image
01.04.2020

Framkvæmdir halda áfram

„Örugg afhending raforku er mikilvægasta viðfangsefni okkar hjá Landsneti og fyrir okkur skiptir líka miklu máli að geta haldið framkvæmdum gangandi eins og mögulegt er, en að sjálfsögðu er heilsa fólks og persónuöryggi númer eitt.“ segir Nils Gústavsson framkvæmdastjóri framkvæmda- og rekstrarsviðs en við tókum við hann létt kaffibollaspjall yfir netið í morgun en hann eins og stór hluti okkar starfsfólks vinnur heima þessa dagana.

Hjá Landsneti er fylgst vel með stöðunni á hverjum degi og allt gert til að halda rekstrinum og verkefnum áfram eins og hægt er innan þess ramma og leiðbeininga sem almannavarnir hafa sett varðandi COVID-19 faraldurinn og samkvæmt neyðar- og viðbragðsáætlun fyrirtækisins.

„Við erum núna m.a. að vinna við Kröflulínu 3 og höfum þar staðið frammi fyrir töluverðum áskorunum, það er enn vetrarveður á framkvæmdasvæðinu og ástandið i heiminum vegna Covid hefur sett strik í reikninginn. Við höfum verið í góðu samstarfi við birgja okkar og verktaka og allir eru að leggja sig fram við að halda verkinu gangandi innan þessa ramma sem viðbragsáætlanir okkar leyfa.“

Starfsmönnum okkar hjá Netþjónustu Landsnets hefur verið skipt upp í hópa og passað er upp á að þeir blandist ekki, þannig að ef upp koma bilanir þá sé alltaf hópur til staðar sem geti brugðist við.

„Þetta eru krefjandi aðstæður. Undanfarið höfum við sinnt viðgerðum á jarðstreng í Hnoðraholti, í miðri íbúðabyggð. Viðgerð gekk vel eftir að okkur tókst að finna bilunina, en það tók nokkurn tíma eins og oft vill verða þegar jarðstrengir bila. Okkar fólk vann þar við erfiðar aðstæður og við vonumst til að strengurinn fari aftur í rekstur í dag.“

Spurður um það hvort að fyrirsjáanlegar séu tafir á framkvæmdum vegna COVID-19 segir Nils að það sé of snemmt að segja til um áhrifin en ljóst sé að það þurfi að aðlaga tímaáætlanir að breyttum aðstæðum.

„Við höfum þegar fengið upplýsingar frá nokkrum erlendum birgjum, m.a. frá Ítalíu, um mögulegar tafir á efni og búnaði sem er í framleiðslu fyrir ný tengivirki okkar í Skagafirði og á Austurlandi. Það mun hugsanlega hafa áhrif á það hvenær við getum komið þeim í rekstur, en það stoppar okkur ekki í ýmsum jarðvinnu- og byggingarframkvæmdum sem við erum í víða. Við erum líka að fara af stað með útboð í nokkrum verkefnum m.a. á tengingu milli Akureyrar og Hólasands, sem er hluti af nýrri kynslóð byggðalínunnar sem nú er ýmist á teikniborðinu eða komin í framkvæmd sbr. Kröflulína 3, milli Kröflu og Fljótsdals.“ segir Nils að lokum og hvetur um leið alla til að fylgjast vel með framgangi mála á vef- og samfélagsmiðlum Landsnets.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?