa útboðs lækkar því um 10,1% miðað við sama tíma í fyrra en 21 % frá síðasta ársfjórðungi. Raforkuverð fyrir annan ársfjórðung 2020 verður 4,28 kr/kWst. Gjald vegna flutningstapa fyrir sama tímabil verður 99,85 kr. á MWst og lækkar úr 107,3 kr. á MWst, eða um 6,9% milli ársfjórðunga.

Boðin voru út annars vegar grunntöp með fullum nýtingartíma og hins vegar viðbótartöp með 46% nýtingartíma og sveigjanleika sem nemur magn aukningu eða – minnkun um +/- 30%.  Alls voru 93 GWst af raforku boðin út en það er sú raforka sem áætlað er að tapist í flutningskerfinu á næsta ársfjórðungi. Á sama tímabili 2019 voru boðin út 97 GWst.  Raun flutningstöp þess tímabils voru 93GWst en flutningur til dreifiveitna og stórnotenda reyndist minni en áætlun gerði ráð fyrir. Þrátt fyrir 21% lækkun meðalverðs og minnkun flutningstapa lækkar gjaldskráin einungis um 6,9%, en það kemur til vegna minni tekna vegna minni raforkuflutnings.

Að þessu sinni var samið  við þrjá raforkusala, Íslenska orkumiðlun, Landsvirkjun og Orku náttúrunnar á grundvelli þeirra tilboða sem bárust og er heildarkostnaður þeirra um 400 millj. kr. Til að geta tekið þátt í rafrænum útboðum á raforku vegna flutningstapa þurfa raforkusölufyrirtæki að gera rammasamning við Landsnet. Rammasamningur skyldar þó ekki fyrirtæki til þess að taka þátt í útboðunum enda er það val hvers sölufyrirtækis hverju sinni. Í dag eru 5 raforkusalar með rammasamning við Landsnet: HS orka, Íslensk orkumiðlun, Landsvirkjun, Orka náttúrunnar og Orkusalan.

Öll tilboð sem bárust vegna útboðsins eru birt hér á vefnum og þar er hægt að skoða nánar dreifingu tilboða og bera saman við tilboð fyrri útboða.

Flutningstöp er sú raforka sem tapast vegna viðnáms í raflínum og spennum í raforkuflutningskerfinu. Um 2% þeirrar raforku sem mötuð er inn á kerfið tapast á leið til notenda. Sú raforka samsvarar um 400 GWst/ári sem jafngildir framleiðslu Kröflustöðvar eða raforkunotkun um 1.500 rafmagnsbíla á einu ári.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?